Staða skólastjóra Ölduselsskóla auglýst Pólitískar ofsóknir gegn skólastjóranum, segir Davíð Oddsson borgarstjóri Menntamálaráðherra hefur ákveðið að auglýsa stöðu skólastjóra við Ölduselsskóla í Reykjavík lausa til umsóknar frá og með 1. ágúst...

Staða skólastjóra Ölduselsskóla auglýst Pólitískar ofsóknir gegn skólastjóranum, segir Davíð Oddsson borgarstjóri Menntamálaráðherra hefur ákveðið að auglýsa stöðu skólastjóra við Ölduselsskóla í Reykjavík lausa til umsóknar frá og með 1. ágúst næstkomandi. Er það gert eftir að 17 af 38 föstum kennurum skólans höfðu ákveðið að segja starfi sínu lausu vegna samstarfsörðugleika í skólanum. Davíð Oddsson borgarstjóri segir, að hér sé um pólitískar ofsóknir að ræða gagnvart skólastjóranum. Ekki hafiverið fjallað um mál hans í fræðsluráði Reykjavíkur eins og reglursegja til um, áður en ákveðið var að auglýsa stöðuna. Það sé fræðsluráðs að leggja til við ráðuneytið hvort staða, sem skipað hafi verið í til eins árs, sé auglýst eða ekki.

Að sögn Sólrúnar Jensdóttur, skrifstofustjóra skólamálaskrifstofu menntamálaráðuneytisins, var Sjöfn Sigurbjörnsdóttir sett í stöðu skólastjóra til eins árs frá 1. ágúst síðastliðnum en nú er ákveðið að staðan verði auglýst þegar setning Sjafnar rennur út. "Við höfum verið að kanna þetta mál af og til í vetur vegna samstarfsörðugleika í þessum skóla og ráðherra hefur verið gerð grein fyrir ástandinu," sagði Sólrún. "Það hafa verið vandræði í skólanum en það sem reið baggamuninn var að við fengum staðfestar upplýsingar um að 17 fastráðnir kennarar af 38 ætluðu að hætta vegna þessara örðugleika. Við sáum enga aðra leið, en þetta er auðvitað alvarlegt mál fyrir skólann."

Fræðsluráð Reykjavíkur mun funda um málið í dag og senda frá sér ályktun. Að sögn Davíðs Oddssonar borgarstjóra má líta á ákvörðunina sem áfellisdóm ráðherra yfir skólastjóranum, þar sem fræðsluráði hafi ekki borist skýringar með formlegum hætti á þessari ákvörðun. Eina dæmið sem hann myndi eftir um að settur skólastjóri, sem hafði meðmæli fræðsluráðs, en fékk þó ekki fastráðningu þegar hann sótti um, var í tíð Brynjólfs Bjarnasonar sem menntamálaráðherra fyrir rúmum 40 árum. "Það er mjög sérstætt að ráðuneytið skuli grípa inn í málið með þessum hætti," sagði Davíð. "Ég hlýt að líta á þetta sem pólitíska ofsókn gagnvart þessum tiltekna skólastjóra." Það hlyti að vera grundvallaratriðið að skólastjórinn fengi eins og aðrir að leggja sitt mál fyrir fræðsluráð og það kannað hvort hann hefði meðmæli ráðsins eða ekki. Það nægði ekki að einhverjir kennarar tilkynntu í lokuðu bréfi, sem ekki hefur borist skólayfirvöldum í Reykjavík, að þeir hygðust skipta um skóla.

Ekki tókst að ná í Sjöfn Sigurbjörnsdóttur í gær vegna þessa.