19. október 1996 | Menningarblað/Lesbók | 2974 orð

"MÉR FANNST ÉG EIGA EINHVERJU ÓLOKIÐ"

EFTIR JÚLÍÖNU GOTTSKÁLKSDÓTTUR

Tilurð safns Ásgríms Jónssonar Ásgrímur Jónsson (1876- 1958) var einn þeirra listamanna sem ruddu myndlist braut í íslensku samfélagi í byrjun þessarar aldar og er af mörgum talinn faðir íslenskrar nútímamyndlistar.

"MÉR FANNST ÉG

EIGA EINHVERJU

ÓLOKIÐ"

EFTIR JÚLÍÖNU GOTTSKÁLKSDÓTTUR

Þann 4. marz sl. voru 120 ár liðin frá fæðingu Ásgríms Jónssonar listmálara. Listasafn Íslands minnist þess með sýningu á úrvali úr listaverkagjöf Ásgríms sem opnuð verður á morgun, sunnudaginn 20. október. Jafnframt kemur þá út vegleg, myndskreytt bók um Ásgrímssafn.

Tilurð safns Ásgríms Jónssonar

Ásgrímur Jónsson (1876- 1958) var einn þeirra listamanna sem ruddu myndlist braut í íslensku samfélagi í byrjun þessarar aldar og er af mörgum talinn faðir íslenskrar nútímamyndlistar. Ferill hans varð bæði frjór og langur, tæp sextíu ár, og honum lauk hann með því að arfleiða íslensku þjóðina að öllum verkum sínum ásamt húseign á Bergstaðastræti 74 í Reykjavík. Með gjöf sinni hugðist Ásgrímur ekki reisa sjálfum sér minnisvarða heldur efla Listasafn Íslands og íslenska myndlist. Í erfðaskrá hans, sem hann undirritaði á vordögum 1953, segir að verk hans skuli afhent Listasafni Íslands er það flytjist í eigið húsnæði, en varðveitt í húsi hans fram að þeim tíma. Þetta ákvæði í erfðaskrá Ásgríms er athyglisvert í ljósi þess að um þetta leyti voru aðeins rúmlega tvö ár liðin frá því að listasafnið fluttist á efri hæð safnahússins við Suðurgötu sem þá var nýbyggt. Safnahúsið hafði verið byggt yfir bæði Listasafn Íslands og Þjóðminjasafnið og leysti bráðan húsnæðisvanda listasafnsins sem þar fékk sinn fyrsta samastað. Sú lausn var hins vegar alls ófullnægjandi og hið eiginlega listasafnshús í raun og veru enn óbyggt. Með þetta í huga lýsir ákvæðið í erfðaskrá Ásgríms um afhendingu verkanna til Listasafns Íslands framsýni hans og vilja til að þrýsta á yfirvöld að hefjast handa við að láta reisa sérstakt hús yfir listasafn þjóðarinnar.

Það tók lengri tíma en Ásgrímur ætlaði að byggja yfir þjóðlistasafnið. Þrjátíu ár liðu frá andláti hans þar til Listasafn Íslands fluttist í eigið húsnæði og gat tekið við gjöfinni. Þau þrjátíu ár hafði safn hans verið opið almenningi í húsinu við Bergstaðastræti og þar rekin merkileg starfsemi. Verkin voru skráð að mestu og gert við mörg þeirra og list hans kynnt með sýningum innan safns og utan, meðal annars með reglulegum skólasýningum. Safn Ásgríms hafði þannig áunnið sér verðugan sess meðal reykvískra safna er það var sameinað Listasafni Íslands í janúar 1988. Það er ekki aðeins persónulegt safn eins frumherja íslenskrar nútímamyndlistar heldur býr það yfir verðmætum sem hafa ótvírætt gildi fyrir íslenska sjónmenntasögu. Hús Ásgríms er parhús sem hann byggði í félagi við Jón Stefánsson listmálara árið 1928 eftir uppdráttum Sigurðar Guðmundssonar arkitekts, eins af frumkvöðlum nútímabyggingarlistar hér á landi. Í næsta nágrenni risu á sama tíma hús Júlíönu Sveinsdóttur og þeirra Kristínar Jónsdóttur og Valtýs Stefánssonar, öll eftir uppdráttum Sigurðar. Tekið var mið af þörfum listmálaranna við hönnun húsanna og voru vinnustofur á efri hæð með stórum glugga á móti norðaustri. Í tímans rás hefur húsunum verið breytt og mun hús Ásgríms vera það eina sem haldist hefur óbreytt. Í því er auk þess að finna húsmuni sem tilheyra fyrstu skeiðum íslenskrar nútímahönnunar og eru orðnir safngripir. Við sameininguna var því ákveðið að safn Ásgríms skyldi vera sérstök deild í listasafninu og hús hans notað áfram til sýninga á verkum hans jafnframt því sem þau væru sýnd með öðrum verkum listasafnsins í hinni nýju safnbyggingu.

Safn listamanns

Listaverkagjöf Ásgríms Jónssonar var Listasafni Íslands mikill safnauki. Með henni eignaðist það þúsundir verka frá löngum starfsferli listamanns sem átti ríkan þátt í að móta íslenska myndlistarmenningu á fyrri hluta þessarar aldar. Eins og gefur að skilja hefur safneignin ráðist af því sem hann hélt eftir af verkum sínum í áranna rás. Ef haft er í huga að Ásgrímur var fyrsti íslenski listmálarinn sem gerði myndlistina að aðalstarfi og hélt um árabil einn uppi reglulegu sýningarhaldi í Reykjavík er ekki við því að búast að mörg söluhæf verk frá þeim árum, er hann hélt árlegar sölusýningar, hafi dagað uppi í vinnustofunni. Það var ekki fyrr en liða tók á starfsferilinn að hann tók að huga að uppskeru ævistarfsins í heild og áhuginn vaknaði á að halda verkum eftir og jafnvel kaupa verk frá fyrri árum. Vegna þess hve mikilvirkur hann var eru þó í safninu verk frá öllum tímabilum á ferli hans. Sum eru fullunnin, önnur ekki. Þar eru öndvegisverk og miður góð verk, óburðugar skissur og vel þekkt verk. Ennfremur verk sem hann vann eingöngu fyrir sjálfan sig og hefur aldrei hugsað sér að sýna. Mörg þeirra eiga ekkert erindi inn á sýningu ein og sér, en varpa nýju ljósi á list hans séu þau sett í ákveðið samhengi.

Safn listamanns á borð við safn Ásgríms lýtur því öðrum lögmálum en almenn listasöfn þar sem úrvalið ræður aðföngum. Gildi safneignarinnar felst meðal annars í þeim heimildum sem hún geymir um starf listamannsins og er grundvöllur rannsókna á list hans. Hún krefst þess að um hana sé gengið af skilningi og virðingu fyrir starfi hans. Það getur orkað tvímælis að hampa verkum sem listamaðurinn hefur ekki verið sáttur við og hefði aldrei viljað sýna. Á hinn bóginn geta sömu verk veitt innsýn inn í hugarheim hans og ber að fara með þau sem slík á opinberum vettvangi. Í safni Ásgríms eru til dæmis margar ófullburða sjálfsmyndir þar sem hann virðist vera að knýja dyra hjá sjálfum sér. Þessar myndir eiga ekki erindi inn á sýningu sem sjálfstæð listaverk, en þær eru mikilvægur bakgrunnur fyrir hina vægðarlausu sjálfsmynd sem hann málaði rúmlega sjötugur að aldri.

Verkin í safni listamannsins gera manni ljóst að meistaraverkin hafa ekki komið alsköpuð úr hendi hans eins og Pallas Aþena úr höfði Seifs. Dæmi um það má finna í hinni miklu vatnslitamyndaeign safns Ásgríms. Óhætt er að fullyrða að Ásgrímur hefur algera sérstöðu í íslenskri myndlist sem vatnslitamálari. Í safni hans eru á annað hundrað vatnslitamyndir og meðal þeirra margar sem teljast til þess besta sem eftir hann liggur á því sviði. Þar eru líka myndir sem sýna hvílíka baráttu hann háði til þess að ná tökum á hinu vandmeðfarna efni. Í ljósi þess að Ásgrímur naut engrar akademískrar tilsagnar í meðferð vatnslita hafa þessar gömlu vatnslitamyndir ómetanlegt gildi sem vitnisburður um ásetning hans og vinnubrögð. Í safninu eru einnig frumdrög og formyndir að öðrum verkum. Á það einkum við um huglæg verk á borð við eldgosa- og þjóðsagnamyndir, en efni þeirra varð honum afar hugleikið er líða tók á ævina. Í sumum tilvikum eru þetta aðeins frumdrættir, svo sem af manni á flótta eða hesti, ferlegum tröllum eða svipbrigðum mannsins við einhverju ægilegu. Þessar ófullburða teikningar eru yfirleitt afar tjáningarríkar og segja jafnvel meira um tilfinningar listamannsins gagnvart viðfangsefninu en fullunnin verk.

Upphafstímar

Ásgrímur Jónsson hélt tuttugu og eins árs gamall til Kaupmannahafnar árið 1897 með það fyrir augum að fara í listnám. Má segja að þessi ákvörðun hans, ungs bóndasonar sem átti ekki önnur efni en sparifé sitt, sé gott dæmi um þá menningarlegu vakningu sem varð hér á landi um og eftir aldamótin síðustu. Hæfileikar hans voru orðnir augljósir og löngun og áræðni, ásamt hvatningu frá umhverfinu, nægðu til þess að láta til skarar skríða. Líkt og Jóhannes S. Kjarval hafði hann ungur farið að vinna fyrir sér til sjós og lands og fyrstu árin í Kaupmannahöfn vann hann við að mála húsgögn með listnáminu. Eftir þriggja ára dvöl ytra innritaðist hann í Konunglega danska listaháskólann og var þar við nám í þrjá vetur. Eftir það vann hann sjálfstætt, kom iðulega heim á sumrin en dvaldist ytra á veturna. Sumarið 1907 hlaut hann ferðastyrk frá Alþingi til Ítalíuferðar og hélt þangað til ársdvalar vorið 1908. Sumarið 1909 fluttist hann alkominn til Íslands.

Ásgrímur hóf strax ætlunarverk sitt. Líkt og Þórarinn B. Þorláksson valdi hann íslenskt landslag að aðalviðfangsefni. Þessir listamenn voru mótaðir af viðhorfum skálda og menntamanna 19. aldar til náttúru landsins og sögu þess. Ægifögur náttúran, sem hafði verið rómuð í ljóðum rómantískra skálda, var orðin eins konar ímynd þjóðarinnar á dögum sjálfstæðisbaráttunnar og landslagið hefur þar af leiðandi þótt verðugt viðfangsefni listmálara sem hugðust ryðja myndlist braut í hinu borgaralega íslenska samfélagi. Hin rómantíska sýn á náttúru landsins hafði raunar birst í málverkum útlendra málara sem hingað komu fyrr á öldinni og til voru verk eftir í stofngjöf Listasafns Íslands sem var til sýnis í þingsölum Alþingishússins. Vitað er að Þórarinn B. Þorláksson og Einar Jónsson myndhöggvari sáu þessi erlendu verk áður en þeir héldu utan í listnám og gera má ráð fyrir að Ásgrími hafi verið kunnugt um þau.

Telja má víst að viðhorf manna hér á landi til náttúrunnar hafi fremur ráðið verkefnavali Ásgríms en þau viðhorf sem hann kynntist á námsárum sínum í Kaupmannahöfn um og eftir aldamótin síðustu. Rómantíkin var þá löngu liðin tíð í danskri myndlist og natúralisminn hafði vikið fyrir bókmenntalegri táknhyggju. Í endurminningum sínum segir Ásgrímur að impressjónisminn hafi verið lítt þekktur meðal danskra málara á þessum tíma. Það var helst meðal málara á Fjóni sem áhrifa hans gætti og virðist sem Ásgrímur hafi átt einna helst samleið með þeim í verkefnavali og leit að túlkun sem því hæfði. Hann málaði eitthvað úti í náttúrunni í Danmörku, meðal annars skógarmyndir, en það var ekki fyrr en hann kom til Íslands laust eftir aldamótin að hann fór að mála landslagsmyndir að ráði. Elstu olíumyndir hans eru afar dökkar og bera keim af stemmningsmálverki aldamótanna, en um 1905 fer að birta til á litaspjaldinu. Það var einmitt um það leyti sem hann var farinn að mála með vatnslitum og hefur það haft áhrif á olíumálverkin.

Að fanga litbrigðin í náttúrunni

Í safni Ásgríms eru um 550 landslagsmyndir sem skiptast nokkuð jafnt á milli vatnslita- og olíumynda. Þar á meðal eru nokkrar elstu mynda hans, en flestar eru þær frá síðustu tuttugu starfsárum hans. Meðal elstu myndanna er vatnslitamynd af Barnafossi sem hann málaði á ferð sinni um Borgarfjörð sumarið 1904, en í þeirri ferð uppgötvaði hann Borgarfjörðinn ofanverðan, eins og hann komst að orði. Sú uppgötvun átti eftir að draga dilk á eftir sér. Um tíu árum síðar kom hann aftur að Húsafelli til lengri dvalar og varð það upphafið að tíðum ferðum hans og viðdvöl á þeim stað. Myndirnar úr Borgarfirði, einkum frá Húsafelli, mynda líka sérstakan flokk meðal landslagsmyndanna í safni hans. Annar stór myndaflokkur í safninu eru Þingvallamyndir, en allan sinn feril kom Ásgrímur reglulega þangað til að mála.

Enda þótt Ásgrímur hafi ferðast víða um landið til að mála og stöðugt verið að nema ný lönd hefur ætlun hans ekki verið að festa sér áður óþekkta staði á blað heldur túlka tilfinningu sína gagnvart landinu, ekki síst áhrifum birtunnar á liti landsins. Í mörgum eldri myndanna er túlkunin rómantískrar ættar, landið víðáttumikið, veðursæld mikil og friðsæld milli manns og náttúru. Í sumum þeirra er sem landið sé lýst innri birtu. Tjáning hins upphafna fullnægði hins vegar ekki tilfinningu Ásgríms fyrir síbreytileika náttúrunnar. Í impressjónismanum fann hann leið til þess að túlka litbrigði landsins þar sem form landsins leystust upp í litatónum. Hin ríkjandi veðursæld vék fyrir veðrabrigðum og sömuleiðis hið upphafna andrúmsloft fyrir geðhrifum af síbreytileika náttúrunnar.

Mörg ummæli Ásgríms lýsa vel viðhorfum hans til túlkunarefnis síns. Þannig lýsir hann hríslunum í Húsafellsskógi sem persónum, sumum kenjóttum sem gæfu málaranum ekki alltaf kost á sér. Á hinn bóginn lýsir hann Skíðadal sem listaverki þar sem er að finna "hina dásamlegustu liti, rauða, bláa og græna, sem skipa landslaginu mjög skemmtilega á milli sín". Í blaðaviðtali við Vilhjálm S. Vilhjálmsson árið 1956 svaraði hann spurningu Vilhjálms um hvenær best sé að mála á þessa leið: "Á vorin, um lágnættið, þegar jafnvel fuglarnir þagna. Á haustin, þegar litirnir breytast ... Nei, ég get ekki sagt það. Ég myndi lúka því með því að hafa talið allar árstíðir ..." Í viðtali sem Bjarnveig Bjarnadóttir, fyrsti forstöðumaður Ásgrímssafns, átti við hann áttræðan segir hann meðal annars: "... Haust á Þingvöllum í allri sinni litadýrð hefur líka verið mér ákaflega kært viðfangsefni síðustu árin. Litaskartið fagra, sem náttúran íklæðist, um það bil, sem sumardýrðin er að kveðja og taka hinztu andvörpin, orkar mjög á mig. Dag einn, seint á hausti, stóð ég þar í miðju litskrúði laufs og lyngs með léreft mitt og liti. Er ég kom þangað að þrem dögum liðnum var allt laufið horfið og lyngið fölnað. Tré og runnar voru klædd svarbrúnum lit vetrarins. Náttúran öll virtist í einskonar dauðadái. Nístings næðingur hafði leikið um Þingvöll eina nótt. Meira þurfti ekki með - haustið var búið að kveðja og veturinn kominn. Ég flýtti mér heim."

Myndefni úr þjóðsögum

Í safni Ásgríms Jónssonar eru á annað þúsund stakar myndir þar sem rekja má efnið til íslenskra þjóðsagna. Teikningar eru þar flestar, en auk þess er dágóður fjöldi vatnslitamynda og nokkur olíumálverk.

Ásgrímur byrjaði á gerð slíkra mynda á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Þeir Einar Jónsson umgengust mikið um það leyti og hefur hneigð Einars til táknhyggju og bókmenntalegra viðfangsefna, sem áttu vinsældum að fagna meðal danskra myndlistarmanna á 10. áratugnum, eflaust haft þar einhver áhrif. Meðal elstu málverkanna í safninu af þjóðsagnalegum toga er Sturluhlaup sem Ásgrímur málaði aldamótaárið með hliðsjón af frásögn af flótta manns og ungs barns undan jökulhlaupi í kjölfar Kötlugoss árið 1311. Þekktasta þjóðsagnamyndin er hins vegar Nátttröllið á glugganum sem hann málaði árið 1905 og sýndi í Reykjavík ásamt öðrum þjóðsagnamyndum um haustið sama ár. Sagan Nátttröllið var ein þeirra þjóðsagna sem Ásgrími var sérlega hugleikin og vann hann tugi mynda með hliðsjón af henni, meðal annars stóra vatnslitamynd árið 1951. Algengt var að hann tæki ástfóstri við einstakar sögur og ynni úr þeim ótal myndir. Ber þar sérstaklega að nefna söguna um Mjaðveigu Mánadóttur, en í safni hans eru hátt á annað hundrað stakar myndir úr henni. Það sem einkennir þjóðsagnamyndir Ásgríms er að hann hefur sjaldnast myndskreytt atburðarás sögunnar. Þess í stað hefur hann staldrað við eitt atriði og gert af því ótal myndir. Í sérhverri útgáfu virðist hann vera að kryfja efni sögunnar til mergjar frekar en að myndskreyta frásögnina. Túlkunin er oft mjög tilfinningarík og myndin öðlast sjálfstæði, verður óháð sögunni. Viðhorf Ásgríms til söguefnisins er því sambærilegt við viðhorf hans til landslagsins. Það er ekki myndefnið sem ræður ferðinni heldur tilfinning hans gagnvart viðfangsefninu.

Hið eilífa eldgos

Einn flokkur í safni Ásgríms eru eldgosamyndir. Þetta eru ekki myndir af eldspúandi fjöllum einum og sér heldur fólki á flótta undan hamförum náttúrunnar. Í endurminningum sínum taldi hann sig hafa orðið vitni að jarðeldum í Heklu barn að aldri sem hafi haft djúp áhrif á náttúruskynjun hans. Hvort sem hann mundi þennan atburð í raun og veru eða heyrði frá honum sagt í bernsku er víst að í vitund hans var náttúran til alls vís og smæð mannsins gagnvart henni mikil. Eldgosamyndir hans tengjast þjóðsagnamyndunum beint eins og sjá má í myndinni Sturluhlaup og meginþema þeirra er að mörgu leyti hið sama. Í báðum myndflokkunum er maðurinn sýndur andspænis öflum sem eru sterkari en hann sjálfur og hann hræðist. Í eldgosamyndunum er flóttinn leið hans til bjargar og svipað er að segja um margar þjóðsagnamyndirnar.

Í safni Ásgríms eru nokkrar eldogsamyndir sem hann vann á Ítalíu, en árið sem hann dvaldist þar urðu miklir jarðskjálftar á Sikiley sem munu hafa verið kveikjan að þeim. Flestar eldgosamyndirnar eru hins vegar frá 5. og 6. áratugnum og kveikjan að þeim Kötlugosið 1918 og síðar Heklugosið 1947. Í áðurnefndu viðtali við Bjarnveigu Bjarnadóttur svaraði Ásgrímur spurningu hennar um hvað hafi valdið þessu efnisvali á þessa leið: "Ég veit ekki hvað veldur því, að "land elds og ísa" hefur svo að segja hertekið hug minn allan í seinni tíð, þegar af mér hefur bráð í veikindum mínum. - Mér fannst ég eiga einhverju ólokið, - einhverju frá æskuárunum. Og loks fann ég, hvað það var. - Fegurðina, máttinn og tignina í ógnþrungnum náttúruhamförum lands míns varð ég að festa á léreft áður yfir lyki. Í sál listamannsins eru eilíf umbrot, - eilíft eldgos til hinztu stundar. Ég hef haft yndi af að mála náttúruna í sínum fegursta og viðkvæmasta skrúða, - í logni og sólskinsdýrð. En þessar síðustu myndir mínar eru mér kærastar. Í þær hef ég lagt alla mína orku og sál, þegar ég hef haft stundarfró frá þrálátum veikindum. Ef til vill verða þessar myndir hinzta kveðja mín til þessa blessaða lands - maður veit aldrei - ."

Arfurinn frá Ásgrími

Það eru tæp hundrað ár síðan Ásgrímur sigldi frá Bíldudal til Kaupmannahafnar til þess að fara í listnám og tæp níutíu ár frá því að hann settist að hér heima og gerði myndlist að aðalstarfi. Það er ekki langur tími í lífi þjóðar, ekki lengri en svo að enn eru á lífi menn sem muna páskasýningar hans sem eina reglulega myndlistarviðburðinn í Reykjavík. Sú myndlistarmenning sem blómstrar hér á landi í dag þarf því ekki að fara langt aftur í tímann í leit að rótum sínum. Með starfi sínu á fyrstu áratugum aldarinnar lagði Ásgrímur grunn að myndlistarsmekk hér á landi og sáði auk þess fræjum í sálir yngri kynslóða. Í bók sinni um Svavar Guðnason bendir Halldór Laxness til dæmis á mikilvægi hans fyrir Svavar og segir fullum fetum að (listmálarinn) Svavar Guðnason hafi verið óhugsandi án Ásgríms Jónssonar. Ýmsir helstu boðberar módernismans í íslenskri myndlist fengu tilsögn hjá honum, og má þar nefna Sigurjón Ólafsson, Þorvald Skúlason og Nínu Tryggvadóttur, en meðal þeirra fyrstu sem til hans leituðu var Jóhannes S. Kjarval. Ásgrímur var líka iðulega tilbúinn til að kaupa verk af ungum listamönnum þegar öll sund voru lokuð. Margir þeirra minntust hans með þakklæti fyrir hve vel hann fór af stað í landi þar sem engin myndlistarmenning var til. Um það vitna eftirfarandi orð Jóns Engilberts í afmæliskveðju til hans árið 1956: "- Ásgrímur er svo stór í íslenskri myndlist, að fram hjá honum komumst við ekki í dag. Hugsum okkur hvað lífið hér væri fátæklegt fyrir unga málara, sem búa í bröggum við bágborin kjör, ef þeir þekktu ekki nafn Ásgríms og ævistarf, sem hlýtur að lyfta undir eigin vonir og drauma."

Höfundur er deildarstjóri í Listasafni Íslands.JÖKULHLAUP, olíulitir á striga, 1950-1955.

SKÍÐADALUR, olíulitir á striga, 1951

ARNARFELL, vatnslitir, 1927.

STURLUHLAUP, olíulitir á striga, 1900.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.