Fjármálaráðherra ákveður að greiða laun aðeins fram að verkfallsdegi: "Fjandsamleg aðgerð sem hlýtur að hleypa illu blóði í viðræðurnar" ­ segir Páll Halldórsson formaður BHMR FJÁRMÁLARÁÐHERRA hefur ákveðið að greiða fólki í þeim ellefu aðildarfélögum...

Fjármálaráðherra ákveður að greiða laun aðeins fram að verkfallsdegi: "Fjandsamleg aðgerð sem hlýtur að hleypa illu blóði í viðræðurnar" ­ segir Páll Halldórsson formaður BHMR

FJÁRMÁLARÁÐHERRA hefur ákveðið að greiða fólki í þeim ellefu aðildarfélögum Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, sem boðað hafa verkfall, laun fram að verkfallsdegi, sem er 6. apríl, en ekki mánuðinn allan fyrirfram, eins og almenna reglan er með ríkisstarfsmenn. Eitt aðildarfélag BHMR til viðbótar, Dýralæknafélag Íslands, hefur boðað verkfall frá 11. apríl.

"Við störfum samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og teljum að það eigi að borga laun fyrirfram. Nú hefur það reyndar komið í ljós að fjármálaráðherra kemst upp með annað og við teljum að þetta lýsi því að hann sé ekki mjög samstarfsfús," sagði Páll Halldórsson, formaður BHMR, í samtali við Morgunblaðið. "Þetta er mjög fjandsamleg aðgerð sem hlýtur að hleypa illu blóði í viðræðurnar og fjármálaráðherra hlýtur að vera það ljóst. Mér þykir það mjög athyglisvert að Ólafur Ragnar Grímsson, sem hefur nú látið margt frá sér fara um ævina, er farinn að ganga í smiðju til Alberts Guðmundssonar um framkomu gagnvart opinberum starfsmönnum," sagði Páll ennfremur.

Í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins varðandi þessa ákvörðun er vísað til úrskurða Félagsdóms og Bæjarþings Reykjavíkur, varðandi ágreining sem reis um þetta atriði vegna verkfalls BSRB sem hófst 4. október 1984, en þá var Albert Guðmundsson fjármálaráðherra og ákvað að greiða laun aðeins fyrstu þrjá dagana. Það sama gilti um Reykjavíkurborg. Úrskurðirnir gengu ríkinu og Reykjavíkurborg í hag og úrskurði Bæjarþings Reykjavíkur var ekki áfrýjað.

Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra var spurður um röksemdir fyrir þessari ákvörðun. "Í fyrsta lagi er það hin almenna regla á vinnumarkaðnum að laun eru ekki greidd þeim sem eru að fara í verkfall eftir verkfallsdag. Í öðru lagi var 1984 ákveðið af hálfu fjármálaráðuneytisins að greiða bara laun fram að verkfallsdegi, þar sem ríkið er með fyrirfram greidd laun og sami háttur var einnig hafður á 1987." Ólafur vísar til dómanna, sem greint er frá hér að framan.

"Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þetta er mjög viðkvæmt mál, eðlilega, sérstaklega hjá félögum opinberra starfsmanna, sem hafa kannski sum talið að þau ættu að fá fyrirfram greidd laun þótt búið væri að boða til verkfalls og vera þannig á fullum launum jafnvel í eina, tvær eða þrjár vikur í verkfalli."