Jónas Jósteinsson ­ Kveðjuorð Fæddur 7. september 1896 Dáinn 4. marz 1989 Ævi manns má líkja við bók. Hún á sitt upphaf, síðan tekur við undirbúningur undir lífið, þá manndómsárin, þegar meginævistarfið er innt af hendi, svo kemur ævikvöldið og loks endirinn, þegar lokapunkturinn er settur. Og eins og bækurar eru mislangar, þá gildir sama um manns ævina. Sumir lifa aðeins skamma ævi, en aðrir feta langan veg og dveljast hér til hárrar elli. Og líktog bókin skiptist ævin í kafla, sem hafa hver sitt sérkenni eftir því, hvert viðfangsefnið er hverju sinni.

Bækur lesum við yfirleitt frá upphafi til enda, oft í einni striklotu, einkum ef bókin er spennandi. Mönnum kynnumst við aðeins á vissum skeiðum ævinnar. Þeir eru fáir, semvið fylgjum frá upphafi til æviloka, nema þá helzt nánustu ástvinir, semvið deilum ævinni með.

Þessar eða svipaðar hugsanir vakna oft hjá mér við andlát vina, sem hafa á einhverju skeiði ævinnar verið mér sérstaklega nákomnir.

Ég man ekki, hvenær fundum okkar nafna og frænda fyrst bar saman. Hitt er ljóst, að ég var ekki hár í loftinu. Til þess lágu eðlilegar ástæður. við vorum nágrannar og húsagarðarnir lágu saman. Við vorum náfrændur, bræðrasynir, þótt mér fyndist það alltaf dálítið skrítið, því að hann var 30 árum eldri en ég og aðeins 5 árum yngri en faðir minn, föðurbróðir hans. Og báðir bárum við nafn föðurafa okkar.

Allmikill samgangur var þá milli heimila okkar. Ég minnist samverustunda á heimili þeirra Grétu og Jónasar og barna þeirra, Kristínar og Kára. Mér er minnisstætt, að Kári var ´æi fyrstu svolítið tortrygginn út í mig. Hann átti svolítið erfitt meðað skilja, að til væru fleiri Jónasar en pabbi hans!

Svo var það í upphafi eins af fyrstu köflum lífs míns, að leiðir okkar lágu saman til náinna samvista um skeið. Þegar lágvaxinn snáði steig fyrstu sporin á menntabrautinni og hélt feiminn inn í heim skólans, varð hann fyrsti kennarinn minn og samleið okkar hélzt þau árin, sem ég sótti fræðslu í Austurbæjarbarnaskólann hér í Reykjavík. Þessi ár eru mér eftirminnileg og ljúf í endurminningunni og þar á kennarinn stærri þátt í lífi mínu en flestir aðrir.

Jónas var afbragðs kennari, einnaf þessum hugsjónamönnum, sem þjóðin virðist hafa verið óvanalega rík af um seinustu aldamót. Honumvar það hugsjón að leiða nemendur sína til sannra mennta. Hann var vakinn og sofinn að reyna að auka þekkingu okkar og átti afar auðvelt með að hrífa okkur með. Hann var lifandi í kennslunni.

Kannski er endurminning mín eitthvað lituð rómantískum bjarma æskunnar, en ég man ekki, að mér hafi þótt nokkur tími leiðinlegur, þegarhann sat við kennarapúltið. Og hann var forgöngumaður á mörgum sviðum í kennslu sinni. Ég held við höfum byrjað að læra dönsku í 10 ára bekk og námsbókin var afar skemmtileg barnabók, sem vakti áhuga okkar. Það er eflaust meginástæða þess, að mér þótti danska með skemmtilegustu námsgreinum í skóla.

Og ég minnist þess, að við vorum stolt af því að vera í bekk hjá Jónasi. Það var nánast eins konar gæðastimpill. Honum var jafnan falin kennsla í góðum bekkjum, enda náði hann afar góðum árangri í kennslunni. Og að hætti góðra kennara var áhugi hans á okkur ekki aðeins bundinn þeim árum, er við vorum í bekk hjá honum. Hann fylgdist með mörgum nemendum sínum áfram, gladdist með þeim í velgengni og hryggðist í mótlæti.

Bernskuárin eru einn af björtu köflunum í lífsbók minni og þar skipar kennarinn stóran sess. Jónas varí mínum huga Kennarinn, með stórum staf og ákveðnum greini, hugsjónamaðurinn, sem sinnti ævistarfinu af innri köllun. Um hann gilti í bókstaflegri merkingu, að hann kom mörgum börnum til manns.

Svo skildu leiðir. Ég hélt áfram námi og manndómsárin tóku við og hann stóð áfram sinn trúa vörð við uppfræðslu barna og ungmenna.

Samfundir strjáluðst, en alltaf vissum við vel hvor af öðrum. Og vegir okkar skárust öðru hverju. Ég mun hafa borið ábyrgð á því, að hann var kjörinn í sóknarnefnd Há teigssóknar, þótt ekki yrði um frekara samstarf að ræða á þeim vettvangi.

Og alltaf fylgdumst við hvor meðöðrum, frændurnir, þótt það verði ekki rakið frekar hér.

Leiðir okkar lágu saman á nokkrum hátíðastundum í lífi fjölskyldu hans, við brúðkaup dótturinnar og tengdasonarins, Kristínar og Valdimars, og skírn barnabarna.

Svo var það, þegar við fórum að halda ættarmót, Hródælir, að leiðir okkar skárust enn á ný. Þar var hann svo sjálfsagður í fyrirrúmi, að um það þurfti ekkert að ræða. Og ætli við munum ekki lengi, sem heyrðum hann kveða rímur í samkomuhúsinu í Hegranesi á fyrsta ættarmótinu? Það var við sama tækifæri, sem frændi okkar, Jóhann Konráðsson, söng seinast opinberlega, að því er ég bezt veit.

Þetta átti ekki að verða langt skrif, engin bók, aðeins minningabrot, nánast örstuttur "ritdómur" um kafla í lífsbók manns, sem mér þótti vænt um og á mikið að þakka. Ég vildi með fáeinum orðum tjá þakklæti mitt. Líf mitt væri fátæklegra í dag, ef hans hefði ekki notið við. Ég blessa minningu góðs manns og frábærs fræðara barna og ungmenna. Það er bjart yfir minningu hans í mínum huga. Og ég veit, að margir nemendur hans taka undir þessi orð.

Guð blessi minningu Jónasar Jó steinssonar.

Jónas Gíslason