Guðmundur Á. Jónsson frá Sogni ­ Minning Fæddur 30. september 1907 Dáinn 19. mars 1989 Óðum fækkar fólkinu sem mótaði mannlíf í Kjósinni og hóf það yfir mesta brauðstritið þegar við systkinin vorum að alast þar upp. Nú er það Guðmundur í Sogni sem kveður. Hann átti sinn þátt í félagslegu brautryðjendastarfi í sveitinni, var m.a. einn af máttarstólpum Ungmennafélagsins Drengs sem efndi til umræðufunda og skemmtana og beitti sér fyrir fjölmörgum framfaramálum. Kórar voru stofnaðir og íþróttaáhugi efldur. Ungir menn kepptu að því í stopulum tómstundum að ná sem bestum árangri á íþróttamótum sumarsins og árum saman var Guðmundur í Sogni glæsilegasta íþróttahetjan í augum okkar stúlknanna. Með sömu að dáunarverðu karlmennsku gekk hann á hólm í hinstu glímunni, léttstígur sem fyrr og glaðbeittur í fasi.

Guðmundur Árni var fæddur í Reykjavík 30. september 1907. Foreldrar hans voru Þorbjörg Jónsdóttir og Jón Árnason skipstjóri, maður hennar, sem fórst með gs. Geraldine við Mýrar 28. nóvember 1908. Þorbjörg giftist aftur árið 1913 Jakobi Guðlaugssyni, bónda í Sogni í Kjós. Henni fylgdu tvö börn að Sogni, sonurinn Guðmundur og jafnaldra frænka hans og fóstursystir, Vilborg Runólfsdóttir, sem Þorbjörg hafði tekið að sér er Kristín systir hennar lést, móðir telpunnar. Börn Þorbjargar og Jakobs eru Kristín, fyrrum húsfreyja í Sogni, Guðlaugur, sem er rennismiður, og Ragnar, rafvirki. Elsti sonurinn, Sigurjón, lést fyrir ári um þetta leyti. Mjög kært var alla tíð með Guðmundi og systkinum hans. Fjölmörg frændsystkini áttu at hvarf í Sogni langa eða skamma hríð, en aðeins skal getið Sigrúnar Guðmundsdóttur sem dvaldi þar einna lengst og skipar sérstakan sess í þessum hópi. Þótt húsakynni væru þröng hvíldi ávallt þokkafullur blær yfir heimilinu, enda eru hag leikar og snyrtimennska áberandi eiginleikar í fari allra systkinanna, eiginleikar sem þau hafa hlotið í arf úr báðum ættum.

Tvíbýli var í Sogni. Gróa, systir Jakobs, og Sigurjón Ingvarsson bjuggu á hálfri jörðinni ásamt börnum sínum. Mikill samgangur var og við nágrannabæina á Valdastöðum þar sem ólust upp börn á svipuðu reki. Það var því stór og glaðvær hópur sem þarna safnaðist saman til leika eða brá sér á skautaá ánni á tunglskinsbjörtum vetrarkvöldum. Þar voru ævilöng vináttubönd bundin.

Guðmundur Jónsson var ágætur smiður og vann lengi við smíðar eftir að hann og Anna systir mín, Andrésdóttir frá Hálsi, stofnuðu heimili í Reykjavík. Þau giftu sig 30. september 1939. Um alllangt skeið vann hann á trésmíðaverkstæði sem Eyjólfur Jóhannsson, forstjóri Mjólkurfélagsins, átti og rak. Þar starfaði einnig Pétur Magnússon frá Eyri í Kjós, lærður smiður, og hélt samstarf þeirra Guðmundar áfram á öðrum vettvangi eftir að verkstæðið var lagtniður. Guðmundur var þá fluttur með fjölskyldu sína í eigin íbúð á Nönnugötu 7, en þeir Pétur höfðu unnið saman að því að stækka hússem Pétur og kona hans áttu þar. Sambýlið á Nönnugötu við Pétur og Ólafíu dóttur hans minnti stundum á sambýlisháttu sem ungt nútímafólk hefur reynt að tileinka sér en sjaldan tekist, hvað þá með jafnmiklum ágætum. Ágústa systir mín nýtur nú einnig þessara sam býlishátta að einhverju marki. Anna og Guðmundur hófu á sínum tíma búskap í húsnæði á hennar vegum og samskipti þeirra hafa ævinlegaverið mjög náin.

Á Nönnugötuna fluttu Anna og Guðmundur með álitlegan höfuðstól, þrjá syni, Þorberg, Gunnar og Magnús, og bættist síðan einn í viðbót sem fæddist á afmælisdegi afa síns, Jóns, og ber nafn hans. Þeir eru nú allir fjölskyldumenn. Kona Þorbergs er Ester Albertsdóttir, Gunnars, Ragnheiður Hulda Hauksdóttir, Magnús er kvæntur Sigrúnu Camillu Halldórsdóttur og Jón Árni Lilju Lind Sæþórsdóttur. Barnabörnin eru tíu og ein langafa stúlka.

Síðustu þrjátíu starfsár sín vann Guðmundur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, allt til 75 ára aldurs. Í sumarleyfum ferðuðust hjónin mikið um lanidð. Einnig héldu þau tryggð við átthagana í Kjósinni, undu þar löngum stundum og komu upp trjágróðri á spildu úr Háls landi. Tónlistaráhuga sínum fann Guðmundur farveg í kór Tónlistarfélagsins í Reykjavík þar sem hann söng um langt árabil og tók þátt í tónleikum.

Guðmundur Jónsson sóttist aldrei eftir auðlegð né mannvirðingum, metnaður hans var á öðru sviði. Hann var dagfarsprúður og sómakær maður, velviljaður, glaðvær og greiðvikinn - og hirti lítt um endurgjald. Verkalaunin voru oftar en ekki fólgin í vel unnu starfi. Anna hefur einatt virt sjónarmið eiginmanns síns og mannkosti enda mun verðmætamat hennar vera á svipuðum nótum. Með þeim ríkti einhugur og vilji til góðra verka - sem unnin voru í kyrrþey.

Hlýjar hugsanir og blessunaróskir ástvina og annarra samferðamanna munu fylgja Guðmundi Árna Jónssyni á vegferð hans um ókunn tilverustig.

Ásdís Arnalds