Minning: Bogi V. Bogason frá Varmadal Fæddur 3. nóvember 1904 Dáinn 19. mars 1989 Mig langar að minnast í fáum orðum frænda eins og við frændsystkinin kölluðum afabróður okkar, Boga Viggó Bogason. Bogi fæddist í Varmadal á Rangárvöllum 3. nóvember 1904. Hann var í hópi átta systkina, eitt dó í vöggu, en af þeim er upp komust voru Óskar, Svanhildur, Þórður og Sigurgeir en þau eru nú látin, eftir lifa systurnar Valgerður og Sigríður. Bogi var sonur hjónanna Boga Þórðarsonar og Vigdísar Þorvarðardóttur.

Bogi bjó tvíbýli ásamt Óskari (afa) bróður sínum í Varmadal. Afi og hans fjölskylda bjuggu í vesturbænum en frændi sem aldrei kvæntist bjó í austurbænum. Ég minnist frænda fyrst sem barn í sveitinni hjá afa og ömmu. Er árin liðu og ég gerðist vinnumaður hjá ömmu á sumrin eftir að afi dó urðu samskipti okkar frænda nánari, sérstaklega í sambandi við smalamennsku, rúningu og fleira kringum sauðféð. Hestar og sauðfé ásamt því að rækta landið var hans líf og yndi. Ég sé frænda fyrir mér á Fal sem var stór og glæsilegur grár hestur. Það var sama hvort þeir félagar væru að smala eða fara til kinda á vorin þegar sauðburður stóð sem hæst, eða frænda með hestapelann í vasanum sitjandi á Fal, í skemmtiferð með góðum félögum á góðum hestum, alltaf var hrein unun að sjá samspil þessaratveggja félaga. Við frændi vorum ekki alltaf sammála hvernig haga bæri smalamennskunni. Ég á aldrinum 13-16 ára og frændi farinnað nálgast sjötugt, öruggur um að á Fal hefði hann sama úthald og hann fertugur væri. Þeir félagar fóru yfirleitt lengst og þeyttust þvert og endilangt yfir landið og ráku féð áleiðis til okkar hinna sem áttum síðan að þétta safnið. Já, þærvoru stundum allhressilegar orða sennurnar sem við áttum í smalamennskunni en alltaf gekk það nú upp í lokin. Krafturinn og þrótturinn í gamla manninum var ótrúlegur. Síðustu fjögur ár ævi sinnar dvaldi frændi á Ljósheimum á Selfossi og leið þar vel. Hafi allt starfsfólk Ljósheima bestu þakkir fyrir umönnunina. Ég get því miður ekki státað af að hafa heimsótt frænda oft þann tíma sem hann dvaldist hér á Selfossi. Ég fylgdist þó grannt með honum því foreldrar mínir og þá sérstaklega mamma heimsóttu hann reglulega allan þann tíma sem frændi dvaldist hér á Selfossi. Bogi andaðist að morgni 19. mars og var jarðsettur á Odda á Rangárvöllum laugardaginn 25. mars. Kærum frænda þakka ég samfylgdina, blessuð sé minning hans.

Óskar G. Jónsson

og fjölskylda.