Minning: Borghild Albertsson f. Aarset Fædd 8. júlí 1900 Dáin 18. mars 1989 Með fáeinum orðum langar mig að minnast elskulegrar tengdamóður minnar, sem lést laugardaginn 18. mars. Borghild fæddist í Noregi 8. júlí árið 1900 í fögru og tignarlegu umhverfi á bæ sem heitir Aarset í Bondalen. Þar ólst hún upp við mikið ástríki foreldra sinna ásamt sex systkinum.

Alla tíð hefur verið mjög kært og náið samband við öll systkinin og fjölskyldur þeirra og hef ég ekki farið varhluta af því eftir að ég tengdist fjölskyldunni.

Enn lifa þrjár aldraðar systur og mágkona.

Tímamót verða í lífi tengdamóður minnar 20. janúar 1924. Þá giftist hún tengdaföður mínum, Guðmundi H. Albertssyni, kaupmanni frá Hesteyri í Sléttuhreppi. Hann hafði áður víða farið, enda aðeins 15 ára, þegar hann kvaddi foreldra og systkini og hélt til Noregs og þaðan til Suður-Afríku, þar sem hann dvaldist í þrjú ár.

Það voru mikil umskipti að koma til Íslands eftir margra ára útivist vorið 1924, en vafalaust varð breytingin mest fyrir Borghild. Aðstæður voru gjörólíkar því sem hún hafði vanist í heimalandi sínu, þrátt fyrir góðar móttökur foreldra og systkina Guðmundar. Ýmsa ytri erfiðleika tókst þó að yfirstíga og fljótlega hóf Guðmundur verslunarrekstur, sem varð ævistarf hans uppfrá því, fyrst á Hesteyri og síðar í Reykjavík.

Ungu hjónin voru afar samhent og hjónabandið byggt á trú, vonog kærleika. Þau eignuðust þrjúbörn: Dagnýju, sem hélt heimili með móður sinni hin síðari ár, Reidar, sem lést aðeins 53 ára, en eftirlifandi eiginkona er Oddrún Jónasdóttir f. Uri, og Birgi kvæntan undirritaðri.

Árin liðu og bjartari tímar voru framundan. Sléttuhreppur sem nú er í eyði, eignaðist sitt blómaskeið og á Hesteyri áttu tengdaforeldrar mínir einnig sín góðu ár.

En árið 1945 verða enn þáttaskil hjá Borghild. Það ár flytjast þau hjónin ásamt börnum sínum alfarin frá Hesteyri til Reykjavíkur. Dvölin sem í upphafi var áætluð tvö ár varð rúm tuttugu. Á Langholtsvegi 42 eignuðust þau nýtt heimiliog þar stofnuðu þau verslun, sem enn ber nafn tengdaföður míns.

Í Reykjavík hefur Borghild búið alla tíð síðan, en mann sinn missti hún á besta aldri árið 1952. Eftirlát hans urðu verslunarstörf ríkur þáttur í lífi hennar. Þar undi hún hag sínum vel eins lengi og aldur og heilsa leyfðu. Hún átti góða nágranna, en margir þeirra eru nú látnir.

Í dag er komið að kveðjustund. Tengdamóðir mín er kvödd hinstu kveðju. Hún reyndist mér alla tíð einstaklega vel og eftir lát móðurminnar 1969 var hún mér sem besta móðir. Börnum mínum þótti afar vænt um ömmu sína og þar var þeim alltaf tekið opnum örmum. Borghild var óvenju heilsteypt kona, jafnlynd og jákvæð og gleði trúarinnar endurspeglaðist í lífi hennar. Það var gaman að gleðjast með henni á tímamótum í lífi fjölskyldunnar.

Að leiðarlokum eftir rúmlega 30 ára samfylgd er mér vissulega sorg og söknuður efst í huga, en jafnframt þakklæti fyrir einlæga vináttu. Með Borghild er gengin góð kona sem öllum vildi gott gera. Hún þarf engu að kvíða, hennar bíður góð heimkoma. Guð blessi minningu hennar.

Evlalía K. Guðmundsdóttir