Eðalskart/skúlptúr LIST OG HÖNNUN Gullsmiðja Hansínu Jens SKART/SKÚLPTÚR Hansína Jensdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir. Opið frá 10­18 virka daga og 10­14 laugardaga. Til 15. desember. Aðgangur ókeypis.

Eðalskart/skúlptúr LIST OG HÖNNUN Gullsmiðja Hansínu Jens SKART/SKÚLPTÚR Hansína Jensdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir. Opið frá

10­18 virka daga og 10­14 laugardaga. Til 15. desember. Aðgangur ókeypis.

LIST skartsins er jafn gömul mannkyninu og sækir stíft fram í heiminum um þessar mundir, er vottur vaxandi áhuga á að styrkja ímynd sína, hverfa ekki inn í fjöldann. Og þó það eigi sem fyrrum einkum við um kvenþjóðina hefur skrautgirni einnig aukist meðal karlpeningsins. Þetta hefur hleypt nýju lífi í skartgripaiðnaðinn og þá ekki síst gull og silfursmíði, og framsæknir hönnuðir á sviðinu rembast eins og rjúpan við staurinn við að jarðtengja þróunina með nýjum ferskum og djörfum hugmyndum. Menn ræða um endurreisn skartsins og velta fyrir sér möguleikum þess á nýju árþúsundi og hér eru einstaklingseinkennin, frjáls listræn mótun, stílbrögð, kímni og stöðutákn meginþættirnir. Þetta allt eða með áherslu á einhvern þeirra.

Ekki er laust við að rýnirinn hafi orðið var við þróunina á flakki sínu milli heimsborganna, ekki einungis á hönnunar- og listiðnaðarsöfnum heldur einnig á virðulegum listasöfnum, þar sem skartið veitir svipmiklum listaverkum á veggjum og gólfi á stundum umtalsverða samkeppni. Bæði í formi sýningargripa sem utan á þeim mörgu fögru og þokkafullu fljóðum á öllum aldri er reika þar um ganga og sali. Það fer eðlilega saman að hafa tilfinningu fyrir sjónrænum lifunum allt um kring og að vera umhugað um útlit sitt og persónu. Þannig er áberandi hve hugmyndaríkari og smekklegri róðurnar eru innan veggja safna en utan. Kannski er hér fundin ein ástæða þess, að rýninum er svo umhugað að komast inn fyrir dyr þeirra!

Auðvitað er það eftir öðru að þróunin hefur borist til útnorðursins, um það eru nokkur sallafín verkstæði sem hafa verið opnuð hér í borg á undanförnum árum til vitnis.

Menn hafa vitað af athöfnum Hansínu Jensdóttur bæði úr nálægð og fjarlægð, því hún hefur bæði unnið á verkstæði föður síns sem tekið virkan þátt í ýmsum mótunar og rýmisathöfnum. Síðasta afrek hennar var að opna fyrir skömmu verzlun, verkstæði og listhús að Laugavegi 20 b, Klapparstígsmegin. Er þar til sýnis fjölþætt skart sem hún hefur lagt hönd að og sem ber í senn vott um frjótt ímyndunarafl og þroskaða sköpunargáfu. Hönnun sjálfs húsnæðisins er saga út af fyrir sig, því hér jaðrar við að meistaralega sé að verki staðið, jafn vel og tekist hefur að samræma gamalt og nýtt og skapa sérstætt andrúm. Og sjálf fjölþætt hönnun skartsins er hér í góðu samræmi og jafnvel þótt byggt sé á hefðbundnum grunni er oftar en ekki vikið úr leið af áberandi ríkri formkennd. Jafnfram er lítill sýningarsalur í afmörkuðu horni og aflöngu rými inn af verzluninni og þar sýnir fram eftir desembermánuði Ragnhildur Stefánsdóttir nokkur skúlptúrverk úr gúmmíkenndu efni sem mikið er í náðinni meðal nýlistarfólks heimsins nú um stundir.

Ragnhildur er meðal okkar framsæknustu rýmislistamanna og er vakandi fyrir hræringum að utan svo sem framkvæmdir hennar á vettvanginum eru til vitnis um. Verkin í listahorninu eru svo líkust framhaldi af síðustu sýningu hennar í Nýlistasafninu.

Þetta eru tvö sjálfstæð verk "Hjartalag" og "Náttúruleg tilbrigði" og segja nöfnin nokkuð um formanir þeirra, þau falla jafnframt fagurlega að rýminu sem umlykur þau, eru í takt við hjartasláttinn að baki vinnubragðanna og þau náttúrulegu tilbrigði sem eru aðal skartsins. . .

Bragi Ásgeirsson

Morgunblaðið/Golli

EITT verkanna á sýningunni.