Geirmundur Júlíusson Í dag er kvaddur góður vinur minn og frændi Geirmundur Júlíusson. Hann fór ársgamall í fóstur til afa síns og ömmu, Geirmundar Guðmundssonar og Sigurlínu Friðriksdóttur. Var hann borinn í poka frá Fljótavík yfir Tunguheiði og Kjöl yfir í Stakkadal í Aðalvík. Þar var hann í tvö ár, eða þar til hann flutti með þeim að Borg í Skötufirði og átti heima þar næstu tvö árin. Þá flytja þau norður að Atlastöðum í Fljótavík. Þangað fara þau með búslóð sína og svartan hest á þriggja og hálfs tonna báti sem hét Hlöðver og var í eigu Friðriks Magnússonar á Látrum, var bátur þessi með fyrstu vélbátum þar norður frá. Þegar þau komu að Atlastöðum voru tvær fjölskyldur með sömu baðstofuna og þótti Geirmundi hún mjög stór.

Afi hans byggði sér fljótlega lítið hús sem kallað var Geirmundarbær og þar áttu þau heima þar til Geirmundur eldri lést, árið 1921, en þá flutti Geirmundur til foreldra sinna. Skólaganga Geirmundar var stutt, aðeins einn vetur í barnaskólanum að Látrum, þá var þar kennari Sigurður Sigurðsson, kallaður Súddi.

Geirmundur byrjaði ungur að stunda sjóinn og lenti í hrakningum strax fimmtán ára en hér er ekki rúm til að segja frá þeim.

Finnbogi Jósepsson faðir minn og Geirmundur voru miklir félagar. Faðir minn minnist sérstaklega ferðar sem þeir fóru tveir ungir og hraustir strákar á árabát austur á Haugavíkur á rekafjöru. Vildi þá svo illa til að annar fóturinn á Geirmundi skorðaðist milli tveggja steina er trjábolur valt yfir hann. Vildi svo vel til að föður mínum tókst að velta trjábolnum af fætinum og bjarga Geirmundi úr klemmunni. Varð Geirmundi þá að orði að nú hefði Finnbogi tekið vel á.

Ungur kvæntist Geirmundur Guðmundu Regínu Sigurðardóttur frá Skriðu en það var þá fremsti bærinn á Látrum í Aðalvík. Þar byrjuðu ungu hjónin búskap í sambýli við foreldra Regínu, þau Ólínu Sigurðardóttur og Sigurð Þorkelsson. Þau bjuggu á Skriðu allt til 1938 að þau fluttu yfir í Fljótavík en þar reisti Geirmundur nýbýli sem kallaðist Skjaldabreiða. Á þessum árum var mikið um fólksflutninga úr Sléttuhreppi og fór svo að árið 1945 flytja þau Geirmundur og Regína með börn sín yfir að Látrum þar sem þau bjuggu í eitt ár í Steinhúsinu en flytjast síðan til Hnífsdals þar sem þau áttu heimili allt til elliára.

Í Hnífsdal stundaði Geirmundur í fyrstu sjómennsku og útgerð en árið 1958 stofnaði hann ásamt fleirum Trésmiðjuna hf. í Hnífsdal. Þar vann hann og stjórnaði í mörg ár, allt þar til að hann hætti, orðinn áttræður að aldri. Finnbogi faðir minn vann mikið með Geirmundi við húsa- og bryggjusmíðar og minnist góðs starfsfélaga og vinar.

Þegar Geirmundur fór að minnka við sig vinnu, sneri hann sér að öðrum áhugamálum. Meðal annars reisti hann blómaskála við hús sitt og ræktaði þar blóm og trjáplöntur sem hann hafði gaman af að gefa vinum og ættingjum. Einnig stóð hann fyrir útgáfu niðjatals foreldra sinna sem undirritaður aðstoðaði hann við.

Þau Geirmundur og Regína voru höfðingjar heim að sækja og eru minnisstæðar allar stórveislurnar sem þau hjónin héldu á merkum tímamótum.

Við feðgar sendum ástvinum Geirmundar samúðarkveðjur og blessunaróskir á kveðjustund.

Guðjón Finndal Finnboga-

son frá Atlastöðum.