Fjölmiðlar Time og Warner sameinast Verður næststærst í tímaritaútgáfu, næststærsta kapalsjónvarpsog hljómplötufyrirtækið og það stærsta í áskriftarsjónvarpi og markaðssetningu bóka BANDARÍSKU fyrirtækin Time og Warner Communications, sem hafa ákveðið að...

Fjölmiðlar Time og Warner sameinast Verður næststærst í tímaritaútgáfu, næststærsta kapalsjónvarpsog hljómplötufyrirtækið og það stærsta í áskriftarsjónvarpi og markaðssetningu bóka

BANDARÍSKU fyrirtækin Time og Warner Communications, sem hafa ákveðið að sameinast, eiga sér aðeins eitt starfssvið sameiginlegt, kapalsjónvarpið. Samt sem áður má segja um fyrirtækin, að þau séu eins greinar á sama meiði.

Bæði fyrirtækin voru stofnuð á þriðja áratugnum og efldust stöðugt eftir því sem starfsemin, sem þau höfðu forystu um, tímaritaútgáfa fyrir fjöldann og kvikmyndirnar, lagði undir sig Bandaríkin og heimsbyggðina alla. Smámsaman hafa þau færst nær hvort öðru. Time hefur fært út kvíarnar með sjónvarpsrekstri og tímaritin, sem það gefur út, eru nú meira í ætt við skemmtanaiðnaðinn en gamaldags blaðamennsku.

Fyrirtækin búa vel og á virðulegum stöðum á Manhattan og það hefur þótt einkenna forstjóra og aðra frammámenn þeirra beggja, að þeir hafi viljað berast dálítið á. Þeim er þó talið vel stjórnað en eru samt ekki mjög hátt skrifuð á verðbréfamarkaðnum. Warner tókst að komast hjá að vera keypt upp árið 1983 og árum saman hefur verið talað um, að Time yrði skipt upp.

Eru að missa forystu á heimsmarkaði

Mestu skiptir þó, að fyrirtækin tvö hafa verið að missa þá forystu, sem þau höfðu lengi á heimsmarkaðnum. Á síðustu fimm árum hafa evrópsk, áströlsk og japönsk fyrirtæki gert strandhögg í þeim iðngreinum, sem Time og Warner sköpuðu, og lagt með því grunninn að frekari útþenslu um heim allan.

Taka má tímaritin sem dæmi. Rupert Murdoch, sem kom fótunum undir fjölmiðlaveldið sitt í Ástralíu og Bretlandi, notaði aðeins á síðasta ári þrjá milljarða dollara til að kaupa tímaritið TV Guide, sem nýtur gífurlegra vinsælda, og aðra titla í Triangle-útgáfusam steypunni. Franska fyrirtækið Hachette keypti sex önnur tímarit, þar á meðal Women's Day, fyrir 700 milljónir dollara og hratt þarmeð Time úr sessi sem stærsti tímaritaútgefandinn.

Helstu fyrirtækjakaup Times á þessum tíma voru þau, að það keypti fyrir 185 milljónir dollara helming hlutabréfa í Whittle Communications en það gefur út tímarit, sem beinast að afmörkuðum en þó sundurlausum lesendahóp um, t.d. sjúklingum á biðstofum lækna. Time-tímaritin sex, Time, People, Fortune, Sports Illustrated, Money og Life, eru enn í fremstu röð á bandaríska markaðnum en erlendis er hlutdeildin lítil.

Warner eina albandaríska stórfyrirtækið í hljómplötuútgáfu

Warner hefur ávallt haft meiri áhuga á heimsmarkaðnum en Time en á því sviði, sem það hefur verið öflugast, í hljómplötuútgáfunni, sem nemur tveimur milljörðum dollara árlega, hafa erlend fyrirtæki stöðugt verið að sækja á. Sony-fyrirtækið japanska keypti CBS Records undir árslok 1987 og Warner er nú eina albandaríska stórfyrirtækið í þessari grein.

Það voru Bandaríkjamenn, sem hófu þennan iðnað, en að undanskildu Warner eru öll bandarísku fyrirtækin komin í hendur breskra, japanskra, þýskra og hollenskra fyrirtækja," segir Steven Ross, stjórnarformaður Warners.

Í bókaútgáfunni þar sem Time er enn öflugt hafa Bertelsmann í Vestur-Þýskalandi og Bretinn Robert Maxwell lagt undir sig stóran hluta af enska málsvæðinu og jafnvel Hollywood kann að falla útlendingunum í skaut. Sony, sem er augljóslega mjög ánægt með kaupin á CBS Records, er á höttunum eftir kvikmyndaveri og í fyrra munaði minnstu, að það keypti MGM-UA. Vitað er, að nú hefur það mikinn áhuga á að komast yfir Columbia Pictures.

Bandaríkjamenn snúast til varnar

Með sameiningu Times og Warners hafa Bandaríkjamenn snúist til varnar. Geoffrey Holmes, varaforseti Warners, segir, að þreifingar milli fyrirtækjanna hafi byrjað fyrir tveimur árum. Tóku þátt í þeim Steven Ross, Richard Munro, stjórnarformaður Times, og aðstoðarmaður hans, Nick Nicholas, og fóru þær aðallega framá heimili Ross. Var hugmyndin sú að sameina kapalsjónvarpsstarf semi beggja fyrirtækjanna ásamt áskriftarsjónvarpsrekstri Times og upptökuverum Warners en Munro lagði brátt til, að fyrirtækin sameinuðust alveg.

Talsmenn beggja segja, að sameinað muni fyrirtækið geta tekið þátt í samkeppninni á heimsmarkaði. Við teljum, að nú séu að myndast sex, sjö eða kannski átta stórfyrirtæki í fjölmiðla- og skemmtanaiðnaðinum. Eitt eða tvö verða japönsk, tvö evrópsk og tvö bandarísk. Time-Warner verður annað þeirra," sagði Nicholas, sem verður í forsvari fyrir fyrirtækinu.

Umsvif þessa nýja fyrirtækis eru líka athyglisverð. Það verður næststærsti tímaritaútgefandi í heimi, næststærsta kapalsjónvarps- og hljómplötufyrirtækið og það stærsta í áskriftarsjónvarpi og markaðssetningu bóka. Warner hefur að vísu aðeins öðru hverju verið stærsta kvikmyndafyrirtækið en þó það arðsamasta til jafnaðar. Þá verða árstekjur beggja fyrirtækjanna um 10 milljarðar dollara og meiri en Bertelsmanns, stærsta fjölmiðlafyrirtækisins til þessa.

Auk þessa verður eiginfjárstaða Time-Warners einstaklega góð. Er ástæðan sú, að sameiningin fór fram með hlutabréfaskiptum en ekki beinum fjárútlánum og því var ekki stofnað til neinna nýrra skulda. Handbært hlutafé er meira en þrír milljarðar dollara og aðeins rúmur helmingur í skuld og því getur fyrirtækið reitt fram mikið fé vilji það færa út kvíarnar og kaupa upp önnur fyrirtæki. Í þessu sambandi má nefna, að Rupert Murdoch stofnaði nýlega fyrirtæki til að annast uppkaup á öðrum og leitaði þá til utanaðkomandi manna við fjármögnunina. Með því viðurkenndi hann í raun, að hann væri búinn að teygja sig lengra en hann réði sjálfur við.

Það er nú stóra spurningin hvernig rekstri Time-Warners verður háttað. Aðeins kapalsjón varpið verður sett undir einn hatt en önnur starfsemi verður áfram aðskilin. Yfirmenn einstakra greina verða aðeins níu talsins. Það á eftir að sýna sig hvernig þetta fyrirkomulag gefst.