HEIMILDIR UM SAMA Í ÍSLENSKUM FORNRITUM II FENJA OG MENJA EFTIR HERMANN PÁLSSON Í öðrum þeim mikla doðrant sem skráður var í Víðidalstungu var saman kominn meiri fróðleikur um Sami en í nokkru öðru íslensku skinnhandriti sem varðveist hefur.

HEIMILDIR UM SAMA Í ÍSLENSKUM FORNRITUM II FENJA OG MENJA EFTIR HERMANN PÁLSSON Í öðrum þeim mikla doðrant sem skráður var í Víðidalstungu var saman kominn meiri fróðleikur um Sami en í nokkru öðru íslensku skinnhandriti sem varðveist hefur. Þetta er að sjálfsögðu Flateyjarbók. Það sem mesta athygli vekur eru þættir í bókinni þar sem Samar og fjölkynngi koma við sögu.

Ú hverfum við aftur til síra Einars á

Breiðabólstað, sem var einn þeirra Húnvetninga á 14. öld sem höfðu áhuga á Sömum. Breiðabólstaður í Vesturhópi var eitt af þrem fremstu menntasetrum í Húnavatnsþingi fyrir siðaskipti; hin voru Þingeyrar og Víðidalstunga. Allar götur frá því að lög voru fyrst skráð þar veturinn 1117­18 í húsakynnum Hafliða Mássonar, sem mun hafa verið forfaðir síra Einars, og fram eftir öldum þótti Breiðabólstaður mikill menningarstaður. Um miðja tólftu öld átti að reisa fyrstu steinkirkju hérlendis á Breiðabólstað, og í því skyni sigldi ungur sonur bóndans þar til útlanda að sækja steinlím, en til allrar óhamingju fórst skipið á heimleið, og síðan liðu meira en átta aldir áður en fyrsta húnvetnska steinkirkjan var reist, en það var á Þingeyrum á síðara hluta nítjándu aldar.

Á Þingeyrum hófst klausturlifnaður árið 1133, og þangað fór Einar til náms árið 1317, þegar hann var tíu ára gamall. Ekki er ýkja langur vegur frá Breiðabólstað að Víðidalstungu, þar sem tvær miklar skræður voru skráðar á efri árum síra Einars. Eins og Sigurður Nordal hefur rakið á sínum stað, þá mun síra Einar hafa verið með í ráðum að finna og velja efni í þessar tvær miklu bækur. Magnús Þórhallsson sem skráði nokkurn hluta þeirrar bókar. sem skrifuð var í Víðidalstungu á síðara hluta fjórtándu aldar, hafði Lögmannsannál Einars Hafliðasonar undir höndum, og Sigurður telur sennilegt að annað efni í bókunum tveim kunni einnig að vera komið frá Breiðabólstað.

Í öðrum þeim mikla doðrant sem skráður var í Víðidalstungu var saman kominn meiri fróðleikur um Sami en í nokkru öðru íslensku skinnhandriti sem varðveist hefur. Með því að þessi mikla bók flæktist heimanað og lenti vestur í Breiðafirði, þá hefur hún um langan aldur verið kennd við þann stað þar sem hún fékk inni um nokkrar kynslóðir og er kölluð Flateyjarbók. Þó ber hún uppruna sínum órækt vitni, enda er þar víðdælskur svipur yfir mörgum frásögnum. Mikið af efni þessarar stóru bókar varðar Noreg, einkum sögur af þeim Ólafi Tryggvasyni, Ólafi helga, Sverri konungi og Hákoni gamla. Þær sögur sem einkum geyma vitneskju um Sama eru Haralds saga hárfagra og Ólafs sögurnar tvær, en það sem vekur sérstaka athygli eru ýmiss konar þættir þar sem Samar og fjölkynngi koma við sögu. Ég mun bráðlega víkja að tilteknum þáttum.

Hin bókin sem Jón í Víðidalstungu lét gera er jafnan kölluð Vatnshyrna og hafði inni að geyma ellefu Íslendingasögur og auk þess nokkra þætti. Vatnshyrna brann í Kaupmannahöfn árið 1728, en efni hennar hefur varðveist í öðrum handritum. Hér er ekki tími til að fara mörgum orðum um þessa bók, enda hafa þeir Stefán Karlsson og aðrir fræðimenn fjallað um hana. En sérkenni ýmissa sagna í Vatnshyrnu bera vitni um svipaðan áhuga og frásagnir í Flateyjarbók. Hér má drepa á eitt dæmi. Einhver frægasti garpur sem heyrir forsögu Norðmanna er Dofri sá, er talinn var fóstri Haralds hárfagra. Lítil ástæða þykir að gera sér rellu út af stöðu Dofra í veraldarsögunni sjálfri, en hitt mun ekki vera nein tilviljun að allar þær fjórar frásagnir sem fjalla um Dofra eru varðveittar í bókum Jóns Hákonarsonar: en þær eru Bárðar saga Snæfellsáss og Kjalnesinga saga í Vatnshyrnu og Hálfdanar þáttur svarta og Haralds þáttur hárfagra í Flateyjarbók. Dofra er getið í tveim ungum handritum Vatnsdælu, en fyrir tæpri öld sýndi Finnur Jónsson að Dofra muni ekki hafa verið getið í upprunalegri gerð Vatnsdælu og sama máli virðist gegna um ýmsa aðra staði í fornritum. Finnur telur hiklaust að sagnir um Dofra séu ekki skráðar fyrr en á fjórtándu öld. Ég minnist þess ekki að Dofri sé nokkurs staðar kallaður Sami eða Finni berum orðum; en hins ber þó að geta að lýsingar á honum minna mjög á ýmsar myndir sem brugðið er upp af Finnum í fornsögum. Rétt eins og þeir Samar sem fóstruðu völuna í Völuspá eru kallaðir jötnar, þá er Dofri fóstri Haralds hárfagra kallaður jötunn. Er hugsanlegt að sagnir af Dofra hafi borist í Víðidalinn úr Noregi með Gissuri galla snemma á fjórtándu öld?

Og engum skyldi koma það undarlega fyrir sjónir að eini staðurinn í íslenskum fornritum sem rekur frásögn af fóstru Haralds hárfagra er Hauks þáttur hábrókar í Flateyjarbók, og þar á ofan á kella auðsæilega að vera samísk, enda er hún fjölkunnug, á heima norður við Gandvík og er býsna hrifin af smjöri og fleski, rétt eins og Samar hafa löngum verið, eins og ég hef þegar bent á. Hvort sem konan heyrir til heimi hugarburðar eða veruleika, þá er gaman að kynnast henni í letrum Flateyjarbókar.

Í ýmsum fornum sögum og kvæðum þar sem jötnum er lýst, má ætla að verið sé að víkja að Sömum öðrum þræði. Hér er ekki tóm til að rekja þetta mál. en þó skal snögglega minnast Gróttasöngs. Rétt eins og Völuspá, þá er Gróttasöngur kveðinn í fyrstu persónu, en þó er sá munur á að í Gróttasöng syngja tvær máttkar meyjar, kallaðar Fenja og Menja, um sjálfar sig og umhverfi sitt. Sjálfslýsing þeirra gefur glögglega í skyn að þær eigi að vera samískar. Þær eru herteknar og látnar mala gull og frið handa Fróða Danakonungi, sem er svo ólmur í gull og frið að hann ann þeim engrar hvíldar, enda þykir þeim vistin döpur og aðbúnaður í lakara lagi: "Aur étur iljar, en ofan kuldi." Máttur þeirra systra er ekki einvörðungu í því fólginn að geta snúið furðu stórum kvarnarsteini, heldur eru þær ramm-göldróttar og hafa auðsæilega hlotið svipaða þjálfun og völvan sem orti Völuspá. Völvan kveðst muna níu heima fyrir neðan jörð. en þær Fenja og Menja höfðu verið átta vetur fyrir jörð neðan. Hér mun vera um að ræða framhaldsnám í samískri fjölkynngi. Rétt eins og völvan eru þær Fenja og Menja framvísar, enda sjá þær fyrirfram þá ógnarlegu atburði sem enn voru ókomnir.

Í andstæðu við Heiði Haraldsfóstru, Fenju og Menju þá eru nokkrar samískar konur afburða fríðar og um leið svo töfrandi að þær geta heillað menn að vilja sínum. Einna frægust er Snæfríður dóttir Svása hins samíska sem stundum er kallaður dvergur. Svási bauð Haraldi í gamma sinn, en gammi er tökuorð úr samísku og merkti "torfkofi": "Þar stóð upp Snæfríður dóttir Svása, kvenna fríðust, og byrlaði konungi ker fullt mjaðar, en hann tók allt saman og hönd hennar, og þegar var sem eldshiti kæmi í hörund hans og vildi þegar hafa hana á þeirri nóttu," segir Snorri Sturluson og getur ekki orða bundist um samíska töfra. Flateyjarbók hagar orðum á annan veg, en fegurð og töframáttur hennar leyna sér hvergi. Ýmsar aðrar samískar konur sem heita björtum nöfnum og ráða yfir mikilli fegurð og fjölkynngi reynast ástmönnum sínum engar heillaþúfur um að þreifa, svo sem Hvít dóttir Samakonungs í Hrólfs sögu kraka og Mjöll Snæsdóttir í Sturlaugs sögu starfsama.

Af öllum þeim Íslendingum sem fóru til Noregs frá því á landnámsöld og fram til loka fjórtándu aldar er ekki vitað um nema tvo nafngreinda menn og förunauta þeirra sem komust til Finnmerkur eða Samalands, og voru þeir báðir Húnvetningar. Annar var Oddur Ófeigsson á Mel í Miðfirði á elleftu öld sem fór þangað í ólöglega kaupferð; vitaskuld er Odds þáttur Ófeigssonar varðveittur í Flateyjarbók. Hinn húnvetnski Finnmerkurfarinn var Gissur galli í Víðidalstungu, sem var fæddur árið 1269, og lést rösklega tíræður árið 1370. Um hann skrifaði Jón Jóhannesson ritgerð sem birtist í öðru bindi af Íslendinga sögu.

Í þeim annál sem Jón Hákonarson, sonarsonur Gissurar, lét taka saman, og var þar stuðst við Lögmannsannál síra Einars á Breiðabólstað en mörgu aukið við, er þess getið að Gissur færi út til Noregs árið 1308, og árið eftir varð hann hirðmaður Hákonar konungs. Við árið 1310 er svofelld grein í annálnum: "Hákon konungur sendi Gissur galla á Finnmörk eftir skatti, er ekki hafði fengist um mörg ár." Árið eftir, 1311, kom hann aftur til Noregs af Finnmörku með skattinn. Til allrar bölvunar höfum vér engar frásagnir af dvöl hans með Sömum, en tvímælalaust hefur hann tekið með sér túlk og leiðsögumenn, enda hlýtur hann að hafa lagt mikið kapp á að kynnast höfðingjum Sama, svo hann gæti náð skattinum með samkomulagi. Og hitt væri harla undarlegt ef hann hefur ekki gert sér far um að kynnast einnig þjóðháttum Sama og menningu. Gissur kom heim úr utanför sinni árið 1312, og fór síðan aftur til Noregs þremur árum síðar, og dvaldist utanlands um nokkur misseri, en hér er ekki tóm til að fjalla um síðari utanferð hans.

Jón Hákonarson var rétt um tvítugt þegar afi hans féll frá, og hefur því getað orðið fyrir miklum áhrifum frá honum og numið þaðan margan fróðleik um Sama og Finnmörku. Því má þykja sennilegt að samískt efni í Flateyjarbók kunni að vera komið frá Gissuri galla, enda má það heita merkilegt hve mikillar samúðar gætir í þeirra garð, og þar fer lítið fyrir þeim norræna þjóðernishroka og andúðar á Sömum sem bregður fyrir í einstaka sögum utan Flateyjarbókar. Í rauninni er það engin firra að láta sér koma til hugar að Gissur galli kunni að hafa skrifað sjálfur eða látið aðra færa í letur fróðleik um Norðmenn og Sami. Freistandi væri að athuga hverjir þættir í bókinni hafi verið teknir saman í Víðidalstungu, en með því að rannsóknir á víðdælskum fornbókmenntum eru enn skammt á veg komnar skal fátt segja um málið að sinni.

IV. Samskipti Norðmanna og Sama

Í Egils sögu kemur glöggt í ljós að Norðmenn högnuðust af Sömum með þrennu móti: sköttum, kaupskap og ránum. Konungar Noregs kröfðust skatta af Sömum, jafnvel þótt þeir væru ekki norskir þegnar, og voru skattarnir jafnan heimtir af mikilli frekju. Konungar töldu sig einnig hafa einkarétt til að versla við Sama; var þá einkum sóst eftir loðskinnum, og í staðinn fengu Samar smjör, annað feitmeti og ýmsar vörur sem þá vanhagaði um. Í Vatnsdælu segir frá því að Ingimundur gamli fær tvo galdramenn til að fara hamförum til Íslands, og launar þeim greiðann með tini og smjöri.

Af ránum Norðmanna á Finnmörku segir nokkuð í Egils sögu, en hér skal látið nægja að víkja að frásögn í Örvar-Odds sögu. Þeir Oddur og Hrafnistumenn sigla norður með Hálogalandi og síðan sem sjóleið liggur allt til Bjarmalands. Þegar komið er að Finnmörku, leggjast þeir við akkeri. "Þar var fjöldi gamma á landi upp," segir sagan. "Um morguninn ganga þeir Guðmundur á land af skipi sínu. Þeir renna í gammana og ræna Finnurnar, en Finnar voru ekki heima. Þær þola illa og æpa mjög." Þegar Guðmundur kemur aftur um borð segir hann að sér hafi þótt mikið gaman að ræna Finnurnar. Meðferð hans minnir á afstöðu Evrópumanna á síðari öldum til frumstæðra þjóðflokka í Afríku, Ameríku og víðar. Guðmundi varð þó lítill gróði að þessu tiltæki sínu, enda tókst samísku konum með fjölkynngi sinni að ná sér niðri á þessum hrokagikkum.

En Norðmenn og Samar áttu einnig vinsamleg viðskipti. Völvan í Völuspá var engan veginn eina norræna barnið sem var sent í fóstur til Sama. Flateyjarbók varðveitir Hemings þátt Áslákssonar og vantar þó niðurlag þáttarins. Í þeirri frásögn er þess getið að bóndinn í Torgum, sem er eyja norðarlega á Hálogalandi, sendi son sinn sjö ára gamlan í fóstur til Sama. En það norræna fósturbarn Sama að fornu sem náð hefur einna mestri frægð er sú Gunnhildur sem síðar hlaut viðurnefnið konungamóðir og náði með fjölkynngi sinni furðumiklu valdi yfir Hrúti bónda vestan úr Dölum. Snorri Sturluson rekur frásögn af Eiríki blóðöx sem herjar norður á Bjarmalandi. Á heimleið er staldrað við á Finnmörku, og þar finna menn Eiríks undurfagra konu í gamma einum. Hún kvaðst heita Gunnhildur og vera dóttir Ösurar bónda á Hálogalandi. Hún dvelst þá með Sömum á Finnmörk til þess að nema fjölkynngi af þeim tveim Finnum sem fróðastir eru á mörkinni. Þeir vilja báðir eiga Gunnhildi, en hún vill hvorugan. Nú fær hún þessa Norðmenn til að hjálpa sér við að ráðast á Samana sofandi og drepa þá.

Engin hræða í fornum frásögnum launaði kennurum sínum mikinn fróðleik af slíku vanþakklæti og Gunnhildur, enda hlaut hún makleg málagjöld að lokum. Flateyjarbók hermist svo frá að í ekkjudómi sínum fékk hún bónorðsbréf frá Haraldi Gormssyni; konan trúði fagurgala hans og hraðaði sér til Danmerkur, en þar biðu hennar þrælar konungs sem drekktu henni í djúpu feni. "Fór þar sem von er að illt upphaf fékk illan enda, því að Gunnhildur hafði grimmlega svikið sína finnsku meistara," segir bókin.

Í einum kaflanum sem varðveittur er í Flateyjarbók úr Ólafs sögu helga eftir Styrmi fróða er merkileg frásögn af Þóri hund í Bjarkey norðarlega á Hálogalandi. Þórir var höfðingi mikill, og skal þess minnst að sonur hans gekk að eiga Unni Snorradóttur goða, sem áður var eiginkona Víga-Barða og húsfreyja á Ásbjarnarnesi í Vesturhópi. Þórir hundur lenti á öndverðu meiði við Ólaf helga, og leitaði hjálpar af Möttli Samakonungi sem réð þá yfir Finnmörku. Möttull var heiðinn blótmaður og mjög fjölkunnugur. Hann bauð Þóri að dveljast með sér um veturinn 1029-30 og þeim tólf saman til að nema fjölkynngi, og er það stærsti hópur norskra galdranema á Finnmörku sem um getur í fornum heimildum. Um vorið gefur Samakonungur Þóri tólf hreinbjálfa (=hreindýraskinn) svo magnaða að þá bitu engin járn. Þessa hreinbjálfa höfðu þeir í orrustunni á Stiklastöðum. og töldu sumir að Þórir hefði orðið Ólafi konungi að bana, enda naut Þórir samískrar fjölkynngi sinnar.

Niðurlag í næstu Lesbók.

Höfundur er fyrrverandi prófessor við Edinborgarháskóla.

Í ANDSTÖÐU við þær Heiði Haraldsfóstru, Fenju og Menju, þá eru nokkrar samískar konur afburða fríðar og svo töfrandi að þær geta heillað menn að vild. Þar á meðal var Snæfríður dóttir Svása, kvenna ffríðust, og byrlaði konungi fullt ker mjaðar, en hann tók allt saman og hönd hennar, og þegar var sem eldshiti kæmi í hörund hans og vildi þegar hafa hana á þeirri nóttu, segir Snorri.

Mynd: Sigurður Valur.