Líbanon: Hörð átök þrátt fyrir vopnahléssamkomulag Beirút. Reuter. STRÍÐANDI fylkingar kristinna manna og múslima í Líbanon sömdu um vopnahlé í gærmorgun en harðir bardagar hafa geisað milli þeirra undanfarnar tvær vikur.

Líbanon: Hörð átök þrátt fyrir vopnahléssamkomulag Beirút. Reuter.

STRÍÐANDI fylkingar kristinna manna og múslima í Líbanon sömdu um vopnahlé í gærmorgun en harðir bardagar hafa geisað milli þeirra undanfarnar tvær vikur. Flestir íbúanna í hinni stríðshrjáðu borg héldu sig þó innan dyra af ótta við að vopnahléið yrði skammgóður vermir. Átta klukkustundum eftir að það komst á brutust út bardagar að nýju. Átökin undanfarnar tvær vikur eru með þeim hörðustu frá upphafi borgarastyrjaldarinnar fyrir 14 árum.

Michel Aoun, hershöfðingi og leiðtogi herstjórnar kristinna manna í Líbanon, skipaði hermönnum sínum að slíðra sverðin aðfararnótt miðvikudags og heimildir innan herbúða múslima herma að hersveitir þeirra, sem njóta stuðnings Sýrlendinga, og vinstrisinnaðir skæruliðar hafi fallist á vopnahléið.

Átta klukkustundum síðar féllu sprengjur í hverfi kristinna manna í Austur-Beirút og við strönd landsins, að sögn öryggisvarða og sjónarvotta. Stórskotalið herjanna skiptust á skotum í eina klukkustund áður en kyrrð komst á að nýju.

Útvarpsstöðvar kristinna manna og múslima skýrðu frá því að einn maður hefði týnt lífi og þrír slasast í skothríðinni. Þar með hafa 80 manns fallið í valinn og 262 særst í átökunum undanfarnar tvær vikur.

Aoun, leiðtogi kristinna manna, sakaði sýrlenskt herlið um að brjóta vopnahléið sem samið var um árla gærmorguns fyrir milligöngu utanríkisráðherra Arababandalagsins.

Reuter