Verðbréfaþing Ákvæði skattalaga hamla skráningu hlutabréfa ÁKVÆÐI laga um tekju- og eignarskatt hamla skráningu hlutabréfa á Verðbréfaþingi Íslands þar sem gert er ráð fyrir að opinberlega skráð hlutabréf skuli metin til eignarskatts á síðasta skráða...

Verðbréfaþing Ákvæði skattalaga hamla skráningu hlutabréfa

ÁKVÆÐI laga um tekju- og eignarskatt hamla skráningu hlutabréfa á Verðbréfaþingi Íslands þar sem gert er ráð fyrir að opinberlega skráð hlutabréf skuli metin til eignarskatts á síðasta skráða gengi í árslok. Til þessa hefur skattur einungis verið greiddur af nafnverði hlutabréfa. Þá má nefna að kröfur um birtingu milliuppgjörs kunna ennfremur að draga úr áhuga á skráningu en ekkert íslenskt fyrirtæki hefur enn birt endurskoðuð milliuppgjör.

Stjórn Verðbréfaþings Íslands samþykkti reglur um gengisskráningu hlutabréfa á fundi sínum þann 16. maí á síðastliðnu ári og lýsti því yfir að þingið væri reiðubúið að taka umsóknir um skráningu hlutabréfa til meðferðar. Engin umsókn hefur hins vegar borist af ofangreindum ástæðum en þrjú verðbréfafyrirtæki skrá nú hlutabréf. Það eru Fjárfestingarfélagið, Hlutabréfamarkaðurinn hf. og Kaupþing hf. sem nýlega hóf skráningu.

Nýlega var lögð fram þingsályktunartillaga af Friðrik Sophussyni og fleirum um að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði. Þar er bent á ýmsar hindranir sem koma í veg fyrir að ráðist sé í arðvænlega fjárfestingu í atvinnulífinu. Þar er m.a. vakin athygli á því að til að fyrirtæki skrái hlutabréf sín á Verðbréfaþingi Íslands þurfi að breyta 74. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en þar segir að opinberlega skráð hlutabréf skuli metin til eignarskatts á síðasta skráða gengi í árslok. Til greina komi að hafa skattfrádráttarreglur laga nr. 9/1984 rýmri fyrir fyrirtæki sem séu skráð á Verðbréfaþingi Íslands.

Bent er á að auka þurfi verulega fjárhæðir sem nú séu frádráttarbærar frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Söluhagnaður af hlutabréfum verði skattfrjáls í þrepum eftir tiltekinn lágmarks eignarhaldstíma t.d. þrjú ár. Skattleysismörk vegna eignarskatts verði hækkuð og unnið að því að allar eignir verði meðhöndlaðar eins gagnvart eignarskatti. Fyrirtæki verði hvött með skattalegum aðgerðum til að bjóða út hlutabréf til almennings. Arður, allt að 15% af heildar eigin fé fyrirtækis í árslok, verði skattfrjáls hjá móttakanda, en frádráttarbær án takmörkunar hjá greiðanda. Reglugerðir lífeyrissjóða verði endurskoðaðar þannig að lífeyrissjóðum verði heimilt að kaupa hlutabréf eftir ákveðnum reglum. Loks segir í þingsályktunartillögunni að á þessu ári verði málefni hlutabréfamarkaðar tekin til víðtækrar athugunar í því skyni að örva viðskipti með hlutabréf í landinu.