Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga um atvinnumál: Ríkisstjórnin var harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi ODDVITAR og bæjarstjórar veittust harðlega að ríkisstjórninni fyrir aðgerðaleysi í málefnum fyrirtækja í rekstrarerfiðleikum á samráðsfundi ríkis og...

Samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga um atvinnumál: Ríkisstjórnin var harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi

ODDVITAR og bæjarstjórar veittust harðlega að ríkisstjórninni fyrir aðgerðaleysi í málefnum fyrirtækja í rekstrarerfiðleikum á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga um atvinnumál, sem haldinn var í gær. Í umræðum eftir framsöguræður lýstu margir sveitarstjórnamenn miklum áhyggjum af fjárhagsástandi fyrirtækja og sveitarfélaga. Sumir lýstu skuldum fyrirtækja við sveitarfélögin þannig að þær nemi allt að þreföldum árstekjum sveitarfélaganna og í ofanálag skuldaðiríkið þeim fé vegna framkvæmda. Þeir brýndu viðstadda ráðherra til tafarlausra aðgerða.

Allmargir oddvitar og bæjarstjórar töluðu og sögðu frá bágu atvinnuástandi heima fyrir og skoruðu á viðstadda ráðherra að bregða við hart og finna leiðir til að leysa sveitarfélögin undan því oki að þurfa að fjármagna hallarekstur framleiðslufyrirtækjanna. Þau væru mörg hver svo illa stödd, að þau fengju enga fyrirgreiðslu úr Atvinnutryggingasjóði. Þeir gagnrýndu meðal annars að ríkissjóður tekur hluta af skuldbreytingalánum til sín og að skuldabréf Atvinnutryggingasjóðs eru ekki gjaldgeng, jafnvel ekki í peningastofnunum ríkisins, nema með afföllum.

Þorvaldur Jóhannsson bæjarstjóri á Seyðisfirði sagði meðal annars: "Við eigum hjá tveimur fyrirtækjum útistandandi meira heldur en nemur öllum áætluðum útsvarstekjum þetta ár. Það er alveg ljóst að ef ekki verður farið að gera eitthvað í þessum málum, þá hreinlega þolir sveitarfélagið þetta ekki. Vandinn var fyrirséður fyrir einu og hálfu ári. Það er búið að tala og kjafta um þetta í eitt og hálft ár. Það hefur bókstaflega ekkert verið gert af viti, fyrr en, ég skal viðurkenna það, núna að það er kannski að rofa til í þessu."

Steingrímur Hermannsson svaraði fyrir ríkisstjórnina og spurði hvers menn óskuðu, hvort það væri gengisfelling eða eitthvað annað. Hann minnti á Atvinnutryggingasjóð og Hlutabréfasjóð og hafnaði því að ríkissjóður ætti að halda gangandi fyrirtækjum, sem engan rekstrargrundvöll hefðu og hefðu jafnvel aldrei haft.

Þórður Skúlason varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga minnti á í framsögu að efnahagslegar ytri aðstæður hefðu verið með allra hagstæðasta móti undanfarin tvö ár. "Samt sem áður erum við hér á þessum fundi að tala um vanda atvinnulífsins, sérstaklega vanda útgerðarinnar og fiskvinnslunnar. Sá vandi er ekki vegna ytri aðstæðna, heldur vegna þess hvernig haldið hefur verið á málum hér heima fyrir og þá ekki hvað síst af ríkisvaldinu og þeim sem með það fara og með það hafa farið á undanförnum misserum. Strax á miðju síðastliðnu ári, í miðju góðærinu, var ljóst hvert stefndi," sagði hann og rakti ágreining stjórnmálamanna um leiðir og síðan efnahagsaðgerðir núverandi ríkisstjórnar og markmið hennar. "En höfuðmarkmiðið, aðkoma hjólum atvinnulífsins aftur á liðugan snúning, það virðist hafa gleymst."

Annar fundur forsvarsmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins verður boðaður um sama málefni innan skamms.