10. nóvember 1996 | Innlendar fréttir | 414 orð

Hringvegur rofinn í hlaupi Mikið tjón

Mikið tjón varð á vegum og brúarmannvirkjum við Skeiðarársand þegar Skeiðará hljóp á þriðjudag, hlaup sem var meira og óx hraðar en menn hafa áður þekkt og hjaðnaði svo hraðar og var lokið á fimmtudag. Tæplega 400 metra brú yfir Gígjukvísl hvarf í vatnsflauminn sem braust fram úr Grímsvötnum og bar með sér sand, aur og stóra ísjaka.


Hringvegur rofinn í hlaupi

Mikið tjón varð á vegum og brúarmannvirkjum við Skeiðarársand þegar Skeiðará hljóp á þriðjudag, hlaup sem var meira og óx hraðar en menn hafa áður þekkt og hjaðnaði svo hraðar og var lokið á fimmtudag. Tæplega 400 metra brú yfir Gígjukvísl hvarf í vatnsflauminn sem braust fram úr Grímsvötnum og bar með sér sand, aur og stóra ísjaka. 170 m kafli brotnaði úr brúnni yfir Skeiðará og brúin yfir Sæluhúsakvísl er stórskemmd. Varnargarðar við fljótið eru einnig skemmdir og a.m.k. 7 km af þjóðveginum yfir sandinn þarf að leggja að nýju. Þá urðu skemmdir á raflínum Landsvirkjunar og ljósleiðarastreng Pósts og síma. Tjón er metið á um það bil 1 milljarð króna og ber Viðlagatrygging stóran hluta þess. Eftir hlaupið varð stutt sprengigos í eldstöðinni á Vatnajökli á ný. Viðgerð á veginum yfir Skeiðarársand hófst á föstudag. 2 ár tekur að byggja varanlegar brýr að nýju en stefnt er að því að koma á bráðabirgðavegasambandi innan skamms. Þar sem hringvegurinn er rofinn þarf nú að aka tvöfalt lengri leið en ella milli Reykjavíkur og Hornafjarðar.

Bjargað úr

gúmbáti

TVEGGJA manna áhöfn var bjargað úr gúmbáti eftir að Björninn BA 85, fimm tonna skelbátur frá Patreksfirði, fórst skammt vestur af Blakksnesi á föstudagskvöld. Skipbrotsmennirnir voru blautir en heilir á húfi þegar Brimnes BA kom að þeim eftir að hafa séð neyðarblys á lofti. Orsakir skipstapsins eru ókunnar en flakið var dregið marandi í kafi inn til Patreksfjarðar.

JÓN Baldvin Hannibalsson fráfarandi formaður Alþýðuflokksins lagði áherslu á samstarf og samstöðu jafnaðarmanna gegn sérhagsmunum í setningarræðu á 48. flokksþingi Alþýðuflokksins. Hann gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn harðlega. Kosið var milli Sighvats Björgvinssonar og Guðmundar Árna Stefánssonar í stöðu formanns flokksins síðdegis í gær.

Óvenjumiklir kuldar hafa verið á landinu, einkum norðaustanlands og mældist 26 gráðu frost við Mývatn aðfaranótt mánudags. Það er mesta frost sem mælst hefur hérlendis frá 1949, en þá mældist 27 stiga frost í Möðrudal.

Mannréttindanefnd Evrópu hefur samþykkt að taka til efnislegrar meðferðar kæru Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns á hendur íslenska ríkinu. Sigurður telur tjáningarfrelsi sitt hafa verið skert með áminningu sem stjórn Lögmannafélagsins veitti honum og Hæstiréttur staðfesti.

SÆVAR Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, sagði á þingi sambandsins á miðvikudag að nauðsynlegt væri að taka á óheftu framsali veiðiheimilda og að allur fiskur tl sölu innanlands yrði að fara á fiskmarkaði, ef takast ætti að ná samkomulgi um kjör sjómanna.

FLUGLEIÐIR hafa hækkað skráð fargjöld um 2,5% vegna hækkana sem orðið hafa á verði fugvélaeldsneytis undanfarið. Hækkunin nemur 750-1.000 kr. á algengustu fargjöldum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.