BEINHÓLKURINN ÚR KUMLINU VIÐ EYSTRI-RANGÁ EFTIR BERGSTEIN GIZURARSON Talið hefur verið að frásögnin af bogfimi Gunnars á Hlíðarenda væri að mestu listræn frásögn höfundar Njálu. Nú horfir málið öðruvísi við.

BEINHÓLKURINN ÚR KUMLINU VIÐ EYSTRI-RANGÁ EFTIR BERGSTEIN GIZURARSON Talið hefur verið að frásögnin af bogfimi Gunnars á Hlíðarenda væri að mestu listræn frásögn höfundar Njálu. Nú horfir málið öðruvísi við. Miklar líkur eru á því að Gunnar hafi alist upp við bogfimi og átt einn þeirra öflugu boga sem kenndir voru við Húna og voru skæðustu vopn þess tíma. Með húnboganum var notaður hringur eins og sá sem fannst við Eystri-Rangá.

ýlega rakst ég á bók Kristjáns Eldjárns fyrrverandi forseta og þjóðminjavarðar, Gengið á reka, sem gefin var út árið 1948. Ég hafði lesið þessa bók fyrir mörgum árum en nú birtist hún mér aftur þegar ég var að flytja bækur til í húsi mínu.

Þessi bók er mjög áhugaverð fyrir alla sem hafa áhuga á sögu fyrstu aldanna eftir landnám Íslands, en þar segir Kristján frá ýmsu sem rekið hefur á fjörur hans sem þjóðminjavarðar á alþýðlegan og áhugaverðan hátt. Í þessari bók heitir einn kaflinn, Bardagi við Rangá, en það var bardaginn við Gunnarsstein, sem er stór steinn tæplega þremur kílómetrum fyrir innan Keldur á bakka Eystri-Rangár, Steinninn er talinn bera það nafn vegna þess að þar hafi barist Gunnar Hámundarson eins og lýst er í Njálu.

Landnáma getur Gunnars á Hlíðarenda á nokkrum stöðum og á einum stað segir:

"Kolur hét maður, son Óttars ballar, Hann nam land fyrir austan Rangá og Tröllaskóg, og bjó að Sandgili, hans son var Egill, er sat fyrir Gunnari Hámundarsyni hjá Knafarhólum og féll þar sjálfur og austmenn tveir með honum, og Ari húskarl hans en Hjörtur bróðir Gunnars af hans liði."

Njáls saga segir svo frá þessum bardaga miklu nánar og segir, að Gunnar og bræður hans hafi hleypt hestum sínum að Rangá, sem er nokkur leið og varist í nesi við ána og féllu þar fjórtan af liði fyrirsátursmanna, m.a. Egill í Sandgili, Þórir austmaður og Hjörtur yngsti bróðir Gunnars.

Enn fyrirfinnst örnefnið nes neðar við ána sem láglendi meðfram ánni.

Tvö kuml hafa fundist stutt frá Gunnarssteini. Fara fyrst sögur af því árið 1780 og jafnvel fyrr, þegar uppblástur tók að herja á þessar slóðir. Þá lýsti Jón fálkafangari Ísleiksson kumlunum og kvaðst hafa dreymt fornmann, sem kvaðst vera Þórir austmaður.

Í kumlum þessum fundust mannabein og nokkrir gripir en eitthvað kann að hafa glatast. Talið hefur verið, að þarna hafi margir menn verið heygðir samtímis við lok tíundu aldar líklegast eftir bardaga.

Gripirnir, tímasetningin og staðurinn, allt styður þetta frásögn Landnámu og Njálu í aðalatriðum.

Beinhólkurinn

I kumlunum fundust auk beinanna, kjaftamél og járnhöft fyrir hesta, skrautkinga, spjótsoddar og beinhólkur og gef ég þar Kristjáni Eldjárn orðið: "Eftir er að tala um einn grip úr Rangárkumlum, og er ekki ljóst, hvort kalla ber hann skartgrip eða annað. Það er beinhólkur, 2,5 sm breiður bútur úr stórgripslegg, 3 - 3,5 sm víður og minnir helst á servíettuhring. Hólkurinn er allur með gröfnu skrautverki, og er uppistaða þess hirtir tveir, sem standa hvor sínum megin við tré og bíta lim þess. Hjartarmyndirnar eru báðar með afbrigðum haglega grafnar, fullkomnar náttúrustælingar, ristar með léttri og leikandi hendi. Tréð er aftur á móti alls kostar ónáttúrlegt. Hinum megin á hólknum er óhlutrænt skrautverk, sem helst virðist minna á Hringaríkisstíl (þann sama og er á skálafjölunum frá Möðrufelli), en það þýðir, að hólkurinn getur ekki verið eldri en frá seinustu áratugum 10. aldar. Hann virðist hafa verið breiðari í öndverðu, en síðan mjókkaður með því að skera neðan af honum, en við það hefur skrautverkið verið skert, en eðli þess er samt ljóst. Verk náskylt Úrnesstíl. Fornmönnum var frámunalega ósýnt um allar eftirlíkingar úr náttúrunnar ríki. Dýr og fuglar voru að vísu uppistaða í hinni frábæru skrautlist þeirra, en það voru óeðlilegar og ýktar dýramyndir, sem lagaðar voru eftir þörfum og kröfum flatarins, sem skreyta átti. Ef reynt var að draga eðlilegar dýramyndir, fór allt út um þúfur. Þá urðu myndirnar stirðlegar og svo mjög stinga þær í stúf við kynjadýr skrautlistarinnar og klunnaskepnur þær, sem áttu að vera raunsannar. Þótt farið sé með logandi ljósi um allar fornfræðilegar bókmenntir Norðurlanda, er ekki unnt að finna neina hliðstæðu. Eina lausnin, sem hald er í, er sú, að hér sé um að ræða einangrað fyrirbrigði með sterkum persónulegum blæ, eins konar leik eða duttlung einstaks manns, sem var þess megnugur að hefja sig yfir hina hefðbundnu stefnu óhlutrænnar skrautlistar og draga upp náttúrulegar dýramyndir.

En þegar fornmenn lögðu í að líkja eftir dýrum og mönnum sem náttúrlegum fyrirbærum, var tilgangur þeirra alltaf annars eðlis en í skrautlistinni. Þá voru þeir að reyna að tjá eitthvað, gefa eitthvað til kynna eða segja sögu. Þetta getur oft orðið torráðið. Hugsanlegt er, að hirtirnir og tréð á Rangárhólknum standi í einhverju sambandi við goðsögnina um hjört þann, er bítur hið mikla tré, askinn Yggdrasils. En önnur skýring er þó nærtækari. Bróðir Gunnars á Hlíðarenda, sá er í Rangárbardaga féll, hét Hjörtur, barnungur maður að því er virðist. Varla er ástæða til að efa, að þessi maður sé sannsöguleg persóna, því að hans getur í Landnámu. Hjörtur var ákaflega sjaldgæft mannsnafn fyrr á öldum.

Auk Hjartar Hámundarsonar er getið um Hjört nokkurn (Ólafsson), skáldmæltan Íslending hjá Haraldi konungi Sigurðssyni, Valgarð Hjartarson, húskarl Guðmundar dýra, en kallaður er hann þó Starkaðarson í öðru handriti, og loks Hjört nokkurn, sem annálar telja, að fóthöggvinn væri og handhöggvinn árið 1224. Þetta er allt og sumt, og má hiklaust af því ráða, að nafnið hefur verið afar fánefnt. Hjörtur, bróðir Gunnars, er í raun réttri eini Hjörturinn, sem við vitum nokkur deili á. Setjum nú upp dæmið. Við vitum, að sá eini Hjörtur, sem okkur er vel kunnugur úr fornöld, féll um 990. Við höfum fundið staðinn sem hann féll á samkvæmt sögunum. Á þessum stað finnum við grip með gröfnum hjartarmyndum, sem eiga sér engan líka meðal samtíma gripa, en er þó með skýrum einkennum ofanverðrar 10. aldar að öðru leyti. Ég held, að ekki sé nema ein lausn á þessu dæmi. Það hlýtur að vera samband á milli mannsnafnsins Hjörtur og hjartarmyndanna. Raunar segir Njála, að Gunnar reiddi lík Hjartar heim á skildi og væri hann þar heygður. Látum það liggja milli hluta. Ég held að beinhólkurinn hafi engu að síður verið í eigu Hjartar Hámundarsonar, og myndirnar séu eins konar fangamark hans. Hólkurinn hefur orðið eftir í ósköpunum eftir bardagann og síðan hafnað í kumli fyrirsátarmanna, er þeir voru heygðir, eða þá að Hjörtur hafi verið heygður á vígvellinum, þrátt fyrir frásögn Njálu.

En hver skyldi nú hafa gert þennan litla minjagrip handa Hirti? Ekki hefur hann gert það sjálfur, því að þar birtist meiri leikni en ætla mætti unglingi, og þar að auki eru hjartarmyndirnar svo lifandi og náttúrlegar, að þær hlýtur að hafa gert sigldur maður, er sjálfur hafði séð þessi glæsilegu dýr erlendis. Á Hlíðarenda skiptist fólkið í tvær sveitir, allt að því fjandsamlegar. Annars vegar var Hallgerður og þeir, er henni voru skaplíkir, hins vegar Gunnar, móðir hans og bræður. Eitt hið geðþekkasta í lýsingu Gunnars er sambúð hans við þetta ættfólk sitt. Með þeim Kolskeggi var fagurt bræðralag, og þegar Gunnar dreymir fyrir dauða Hjartar og eggjar hann á að hverfa aftur, kveðst pilturinn vilja fylgja honum, þótt hann ætti bana vísan. Má af þessu marka, hvílíkur Gunnar hafi verið Hirti, litla bróður sínum. Ég ímynda mér, að hann hafi leikið við hann, meðan hann var lítill drengur, sagt honum sögur af ferðum sínum, telgt handa honum leikföng og kennt honum vopnaburð, er hann hafði aldur til. Enginn var sá á Hlíðarenda, er líklegri væri en Gunnar til að hafa skorið út beinhring Hjartar. Verkið lofar meistarann, hann hefur verið íþróttamaður á skurðlist. Handbragðið er samboðið öðrum hæfileikum Gunnars, eins og þeim er lýst í Njálu.Þeir sem telja Njálu skáldsögu eina, munu brosa að þessum bollaleggingum. En það verður ekki sigurbros, fyrr en þeir koma með skýringu á hinum einstæðu hjartarmyndum, sem haldbetri sé en þessi. Við bíðum og sjáum hvað setur."

Í árbók Hins íslenska fornleifafélags fyrir árið 1993 var grein eftir danskan fornleifafræðing Lise Bertelsen um beinhringinn frá Eystri-Rangá og telur hún þar að myndirnar á hringnum hafi trúarlegt gildi og hér fer á eftir umsögn hennar:

"Verk náskylt Úrnesstíl"

Á beinhólk frá Rangá, ekki langt frá Keldum, Þjms 329/57, má sjá harla einstæða skreytingu. Myndefnin þar eru: tré, tveir hirtir, fjögur kringlótt form og dýraflétta. Hólkurinn frá Rangá hefur upphaflega verið breiðari. Ekki er vitað til hvers hann var notaður. Hann er talinn fundinn í uppblásnu kumli.

Tré með hirti sinn hvorum megin, sem naga greinar þess, og hringlaga form yfir bakinu á hjörtunum, myndar allt eina heild. Stungið hefur verið upp á því að þetta væri mynd af askinum Yggdrasil 58 eða að tréð táknaði kristið lífstré, og hirtirnir nærðust á því eins og sálir sem taka við guðspjallinu eða sakramentinu. Tilgátur um tímasetningu eru annars vegar um 1000 (þá var þess getið til að hluturinn hefði verið úr eigu Hjartar Hámundarsonar og hirtirnir settir í samband vð nafn hans). Önnur tilgáta er 11. öld eða síðari hluti hennar. Sennilega má telja að hér sé sýnt lífstréð og myndin sé frá síðari hluta 11. aldar. Tréð er stílfært, einnig hringirnir og dýrafléttan aftan á. Það er varla vegna þess að menn kunnu ekki að gera eftirlíkingar dýra og jurta úr náttúrunni. Hirtirnir eru haglega gerðir og eðlilegir, og sýna að listamaðurinn hafði lag á að líkja eftir náttúrunni! Skýringin liggur í hugsuninni á bak við þessa kristnu list. Lífstréð er sett á miðjan skreytiflötinn þar sem miðjan er mikilvægust, stílfært vegna þess að það er tákn hins guðdómlega, og sýnt framan frá, sem táknar vald og myndugleika. Hirtirnir beggja vegna eru sýndir frá hlið sem táknar lægri sess og minni myndugleika, en ef þeir hefðu verið sýndir framan frá. Hjörturinn er mikilvægt tákn í kristni og eitt af fáum kristnum táknum sem eru að öllu leyti jákvæð. Í orðum biblíunnar má sjá að munur er á hægri og vinstri. Sá maður eða dýr sem er á hægri hönd þeim sem sýndur er í miðið ­ þ.e. til vinstri séð frá áhorfandanum, er á næstvirðulegasta stað myndarinnar. Hjörturinn sem þar er hefur hálsband eins og hirtirnir í guðspjallabókinni frá St. Médard, Soissons (nú i þjóðarbókhlöðunni í París), þó hann hafi ekki bjöllu. Hinn hjörturinn á beinhólknum hefur ekki hálsband. Yfir hvorum hirti má sjá tvo hringi, annars vegar hlið við hlið og hins vegar hvorn upp af öðrum. Hringurinn táknar víða hið guðdómlega lögmál án upphafs og enda. Hringirnir fjórir tákna líklega alheiminn. Dýrafléttan á bakhlið hólksins minnir nokkuð á Úrnesstíl, sama gerir lífstréð stílfærða og myndmálið allt virðist kristið. Því er líklegast að tímasetja megi hólkinn á síðari hluta 11. aldar."

Hjartarmyndin úr Húnagröfinni

Þegar ég las kaflann um bardagann við Rangá eftir Kristján Eldjárn aftur og skoðaði hjartarmyndina á beinhringnum frá Eystri-Rangá, rifjaðist upp fyrir mér óglöggt lík hjartarmynd í bók Istvans Bóna um Húnaríkið.

Í bók þessari eru myndir af ýmsum gripum og gröfum Húna.

Á einni myndinni er Húnastríðsmaður, grafinn með vopnum sínum, boga, sverði og fleiri gripum. Við framhandlegg hans er beinplata með hjartarmynd sem minnir óneitanlega á hirtina á beinhringnum frá Eystri-Rangá. Einnig eru á beinplötunni hringir líkt og á beinhringnum. Hringir sem Kristján Eldjárn ræðir ekki í sinni umfjöllun en Lise Bertelsen telur tákna alheiminn. Hvorugt þeirra kemst að niðurstöðu um til hvers beinhringurinn hafi verið notaður.

Auðvelt er að geta sér til að beinplatan í Húnagröfinni tengist boganum sem þar var einnig, þó það komi ekki fram í bók Istvans Bóna. Enda eru slíkar beinplötur þekktar annars staðar frá. Beinplatan var hluti útbúnaðar bogaskyttunnar til að hlífa framhandlegg hennar fyrir bogastrengnum, þegar skotið var. Slíkan útbúnað nota bogaskyttur enn í dag.

En til hvers var þá beinhringurinn frá Eystri-Rangá notaður og hvað tákna hringirnir? Á beinplötunni sjást einnig auk hringjanna örvar og má geta sér til, að hringirnir geti verið skotmörk eða mið.

Á beinhringnum frá Eystri-Rangá eru þessi mörk miklu greinilegri.

Mér datt því í hug, að beinhringurinn hefði verið notaður til að draga upp bogastreng. Ég fór því eitt kvöldið í íþróttahús Sjálfbjargar þar sem haldin var æfing í bogfimi. Þar voru veggspjöld með myndum af ýmsum bogum og aðferðum til að draga þá upp. Hringir líkir beinhringnum frá Eystri-Rangá voru notaðir af Asíubúum til að draga upp boga, sem voru oftast samsettir bogar. Þumlinum var stungið í hringinn og boginn dreginn upp með þumlinum. Þessir hringir voru stundum hreinir dýrgripir úr gulli, silfri eða jaði. Þessi aðferð eða grip er því nefnd mongólska aðferðin (mongolian release). Sjá myndir D og E.

Við nánari skoðun á beinhringnum á Þjóðminjasafni Íslands kom í ljós að á honum var greinilegt slitfar eins og eftir bogastreng. Ytra borð hringsins er að hluta íhvolft svo ekki þurfti að skera í hann skoru líkt og á bogahringnum á mynd E.

Geta má sér til að hringirnir á beinplötunni á framhandleggnum og á beinhringnum megi nota sem mið, t.d. þegar hliðarvindur sé eða skotmarkið hreyfist.

Kristján Eldjárn og Lise Bertelsen telja að skorið hafi verið neðan af beinhringnum. Á beinplötunni úr gröf Húnans vantar einnig neðsta hluta hjartarins og styður það að báðar myndir hafi haft sama tilgang og miðaðan við til hvers hlutina átti að nota.

Verður varla annað sagt en að beinhringurinn frá Eystri-Rangá og beinplatan úr Húnagröfinni hefðu getað átt saman og komi frá sömu grein boglistarinnar.

Tengslin við frásagnir Landnámu, Njálu og Gunnar Hámundarson

Kristján Eldjárn tengdi saman nafn Hjartar bróður Gunnars Hámundarsonar og hjartarmyndina á beinhringnum. Ef beinhringurinn hefur verið notaður til spenna boga, þá verða þessi tengsl nær óumdeilanleg. Njála lýsir bogfimi Gunnars þegar hann varðist banamönnum sínum að Hlíðarenda. Landnáma segir einungis að banamenn hans hafi komið að Hlíðarenda um nótt með þrjá tugi manna, þegar Gunnar hafi verið heima með einn mann fulltíða. Tveir menn hafi fallið af árásarmönnum en sextán orðið sárir áður en Gunnar féll.

Því hefði mátt halda fram að frásögnin af bogfimi Gunnars væri að mestu listræn frásögn höfundar Njálu. Nú horfir málið öðruvísi við. Miklar líkur eru því á því að hann hafi alist upp við bogfimi og að bróðir hans hafi hlotið nafn sitt vegna hjartarmyndarinnar á hringnum. Boginn hefur líklega átt stærstan þátt í vörn Gunnars í nesinu við Rangá. Beinhringurinn er því kannski bogahringur Gunnars sjálfs eða Hjartar. Honum hafi annaðhvort verið fórnað í gröf Hjartar vegna hjartarmyndarinnar eða hreinlega týnst þarna eins og Kristján Eldjárn getur sér til. Hjörtur gæti því hafa verið heygður við Eystri-Rangá en ekki að Hlíðarenda eins og segir í Njálu enda er lýsing Njálu af þeim flutningi á skildi fullskáldleg.

Hringurinn gefur okkur því þær upplýsingar að skotfimi Gunnars hafi verið byggð á sömu aðferð við að spenna og skjóta af boga og þekkist frá Asíu og þá líklega eins og Húnar notuðu eða þær hirðingjaþjóðir sem eftir fylgdu.

Hvaðan komst þessi bogi í hendur fjölskyldu Gunnars Hámundarsonar? Í Landnámu er kannski lausn þessarar spurningar.

Örskotslengd

Samkvæmt frásögn Landnámu hefndi afi Gunnars Hámundarsonar, Gunnar í Gunnarsholti, vígs Snjallsteins í Snjallsteinshöfða með því að vega Önund í Önundarholti í Flóa. Áður hafði Snjallsteinn vegið Sigmund föður Marðar gígju son Sighvats rauða við Sandhólaferju.

Til þess að komast að Önundi hafði Gunnar notið tilvísan Arnar mágs síns í Vælugerði. Vegna síns þáttar í vígi Önundar var Örn dæmdur skógarmaður og var réttdræpur nema í Vælugerði og innan örskotsfjarlægðar frá landareign sinni. Svo fór að synir Önundar vógu Örn er hann rak naut úr landi sínu og var hann það langt utan landareignar sinnar að menn hugðu hann hafa fallið "óheilagur". Þorleifur gneisti, bróðir Arnar, fékk þá Þormóð Þjóstarson til að helga Örn en hann skaut af handboga svo löngu skoti að fall Arnar varð í örskotshelgi hans.

Hér var því um boga að ræða sem dró miklu lengra en venjulegir bogar. Eigandi hans var því fenginn til skotsins af fjölskyldu Arnar en það voru einmitt Hámundur faðir Gunnars á Hlíðarenda og Þorleifur gneisti bróðir Arnar sem ráku mál Arnar. Þessi bogi er trúlega bogi Gunnars á Hlíðarenda og hefur faðir hans sennilega keypt hann af Þormóði Þjóstarsyni eftir bogaskotið frá Vælugerði. Þess má geta að Mörður gígja á Velli, sonur Sigmundar, sem féll við Sandhólaferju, leysti svo þessa deilu með því meðal annars að gifta systur sína Hámundi.

Gunnar Hámundarson tilheyrði því báðum ættum, sem þarna höfðu borist á banaspjótum.

Hann og bræður hans lærðu svo bogfimi frá barnsaldri og ætla má, að Hjörtur, sem var þeirra yngstur hafi hlotið nafn sitt af hjörtunum á bogahringnum.

Gerð hefur verið eftirmynd boga eins og þeirra, sem hafa fundist í gröfum Húna. Sá bogi hefur verið prófaður og reyndist draga 300 metra, samkvæmt frásögn Laszlo Korsos, yfirmanns hersafnsins í Budapest í bókinni Attilla king of the Huns eftir Patric Howarth.

Á 30 metra færi fóru örvarnar í gegnum mjaðmarbein nauts og á 50 metra færi drápu þær villigölt.

Í lögbókinni Grágás er ördrag eða örskotslengd skilgreint sem sú vegalengd sem skjóta má af boga sem "tvöhundruð lögfaðmar tólfræðir á sléttum velli" eða 410 metrar. Þessi skilgreining var ekki komin í lög á tímum þeirra Arnar í Vælugerði og Hámundar Gunnarssonar en geta má sér til að bogskotið frá Vælugerði hafi átt hlut að máli, að örskotslengdin var skilgreind nákvæmlega.

Mörgum hefur þótt sem hér hljóti að vera um villu að ræða í Grágás vegna þess hve örskotslengdin er löng. Skotlengd Húnbogans í Búdapest ber því vel saman við þessa skilgreiningu Grágásar, þar sem hún hefur verið sett rífleg, svo ekki væri tekin sú áhætta að bogi fyndist sem drægi lengra í höndum óvenjulega sterks manns og í meðvindi.

Húnbogarnir voru eflaust langdrægustu bogar þessa tíma.

Örvarskotið frá Vælugerði og örskotsfjarlægð Grágásar benda því eindregið til þess, að hér hafi fyrst eftir landnám fundist einn eða fleiri bogar eins og Húnar notuðu. Sérhver, sem hafði afl og þjálfun til að beita slíku vopni á landnámsöld, hefur haft yfirburða vígstöðu, þar sem hann gat náð til andstæðinga sinna löngu áður en þeir náðu til hans. Þetta kann að skýra yfirburði Gunnars Hámundarsonar gegn andstæðingum sínum, sem telja má ósennilega ef hann hefur einungis haft að vopni atgeir eða spjót, en alls ekki ef hann hefur átt boga eins og Húnar notuðu.

Tengslin við Húnboga og Herúlakenningu Barða Guðmundssonar

Það kann að virðast alllangsótt að tengja bogaskot á tíundu öld á Íslandi við boga Húna.

Ríki Húna hófst með innrás þeirra inn í Evrópu á seinni hluta fjórðu aldar og það hafði liðið undir lok áður en fimmtu öld lauk. Boginn var það vopn sem gaf Húnum þá yfirburði sem urðu til þess að þeir lögðu undir sig germönsku þjóðinar allt frá Eystrasalti til Svartahafs, ráku sumar á flótta inn í ríki Rómverja og unnu stóra sigra á herjum þeirra. Bogar Húna voru settir saman úr beini eða horni og sveigjanlegum viði og var lengd þeirra spenntra um 120 til 130 sm. Bogarnir voru "assymetriskir" þar sem Húnarnir höfðu ekki ístöð á söðlum sínum og gátu því ekki staðið upp þegar skotið var. Var því neðri hluti bogans styttri en efri hlutinn. Örvarnar höfðu mismunandi örvarodda, miðaða við til hverskonar veiða eða hernaðar þær átti að nota. Þyngstu örvaroddarnir voru til hernaðar og úr járni, þrístrendir. Bogarnir voru mjög eftirsóttir og mikils virði og sagt er að engir hafi getað smíðað þá aðrir en Húnar. Þeir gengu frá föður til sonar og voru því sjaldnast lagðir í grafir fyrri eigenda samkvæmt Istvan Bóna. Þjóðir eins og Avarar og Magyrar, sem komu síðar inn í Evrópu, notuðu skylda boga en náðu samt ekki að gera þá eins.

Hornbogar Húna eru nefndir í Eddukvæðum. Í Hlöðskviðu segir Gizur Grýtingaliði við Húna. "Eigi gjöra Húnar oss felmtraða né hornbogar yðar."

Húnbogi hefur verið mannsnafn hér á landi. Það bendir til þess að einhverjir forfeðra okkar hafi átt þetta vopn og verið kallaðir eftir því.

Í Landnámu eru nefndir fimm Finnbogar en einungis einn Húnbogi.

Finnboganafnið kemur á sama hátt frá boga Sama en líklega hefur sá bogi verið hreint leikfang í samanburði við boga Húna.

Barði Guðmundsson setti fram þá kenningu að það fólk, sem hefði valist til landnáms á Íslandi hafi að miklu leyti verið afkomendur Herúlanna, sem lögðu leið sína frá Skandinavíu eða Suður-Svíþjóð á fyrri hluta þriðju aldar og voru staddir á Krímskaga, þegar Húnar lögðu þá undir sig seint á fjórðu öld. Þeir urðu síðan undirþjóð Húna þar til Húnaríkið sundraðist á seinni hluta fimmtu aldar. Herúlarnir stofnuðu þá eigið ríki við Dóná, þar sem nú er Ungverjaland. Þetta ríki stóð einungis í stuttan tíma eða varla hálfa öld og endalok þess urðu að Langbarðarnir eyðilögðu það og sundraðist þjóðin. Samkvæmt rómverskum heimildum, riðu hinir heiðnu Herúlar og höfðingjar þeirra til Norðurlanda og settust að í nágrenni Gauta. Þetta þjóðarbrot telur Barði að séu hinir svokölluðu Hálfdanir, sem koma fram í fornum kvæðum jafnvel í engilsaxneska Beowulf kvæðinu sem varðveittist í Englandi. Enda munu fyrstu Herúlarnir hafa komið til Norðurlanda um líkt leyti og Engilsaxar voru enn að flytjast til Englands. Herúlar höfðu lengi verið bandamenn Húna og börðust með þeim t.d. í Frakklandi árið 451 undir forystu Atla Húnakonungs. Má því búast við að einhverjir herflokkar Húna hafi fylgt þeim til Norðurlanda og að Húnbogar hafa verið með í förinni og jafnvel bogasmiðir sem kunnu til verka. Varla hefur landnám Herúla í Skandinavíu gengið friðsamlega fyrir sig. Húnbogar og smíði þeirra hefur því getað loðað við fram á víkingaöld og landnám Íslands.

Þetta styðja fundir örvarodda, sem taldir eru ættaðir frá Húnum á Norðurlöndum. Við Sparlösa í Vestur-Gautlandi er rúnasteinn, sem talinn er vera frá seinni hluta áttundu aldar.

Á steininum er mynd af víkingaskipi og kattardýri og neðst maður á hesti í fylgd hjartar.

Sjá mynd H. Húfa mannsins líkist húfum Húnanna. Sjá mynd G. Hjartarmyndin er ótrúlega lík hjartarmyndinni á beinplötunni úr Húnagröfinni hér að framan. Efst á rúnasteininum er mynd, sem minnir mjög á tjöld þau er hirðingjaþjóðir Asíu notuðu og gera jafnvel enn. Hjartarmyndirnar minna á söguna um uppruna Húnanna. Konungur Gota hafði rekið hóp flagða í útlegð í austurátt og út af þeim komu Húnar við mök við vonda anda. Sagan segir, að hind hafi leitt Húna á hjartarveiðum út úr fenjunum inn á yfirráðavæði Gota við Svartahaf. Til þessa atburðar vísaði Atli Húnakonungur þegar hann eggjaði her sinn fyrir orustuna á Katalánavöllum 150 km austan við París árið 451.

Bogar og hjartamyndir eru því nátengdar Húnum og veiðum með boga.

Myndirnar á beinhringnum frá Eystri-Rangá minna einnig mjög á hjartarmyndirnar og tréð á Gundestrup katlinum frá Jótlandi, einum merkasta forngrip Dana sem er talinn vera frá því um Krists burð og af sumum upprunninn frá svæðinu við Svartahaf. Lengi má ræða hjartarmyndirnar á beinhringnum og beinplötunni á þeim nótum og gefa þeim trúarlega merkingu, þótt þær séu að mati höfundar líklegast miðaðar við þau not sem þessir hlutir voru ætlaðir til.

Lokaorð

Þessi grein hefur nú orðið lengri en höfundur ætlaði í byrjun en fleira hefur tengst þessari gátu sem okkur hefur verið send í líki beinhringsins.

Mat höfundar er að beinhringurinn frá Eystri-Rangá geti verið eldri en landnám Íslands en samkvæmt mati Krisjáns Eldjárns var hann frá tíundu öld og mati Lise Bertelsen frá elleftu öld. Spurning er því um aldur beinhringsins og er brýnt að hann verði aldursgreindur sem fyrst með kolefnismælingu.

Ef ályktanir höfundar eru á traustum grunni byggðar er beinhringurinn frá Eystri-Rangá, einhver merkasti forngripur þjóðarinnar.

Ég vil svo að endingu gera lokaorð Krisjáns Eldjárn í bók sinni, Gengið á reka, að mínum:

"Þeir sem telja Njálu skáldsögu eina, munu brosa að þessum bollaleggingum. En það verður ekki sigurbros, fyrr en þeir koma með skýringu á hinum einstæðu hjartarmyndum, sem haldbetri sé en þessi. Við bíðum og sjáum hvað setur."

Heimildir: Höfundur studdist við eftirfarandi bækur við gerð þessara hugleiðinga: Gengið á reka eftir Kristján Eldjárn. Bókaútgáfan Norðri, 1948. Das Hunnenreich eftir Istvan Bóna. Konrad Theiss Verlag, Stuttgart, 1991. Shamanens Hest eftir Sören Nancke-Krogh. Nyt Nordisk Forlag Arnold Busck, 1992. Attila King of the Huns eftir Patrick Howarth. Constable, London, 1994. Kviður af Gotum og Húnum eftir Jón Helgason. Heimskringla, 1967. Landnáma. Hið íslenska fornritafélag, 1986. Úrnesstíll eftir Lise Bertelsen. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1993. Reykjavík 1994.

Höfundur er brunamálastjóri í Reykjavík.

BEINHÓLKURINN úr kumlinu við Eystri-Rangá. Þetta er bogahringur sem hafður var til að hlífa þumalfingri þegar skotið var af boga. Þessir bogahringir voru oft mjög haglega gerðir, stundum úr dýrum málmum, og þeir voru festir við eigandann eins og vopnabúnaður hirðingja var oft. Beinhólkurinn er varðveittur á Þjóðminjasafninu.

MYNDIRNAR á beinhólknum frá Eystri-Rangá.

(Úr bók Kristjáns Eldjárns, Gengið á reka.)

HÚNI á hesti. Kínversk teikning frá annarri öld fyrir Krists burð. Hesturinn er merkilega líkur íslenskum hesti.

(Úr bók Sören Nancke-Krogh, Shamanens Hest.)

HÚNINN í gröf sinni. Myndin á beinplötunni við hægri handlegg hans er stækkuð að neðan.

(Úr bók Istvans Bóna, Das Hunnenreich.)

ÞANNIG notaði bogaskyttan beinhólkinn. Þetta er kallað mongólskt grip og var almennnt notað af Asíuþjóðum.

HÚNBOGI. Teikningin sýnir endursmíðaðan boga, byggt var á leifum boga sem fannst við Wien-Simmering og við Minfeng í Turkestan.

(Úr bók Istvans Bóna, Das Hunnenreich.)

HÚNINN á rúnasteininum Sparlösa í Vestur Gautlandi.

(Úr bók Sörens Nancke-Krogh, Shamanens Hest.)