7. nóvember 1996 | Innlendar fréttir | 203 orð

Brúin yfir Núpsvötn stóðst atlöguna

BRÚIN yfir Núpsvötn virtist í gær hafa staðið af sér atlögu hlaupsins úr Grímsvötnum og var umferð yfir hana heimiluð á ný. Skarð, sem rofið var í veginn skammt vestan við brúna á þriðjudag, var fyllt að nýju. Íshröngl, sem hlaupið bar með sér, náði upp á hæl, sem markar hæð hlaupsins árið 1986.
Brúin yfir Núpsvötn stóðst atlöguna

BRÚIN yfir Núpsvötn virtist í gær hafa staðið af sér atlögu hlaupsins úr Grímsvötnum og var umferð yfir hana heimiluð á ný. Skarð, sem rofið var í veginn skammt vestan við brúna á þriðjudag, var fyllt að nýju. Íshröngl, sem hlaupið bar með sér, náði upp á hæl, sem markar hæð hlaupsins árið 1986.

Hlaupið breytti Núpsvötnum í stórfljót á þriðjudaginn. Hins vegar bárust engir jakar niður með svörtu vatninu og var álagið á brúna því mun minna en á aðrar brýr á sandinum.

Nokkru austan við brúna yfir Núpsvötn var vegurinn lokaður, enda náði hann ekki mikið lengra. Sandgígjukvísl hafði rutt niður brú og rofið veginn á mjög löngum kafla. Þarna var nokkur hópur áhugamanna, sem fylgdist með litlum ísklumpum kútveltast niður ána. Við sjóndeildarhring var sem fjallkambur hefði risið, en það voru risavaxnir ísjakar, sem höfðu hrannast upp á sandinum. Á milli þeirra mátti sjá enn straumþyngra fljót og sigldu stórir jakar niður það af og til.

Morgunblaðið/Árni Sæberg HÓPUR fólks safnaðist saman við Sandgígjukvísl í gær og horfði á ógnarkrafta vatnsins fleyta ísjökum fram á sanda.

ÍSHRÖNGL nær upp að hæl sem rekinn var niður við brúna yfir Núpsvötn og markar hann hæð vatnsins í hlaupinu 1986.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.