Félag sláturleyfishafa: 200 til 250 milljónir töpuðust árið 1988 Á AÐALFUNDI Félags sláturleyfishafa sem haldinn var nýlega kom fram að tap sláturhúsa á síðasta ári var á bilinu 200 til 250 milljónir króna, og hefur staða sláturleyfishafa ekki verið verri...

Félag sláturleyfishafa: 200 til 250 milljónir töpuðust árið 1988

Á AÐALFUNDI Félags sláturleyfishafa sem haldinn var nýlega kom fram að tap sláturhúsa á síðasta ári var á bilinu 200 til 250 milljónir króna, og hefur staða sláturleyfishafa ekki verið verri um langt árabil.

Á aðalfundinum kom fram að gjaldþrot verslana á meðal annars hlut í tapi sláturhúsanna á síðasta ári, en það einkenndist af rekstrarstöðvun margra sláturleyfishafa. Sláturhúsum fækkaði árið 1988 og var unnt að koma til móts við rekstraraðila með tilkomu úreldingarsjóðs. Þá kom fram á fundinum að miklar kjötbirgðir rýra rekst rarfjárstöðu sláturleyfishafa, og einnig valdi sein skil opinberra aðila miklum vandkvæðum í rekstri sláturhúsanna.

Félag sláturleyfishafa hefur beint þeirri áskorun til landbúnaðarráðherra að tafarlaust verði létt þeirri óvissu sem nú ríkir varðandi útvegun rekstrarlána út á sauðfjárafurðir, þannig að afgreiðsla lána geti hafist í þessum mánuði svo sem venja er. Þá leggur fundurinn áherslu á að niðurgreiðslur verði ekki skertar frá því sem nú er miðað við verðgildi, og fjármögnun vegna lagaskyldu sláturleyfishafa um staðgreiðslu afurða verði tryggð. Fundurinn gerir þær kröfur til ríkisvaldsins að það leysi til sín og greiði að fullu birgðir kindakjöts frá haustinu 1987, sem ríkisvaldið hefur ábyrgst bændum fullt grundvallarverð fyrir, en afurðalán hafa verið gjaldfelld og greidd af þessu kjöti. Þá beinir fundurinn þeirri áskorun til landbúnaðarráðherra að endurgreiðsla vaxta og geymslukostnaðar verði færð til þess horfs sem var fyrir 1. mars 1987, ella verði samið við viðskiptabankana um að lána gjaldfallna vexti af kjötbirgðum þar til kjötið selst.