"Hvölum fer fjölgandi um öll heimsins höf" ­ segir Sigurður Þorsteinsson, skipstjóri á kornflutningaskipi Flórída, frá Atla Steinarssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

"Hvölum fer fjölgandi um öll heimsins höf" ­ segir Sigurður Þorsteinsson, skipstjóri á kornflutningaskipi Flórída, frá Atla Steinarssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. "ÞAÐ er ekkert vafamál, að hvölum hefur fjölgað mikið um öll heimsins höf, og á síðustu mánuðum höfum við oft séð til ferða þriggja til fimm hvala á hverri fjögurra tíma vakt, þar sem hvala strókar voru áður sjaldséðir," sagði Sigurður Þorsteinsson skipstjóri á Liberty Wave, 65 þúsund tonna kornflutningaskipi, sem á undanförnum árum hefur flutt gjafakorn frá Bandaríkjastjórn til vanþróaðra ríkja.

Sigurður, sem nú býr í Pompano Beach á Flórída, sagði að bandarísk stjórnvöld hefðu mælzt til þess við áhafnir kornflutninga skipa fyrir rúmu ári, að þær fylgdust með ferðum hvala á siglingaleiðum skipanna, en þær eru oftast á milli 18. og 28. breiddarbaugs bæði um Atlantshaf og Kyrrahaf. Skipin fara einnig um Indlandshaf og Rauðahafið. Sigurður, sem þekkir vel til hvalveiða frá því hann var á íslenzkum hvalveiðibátum, sagðist hafa lagt mikla áherzlu á það, að áhöfn hans sinnti þessum tilmælum, og til að auka áhuga hennar, kom hann á einskonar keppni um það milli vakta, hverjir sæju flesta hvali. Þessar athuganir sýndu, svo ekki væri um að villast, að hvölum hefði fjölgað verulega á þessum slóðum.

Sigurður sagði að á þessum slóðum væri um margar hvalategundir að ræða, m.a. mikið af langreyði, sem væri auðvelt að þekkja, en sáralítið hefði sézt af steypireyði. Þá hefðu þeir einnig séð mikið af búrhvölum. Sigurður kvaðst hafa undrazt hve mikið er af hvölum í Rauðahafinu, en þar er mest um smáhveli en einnig búrhvali.

Síðasta úthald Sigurðar stóð í átta mánuði og sté hann aldrei fæti á fast land á þeim tíma, því þessi stóru flutningaskip koma aldrei að bryggju, en eru fermd og affermd með dælubúnaði. Á skipunum er aðeins 21 manns áhöfn en sjálfstýritækni notuð til hins ýtrasta.

Íslenzkur lóðs við Panamaskurð

10. desember kom Sigurður og áhöfn hans á Liberty Wave að Panamaskurðinum, Kyrrahafs megin, á leið frá Oregon til Alexandríu í Egyptalandi með gjafa korn. Vissi hann að tæpt var á því að skipinu yrði hleypt í gegnum skurðinn vegna stærðar þess. Um borð komu þrír hafnsögumenn eins og venja er og fyrir þeim var íslenzkur maður, Jónas Þorsteinsson, ættaður frá Hvammstanga en var um skeið kennari við Stýrimannaskólann. Varð fagnaðarfundur með þessum víðförlu íslenzku sæförum og kom Jónas skipi Sigurðar í gegnum skurðinn áfallalaust, þó það risti við botn hans og fyllti svo út í skurðinn að ekki voru nema sentimetrar milli borðstokks og bakka.