Hrun í bifreiðainnflutningi: 72% samdráttur frá sama tíma í fyrra Stefnir í tveggja milljarða tekjutap ríkissjóðs "TÖLUR um bifreiðainnflutning fyrstu tvo mánuði þessa árs sýna algjört hrun miðað við sama tímaí fyrra," segir í frétt frá...

Hrun í bifreiðainnflutningi: 72% samdráttur frá sama tíma í fyrra Stefnir í tveggja milljarða tekjutap ríkissjóðs "TÖLUR um bifreiðainnflutning fyrstu tvo mánuði þessa árs sýna algjört hrun miðað við sama tímaí fyrra," segir í frétt frá Bílgreinasambandinu. Samkvæmt þeirra tölum hefur innflutningur bíla dregist saman um rúmlega 72% þessa tvo fyrstu mánuði ársins. Fluttir voru inn 885 bílar á móti 3.176 í fyrra. Verði bifreiðainnflutningur svipaður það sem eftir er ársins verður hann minni en nokkru sinni síðan árið 1976. Verð bíla hefur hækkað um 60-70% að meðaltali frá haustmánuðum 1987. Bílgreinasambandið áætlar að tekjutap ríkissjóðs vegna þessa hruns nemi hátt í tveimur milljörðum króna á árinu, miðað við áætlanir í fjárlögum. Mest seldu bílarnir fyrstu tvo mánuði ársins voru af gerðunum Mitsubishi og Lada.

"Áhrif bifreiðainnflutnings á tekjur ríkissjóðs eru veruleg og má ætla að tekjur ríkisins af aðflutningsgjöldum og söluskatti af bifreiðainnflutningi í janúar og febrúar 1989 hafi verið í kring um 300 milljónir og hefði orðið um 1.000 milljónir núna, ef bifreiðainnflutn ingur hefði verið álíka og á sama tíma í fyrra.

Svipaður bifreiðainnflutningur allt árið og í janúar-febrúar 1989 þýðir um helmingi minni innflutning en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga, eða tæplega tveimur milljörðum minni tekjur af aðflutningsgjöldum og söluskatti innfluttra bifreiða.

Á síðastliðnu einu og hálfu ári hefur sérstakt innflutningsgjald af bifreiðum hækkað úr því að vera á bilinu 0%-32% eftir vélarstærð bifreiða í það að vera 16%-66% eftir vélarstærð," segir í fréttinni frá Bílgreinasambandinu.

Síðan 1971 hefur bifreiðainn flutningur oftast verið á bilinu átta til tíu þúsund bílar á ári, samkvæmt yfirliti Bílgreinasambandsins. Fæstir bílar voru fluttir inn 1975, eða 3.494 alls. Árið 1976 voru fluttir inn nokkru fleiri bílar, eða 4.477 alls. Flestir bílar voru fluttir inn 1987, alls 23.459 og í fyrra urðu þeir alls 15.078.

Heildarbílaeign landsmanna í árslok 1987 var 133.540 bílar, sem jafngildir því að 1,8 íbúar hafi verið um hvern bíl. Fólksbílar voru á sama tíma 121.696, eða 2,0 íbúar á bíl.

Meðalaldur bíla á skrá 1986 var um 9 ár og meðalaldur afskráðra bíla það ár var um 13,7 ár.

Fyrstu tvo mánuði þessa árs hafa selst flestir fólksbílar af gerðinni Mitsubishi, 110 bílar eða 15,6% af heildarsölu. Næst kemur Lada með 79 bíla selda, eða 11,2%. 69 Subaru-bílar seldust, eða 9,8%, 63 Toyota- bílar, eða 8,9%, 53 Daihatsubílar, eða 8,1% og 50 Nissan-bílar, eða 7,1%. Mun færri bílar seldust af öðrum tegundum.