Verðlaun Útflutningsverðlaun Forseta Íslands 1989 veitt í fyrsta sinn ÚTFLUTNINGSVERÐLAUN Forseta Íslands verða veitt í fyrsta skipti á sumdarinn fyrsta, þann 20. apríl nk.

Verðlaun Útflutningsverðlaun Forseta Íslands 1989 veitt í fyrsta sinn

ÚTFLUTNINGSVERÐLAUN Forseta Íslands verða veitt í fyrsta skipti á sumdarinn fyrsta, þann 20. apríl nk. Útflutningsráð Íslands hefur í samvinnu við embætti Forseta Íslands ákveðið að útflutningsverðlaunin verði framvegis veitt einu sinni á ári til einstaklinga eða fyrirtækja, innlendra eða erlendra, sem unnið hafa sérstaklega gott starf til að auka sölu á íslenskum vörum og þjónustu á erlendum mörkuðum. Verður m.a. tekið tillit til útflutningsaukningar, vægis útflutnings í heildarveltu og árangurs á sérstaklega erfiðum mörkuðum.

Verðlaunin eru sambærileg við verðlaun í Danmörku sem heita Heiðursverðlaun Friðriks níunda og á BretlandseyjumÚtflutnings verðlaun Bretadrottningar. Að sögn Ingjalds Hannibalssonar, framkvæmdastjóra Útflutningsráðs, fær verðlaunahafinn í hendur verðlaunagrip og skjal, auk þess sem hann fær leyfi til að nota sérstakt merki á kynningarefni sínu í fimm ár frá afhendingu verðlaunanna. "Hér er um mjög verðuga viðurkenningu að ræða fyrir alla þá aðila sem vinna að íslenskum útflutningi. Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, mun afhenda verðlaunin við sérstaka athöfn á sumardaginn fyrsta, sem er dagur birtu og bjartsýni og á því vel við sem dagur útflutningsverðlauna", sagði Ingjaldur.

Í úthlutunarnefnd eiga sæti Þorvaldur Gylfason, deildarforseti viðskipta- og hagfræðideildar HÍ, formaður, Ólafur B. Thors frá Landsnefnd alþjóðaverslunarráðsins, Ragna Bergmann, varaforseti ASÍ, Kornelíus Sigmundsson frá embætti Forseta Íslands og Ingjaldur Hannibalsson frá Útflutningsráði.