BÓKAÚTGÁFAN á Hofi hefur gefið út skáldsöguna Finnugaldur og Hriflunga, ævintýri um norræna menningu, eftir Hermann Pálsson, prófessor í Edinborg. Bókin er gefin út í tilefni 75 ára afmælis Hermanns og er gefin út af bróður hans, Gísla Pálssyni á Hofi í Vatnsdal. Hermann sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hafi skrifað þessa bók fyrst og fremst fyrir sjálfan sig í ellinni.
Finnugaldur og Hriflunga, ævintýri um norræna menningu Ný skáldsaga eftir Hermann Pálsson prófessor

BÓKAÚTGÁFAN á Hofi hefur gefið út skáldsöguna Finnugaldur og Hriflunga, ævintýri um norræna menningu, eftir Hermann Pálsson, prófessor í Edinborg. Bókin er gefin út í tilefni 75 ára afmælis Hermanns og er gefin út af bróður hans, Gísla Pálssyni á Hofi í Vatnsdal.

Hermann sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hafi skrifað þessa bók fyrst og fremst fyrir sjálfan sig í ellinni. "Þegar ég verð orðinn leiður á lesa bækur eftir aðra höfunda er gott að geta gripið í eitthvað sem er ekki of langt og ekki of leiðinlegt. Hins vegar getur vel verið að einhverjir aðrir hafi gaman af bókinni, þótt ég hafi fyrst og fremst verið að hugsa um sjálfan mig."

Skrýtin bók að sumu leyti

Hermann sagði að þetta væri skrýtin bók að sumu leyti en hann er ánægður með útkomuna og sagði bókina vel heppnaða í alla staði. "Menn eiga að skrifa handa sjálfum sér, því þá er lesandi og höfundur sami maður."

Bókin er rúmar 140 blaðsíður og fór prentvinnsla fram hjá Ásprent/Pob ehf. á Akureyri. Á bókarkápu er mynd af Laxárvatni með Reykjanibbu og Svínadalsvatn í baksýn og er myndin tekin frá Sauðanesi, æskustöðvum höfundar og útgefanda.

Morgunblaðið/Kristján GÍSLI Pálsson, bókaútgefandi t.v., Haraldur Bessason, fyrrum rektor Háskólans á Akureyri, og höfundurinn, Hermann Pálsson, skoða eintök af bókinni.