Guðmundur Árni Jónsson Tengdafaðir okkar, GuðmundurÁrni Jónsson, er látinn. Guðmundur fæddist 30. september 1907 og var því 81 árs er hann lést, þó það vildi oft gleymast hversu aldraður hann var orðinn, því hann hélt sér mjög vel eins og sagt er, en veikindi hrjáðu hann síðasta árið.

Í endurminningum sr. Halldórs Jónssonar frá Reynivöllum í Kjós lýsir hann Guðmundi þannig: "Er Guðmundur mesti gæðamaður og vel viti borinn og fríður sýnum. Hann er söngmaður góður, eðlis hagur og fyrirtaks smiður, þó eigi hafi hann lært smíðar." Oft höfum við og ekki síst Guðmundur sjálfur gert gys að oflofinu, en þegar nánar er að gáð, er hér ekkert ofsagt og segja þessi orð allt sem segja þarf.

Guðmundur ólst upp að Sogni í Kjós. Þangað giftist móðir hans, Þorbjörg Jónsdóttir. Föður sinn, Jón Árnason, skipstjóra, missti Guðmundur ungur, því hann drukknaði 1908. Það eru ófáar ferðirnar sem farnar hafa verið í Kjósina. Áðurfyrr fórum við í heimsókn upp að Sogni, en eftir að Kristín systir Guðmundar flutti þaðan höfum viðkomið við í hjólhýsinu í Hálsendan um. Þar hafa tengdaforeldrar okkar átt afdrep og þar undi Guðmundur sér vel, hvort heldur var við kartöflurækt, slátt eða trjárækt.

Guðmundur kvæntist tengdamóður okkar, Önnu Andrésdóttur frá Neðra-Hálsi í Kjós, 30. september 1939. Síðan við kynntumst þeim hjónum hafa þau átt heimili sitt á Nönnugötu 7 í Reykjavík. Sambýlið í því húsi hefur alltaf verið mjög sérstakt. Þar bjuggu þau með sína fjóra stráka og jafnvel önnur stór fjölskylda niðri og svo Lóa og Pétur.

Örlögin hafa hagað því þannig, að undanfarin ár hafa synir Guðmundar búið á víð og dreif um landið og jafnvel erlendis. Alltaf fylgdist Guðmundur með barnabörnunum og meðan heilsa leyfði reyndi hann að komast í heimsókn.

Guðmundur hafði mikið yndi af tónlist og það eru ekki margar vikurnar síðan hann sat við píanóið og spilaði.

Við tengdadæturnar kveðjum nú góðan og umhyggjusaman tengdaföður okkar hinstu kveðju og þökkum fyrir okkur.

Tengdadætur