Ragnar Á. Sæbjörnsson ­ Minningarorð Fæddur 2. ágúst 1925 Dáinn 19. janúar 1989 Föstudaginn 20. janúar sl. bárust þær fréttir á heimili mitt að Raggi, vinur minn og frændi konu minnar, hefði fengið ljúfan viðskilnað kvöldið áður. Þannig er gott að fá að fara, þó að okkur, sem sjáum að baki hans, finnist það sárt og hefðum óskað eftir lengri samveru hérnamegin. Mig langar til að minnast hans með nokkrum fátæklegum línum.

Ragnar Ármann Sæbjörnsson fæddist þann 2. ágúst 1925, hann var því á 64. aldursári er hann lést, sem ekki þykir hár aldur í dag. Hann var fæddur í Dalhúsum, Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Sæbjörn Þórarinsson bóndi og söðlasmiður í Nýjabæ, sem mun hafa verið fæddur á Brekku í Fljótsdal þann 25. apríl 1886, móðurætt hans var úr Berufirði en föðurætt úr Þistilfirði, og kona hans Ásta Laufey Guðmundsdóttir fædd í Reykjavík þann 15. febrúar 1905, bæði móður og föðurætt hennar voru úr Rangárvallasýslu.

Nýibær er fyrsti bær, sem komið var að þegar farið var yfir Sandvíkurheiði frá Vopnafirði til Skeggjastaðahrepps. Þau hjón áttu tíu börn, sem öll komust upp, og margt manna er frá komið. Þau voru þessi: Fanney Ingibjörg, húsmóðir í Sandgerði. Guðjón Aðalsteinn, vélstjóri í Sandgerði. Þriðji í röðinni var Ragnar, þá Þórarinn, smiður í Sandgerði. Arnbjörg, húsmóðir í Keflavík. Svavar Sigurður, verkstjóri í Sandgerði. Lilja húsmóðir íÁstralíu. Heiða, húsmóðir í Sandgerði. Guðlaug Margrét, húsmóðir í Garði og yngstur er Kári, rafvirki búsettur í Sandgerði. Einsog sjá má var systkinahópurinn stór, og því mun þörfin fyrir vinnuafl hafaverið mikil og mun Raggi snemma hafa byrjað að hjálpa til við bústörfin. Einnig mun hann um tíma hafaverið í kaupavinnu í Vopnafirði. Eitt sumar vann hann við viðgerð eða uppbyggingu á Bjarnareyjarvita í Vopnafirði, þess tíma minntist hann stundum. Gaman var að koma með honum í sína fæðingarsveit, því húnvar honum kær. Þar þekkti hann sig vel og rifjaði upp örnefni og liðna tíð á ferð um sveitina, í tjaldi í fögrum hvammi við Hölkná, við undirleik árinnar.

Sumarið 1945 bregður fjölskyldan búi og lagði land undir fót flutti suður til Sandgerðis, og settist þar að. Það má segja að þá hafi hlaupið á snærið hjá Sandgerðingum að fá þann liðsauka, sem fjölskyldan stóra var. Þar reistu þau sér hús, sem nefnt var Bergholt. Í því húsi bjó Raggi eftir það með foreldrum sínum og systkinum. En smám saman hvarf systkinahópurinn að heiman. Svo fórað lokum að hann var einn eftir með foreldrum sínum þar til að þau létust, Sæbjörn þann 22. september 1973 og Ásta Laufey þann 20. desember sama ár. Það voru því ekkinema þrír mánuðir á milli gömlu hjónanna í Bergholti. Eftir það bjó Raggi ýmist einn í Bergholti, eða hafði leigjendur í heimili með sér. Hann var mikið gefinn fyrir land búskap, og fljótlega eftir að til Sandgerðis kom, komu þeir feðgar sérupp dálitlum fjárbúskap. Nú síðari ár hafa þeir bræður Raggi og Svavar verið saman með fé sér til gamans, og höfðu aðstöðu til þess á svonefndum Sandhól, sem er í landi eyðibýlisins Þóroddsstaða rétt fyrir norðan Sandgerði.

Fyrst eftir að Raggi kom suður fór hann að vinna í fiskvinnu, lengstaf með mági sínum Jóhanni Þorkelssyni hjá Garði hf. og Guðmundi Jónssyni frá Rafnkelsstöðum og fyrirtæki því er Guðmundur og synir hans ráku. Fyrir um það bil þremur árum varð hann að láta af störfum vegna heilsubrests. Eftir það gafst honum betri tími til að fylgjast með rollunum sínum, sem mér fannst alltaf vera ofarlega í huga hans. Um tíma vann hann við múrverk hjá frænda sínum Óskari Guðjónssyni múrarameistara í Sandgerði, og fórst honum það verk vel úr hendi, enda starfsmaður mikill. Ég sem skrifa þessar línur naut starfs hans á því sviði er hann kom austur til Neskaupstaðar og múrhúðaði hús mitt hátt og lágt. Það voru ánægjulegir dagar fyrir mig og fjölskyldu mína, eins og ávallt var er Raggi kom í heimsókn, því hann var drengur góður.

Með Ragnari er fallinn í valinn mikill mannkostamaður, sem dugði foreldrum sínum og öðru skylduliði, sem best verður á kosið. Nú þegar leiðir skilja um sinn, er mér og minni fjölskyldu efst í huga þakklæti fyrir góðar og glaðar stundir. Og að lokum vottum við systkinum, ættingjum og vinum hans samúð okkar.

Guðmundur Sveinsson