Háski á KÓLASKAGA Karl Blöndal heimsótti eiturslóðir í Rússlandi og gisti meðal annars í kjarnorkuknúnum ísbrjót nokkur hundruð metra frá skipinu Lepse, sem geymir geislavirkan úrgang og hefur verið líkt við fljótandi Tsjernóbíl.

Háski á KÓLASKAGA Karl Blöndal heimsótti eiturslóðir í Rússlandi og gisti meðal annars í kjarnorkuknúnum ísbrjót nokkur hundruð metra frá skipinu Lepse, sem geymir geislavirkan úrgang og hefur verið líkt við fljótandi Tsjernóbíl.

VEGARKANTI á leiðinni frá Múrmansk til Nikel standa tvö rauð hús og skera sig úr í hvítum snjónum. Við húsin er ekki hræðu að sjá, en einn hundur stendur tjóðraður við vegg og geltir án afláts. Á húsunum eru lítil skilti, gul og rauð, sem á er skrifað kyrillísku letri á rússnesku: Bannsvæði ­ lífshætta. Við eftirgrennslan kemur í ljós að þarna er um að ræða geymslustað fyrir kjarnorkuúrgang. Gæslan er engin og geymsluskúrnum veitti ekki af viðhaldi þótt þar væri geymd grásleppa.

Hinn geislavirki úrgangur á þessum stað stendur þó ekki undir berum himni eins og úraníum­brúsarnir í Andrejeva-flóa, sem hafa verið á berangri frá því í upphafi sjöunda áratugarins. Hylkin eru farin að láta á sjá. Þau eru sprungin og lokin farin að losna. Vatn rennur hindrunarlaust í þau og úr.

Hvergi í heiminum er jafn marga kjarnakljúfa að finna og á Kólaskaga. Samkvæmt Bellona eru þar 18% af kjarnakljúfum heimsins, 182 í notkun og 135 sem hafa verið teknir úr umferð. Sérfróðir menn segja að það sé ekki spurning um það hvort þarna verði stórslys heldur hvenær, verði ekkert að gert. Rússar hafa hins vegar ekki efni á að ganga frá kjarnorkuúrgangi og geislavirkum efnum og á meðan þeir fá enga hjálp að utan verður ástandið óbreytt.

Vandi Norðurflotans

Stór hluti vandans er vegna Norðurflota rússneska sjóhersins, sem hefur þurft að leggja kjarnorkukafbátum án þess að geta gengið almennilega frá þeim. Í Rússlandi eru hins vegar margir þeirrar hyggju að það sé ekki aðeins í verkahring Rússa að leysa þennan vanda, Vesturlönd beri einnig ábyrgð.

"Vandi Norðurflotans hófst í kalda stríðinu," sagði Sergei Filipov, fulltrúi norsku umhverfisverndarsamtakanna Bellona á blaðamannafundi í Múrmansk. "Vestrið átti einnig þátt í að skapa vandann og nú er kalda stríðinu lokið þannig að það er sameiginlegt verkefni að finna sameiginlega lausn."

Fyrir um fimm árum var ákveðið að hefja aftur samvinnu, sem hafði legið niðri í hálfa öld. 11. janúar 1993 var undirrituð yfirlýsing um svæðisbundið samstarf á norðurslóðum, svokölluðu Barentssvæði, milli Norðurlandanna og Rússlands í bænum Kirkenes í Norður­Noregi. Hugmyndin var upprunin í norska utanríkisráðuneytinu og tilgangurinn að tryggja frið og stöðugleika í samskiptum við grannríkið í austri. Öryggishagsmunir Norðmanna voru einnig í fyrirrúmi, sem og umhverfismál. Í upphafi átti að leggja áherslu á smærri verkefni, en metnaðurinn hefur aukist jafnt og þétt.

Eiturborgin Nikel

Stærsta verkefnið er endurnýjun nikkelbræðslunnar í borginni Nikel, sem er skammt frá norsku landamærunum. Mengunin þar í borg er yfirgengileg. Feiknarlegir skorsteinar spúa eitri dag og nótt. Í tíð Sovétríkjanna var Nikel borg uppgripa. Þangað kom fólk, vann í nokkur ár og hélt brott með nægt fé til að geta keypt húsnæði eða komið undir sig fótunum. Nú er öldin önnur. Kaupið hrekkur skammt og þeir sem búa í Nikel eiga ekki undankomu auðið. Nikel og nágrannabærinn Sapoljarní, þar sem nikkelnámurnar er að finna, heyra til þess svæðis sem Valerí Mensjikov, sem sér um umhverfismál í rússneska öryggisráðinu, hefur í huga þegar hann talar um menguðustu svæði Rússlands. Það er númer 60 í röðinni yfir helstu mengunarpytti landsins.

Petsjenga­nikkelverksmiðjan gefur frá sér sex sinnum meiri brennisteinstvísýring en allur samanlagður iðnaður Norðmanna og mikið af úrfellinu berst til Noregs. Talið er að það muni kosta 1,7 milljarða norskra króna (um 17 milljarða íslenskra króna) að gera umbætur í verksmiðjunni og leysa mengunarvandann. Norðmenn hafa heitið 300 milljónum norskra króna (um þremur milljörðum íslenskra króna) til þessa verkefnis, en lítið virðist ætla að verða úr framkvæmdum.

Eigendur verksmiðjunnar virðast ekki hafa á prjónunum að verja miklu fé í Nikel. Fyrirtækið er í vandræðum og skuldar um 700 milljónir dollara (um 46 milljarða króna). Borís Jeltsín Rússlandsforseti hefur meira að segja reynt að koma til hjálpar með því að gefa fyrirtækinu eftir 90 milljónir dollara (tæplega sex milljarða króna) í skatta.

Tore Gundersen, ráðgjafi nafna síns Godals, utanríkisráðherra Noregs, sagði á blaðamannafundi í Kirkenes að staða mála vegna nikkelbræðslunnar væri þannig að tímabært væri að endurskoða hvernig bæri að verja því fé, sem Norðmenn hugðust leggja til endurnýjunar bræðslunnar.

Stein Sneve, fréttamaður í Barentsskrifsstofu norska ríkisútvarpsins (NRK), sagði í fyrirlestri í Kirkenes fyrir skömmu að það hefðu verið mistök að leggja svona mikla áherslu á þetta verkefni.

Samvinna á Barentssvæðinu í hættu?

"Nú heyrast þær raddir að fari þetta verkefni út um þúfur sé enginn tilgangur með Barentssvæðinu," sagði Sneve. "Ég held að þessu verkefni verði aldrei lokið, en ég vona að ég hafi rangt fyrir mér."

Ýmsar ástæður eru fyrir því hvernig komið er. Nikel er langt frá Moskvu og rússnesk stjórnvöld hafa ekki veitt nikkelbræðslunni forgang.

Talið er að verksmiðjan eigi 10 til 20 ár eftir og hefur því verið haldið fram að hagkvæmara væri að reka hana óbreytta í þann tíma, einkum með hliðsjón af því að sennilega sé ekki eftir nikkel í námunum í Sapoljarní til nema sjö til 15 ára vinnslu.

Geislavirkur úrgangur til Majak?

En Norðmenn leggja ekki aðeins áherslu á að draga úr mengun vegna nikkelverksmiðjunnar. Hættan af geislavirkni er þeim ofarlega í huga. Fyrir viku voru umræður á norska Stórþinginu um það hvort Norðmenn ættu að veita 100 milljónum norskra króna (rúmlega einum milljarði íslenskra króna) af fjárlögum ársins 1997 til þess að flytja geislavirkan úrgang frá Kólaskaga til Majak­endurvinnslustöðvarinnar í Suður­Úralfjöllum.

Þessi lausn hefur verið gagnrýnd og svo virðist sem Tore Godal utanríkisráðherra sé jafnvel reiðubúinn til að íhuga hugmyndir um að geyma úrganginn á Kólaskaga í stað þess að flytja hann til Majak.

"Á alþjóðlegum vettvangi lítur þetta út sem tilraun Norðmanna til að losna við úrganginn frá norsku landamærunum," sagði Frederic Hauge, stjórnandi Bellona-samtakanna.

Hvergi í heiminum mælist jafn mikil geislavirkni og á ákveðnum svæðum við kjarnorkuverið og vinnslustöðina fyrir geislavirkan úrgang í Majak. Í umræðunum á stórþinginu komu fram tvær rússneskar konur frá Majak, sem fóru fram á að norskir stjórnmálamenn gerðu heimili þeirra ekki að ruslahaugum fyrir geislavirkan úrgang.

"Tölur okkar sýna fram á að plútóníummengun hefur aukist mjög á undanförnum árum," sagði Natalja Míronova, leiðtogi umhverfisverndarsamtakanna Hreyfing fyrir kjarnorkuöryggi. "Börn baða sig og konur þvo þvott á svæðum þar sem geislavirkni er mikil."

Elena Joukovskaja, læknir og vísindamaður, sagði að sjúkdómar og vansköpuð börn væru sýnu tíðari á menguðu svæðunum, en annars staðar í Rússlandi.

Fyrsti kjarnakljúfurinn í Sovétríkjunum var smíðaður í Majak árið 1949. Mensjikov lýsti því svo að þá hefði lítill skilningur verið á hættunni af kjarnorku. Markmið hersins var að framleiða sem mest plútóníum til vopnaframleiðslu. Geislavirkum úrgangi var fleygt í litla á sem rennur skammt frá.

"Á bökkum árinnar stóðu mörg þorp, en sérfræðingarnir sögðu að geislavirknin mundi dreifast," sagði Mensjikov. "Þeir höfðu rangt fyrir sér. Að þremur árum liðnum var fólkið flutt á brott, en tvö þorp voru skilin eftir. Í öðru þeirra búa 2.500 manns, flestir tatarar að uppruna. Þar giftast stúlkur ungar, yfirleitt um 14 ára aldur. Þrjátíu árum síðar voru því komnar þrjár kynslóðir og vísindamenn gátu rannsakað erfðafræðilegar breytingar. Í fyrra kom fram skýrsla þar sem sýnt var fram á að rof hefði komið í litninga og kjarnsýrur. Niðurstaðan var sú að stökkbreytingar hefðu orðið vegna geislavirkni og þær hefðu gengið í erfðir."

Geislavirknin á heima í heimsmetabók Guinness

Mensjikov sagði að geislavirknin við Majak væri slík að það ætti heima í heimsmetabók Guinness og megnið af henni væri á yfirborðinu. Geislavirkur vökvi hefði verið settur í vatn eitt. Þegar það fylltist var búið til nýtt vatn og þannig koll af kolli. Stífla úr leir og grjóti heldur síðasta vatninu, sem var búið til, að sögn hans: "Hinum megin við stífluna er stór dalur og handan hans áin Ob. Bresti stíflan mun geislavirka vatnið fara í fljótið og renna til sjávar."

Niðurlæging sjóhersins

Miklar breytingar hafa orðið í rússneska sjóhernum frá því að Sovétríkin hrundu. Árið 1989 hafði sjóherinn 196 kjarnorkukafbáta í umferð og höfðu þeir aldrei verið fleiri, en samkvæmt upplýsingum Bellona eru þeir nú aðeins 109. Þar af eru að mati samtakanna 67 á vegum Norðurflotans, sem hefur höfuðstöðvar á Kólaskaga. Aðrar heimildir benda til þess að 84 kjarnorkukafbátar séu enn í siglingum á vegum Norðurflotans, en í skýrslu Bellona um stöðu hans segir að munurinn sé sprottinn af því að nokkrum kafbátum hafi verið lagt án þess að hafa formlega verið teknir úr umferð. Talið er að Norðurflotinn og Kyrrahafsflotinn muni ekki hafa nema 80 kafbáta samanlagt árið 2003.

Í skýrslu Bellona, sem hefur vakið deilur og verið gerð upptæk í Rússlandi auk þess sem einn höfundanna, Alexander Níkítín, hefur verið handtekinn fyrir njósnir, segir að slæmt efnahagsástand í Rússlandi hafi meðal annars haft í för með sér að Norðurflotinn geti ekki séð um viðgerðir og viðhald á kafbátum í umferð. Segir enn fremur að stjórn Norðurflotans hafi komist að þeirri niðurstöðu að flotinn geti ekki gegnt hernaðarhlutverki sínu vegna skorts á viðhaldi kjarnorkukafbátanna og annarra kjarnorkuknúinna fleyja.

Fjárskortur Norðurflotans

"Árið 1994 voru aðeins 35% þess fjár, sem ætlað var Norðurflotanum, veitt til hans," segir í skýrslu Bellona, sem nefnist "Rússneski Norðurflotinn, rætur geislavirkni".

Segir að herinn hafi ekki getað greitt laun og margoft hafi yfirmenn neitað að fara í eftirlitsferðir. Oft hafi yfirmenn verið sóttir til nálægra herstöðva, en einnig hafi komið fyrir að kafbátar hafi verið sendir af stað án þess að vera fullmannaðir.

Norðurflotinn skuldar skipasmíðastöðvum háar upphæðir. Rafmagnsreikningarnir hlaðast einnig upp. Í september í fyrra lokaði rafveitan á Kólaskaga, Kolenerga, í tvígang fyrir rafmagnið til Norðurflotans vegna skulda að andvirði 4,5 milljóna Bandaríkjadollara (um 297 milljóna íslenskra króna). Í fyrra skiptið var opnað fyrir rafmagnið að nýju eftir 40 mínútur þegar vopnaðir hermenn voru sendir í rafveituna. Í annað skiptið áttu vararafstöðvar að fara í gang í herstöðinni til að knýja kælikerfi fyrir kjarnakljúfa kafbáta í höfn, en hún brást. Hefðu kjarnakljúfarnir ofhitnað hefði voðinn verið vís, en því tókst að afstýra.

Það er reyndar ekki aðeins Norðurflotinn, sem skuldar. Kolenerga er meðal skuldseigustu viðskiptavina kjarnorkuversins Poljarní Zorí, sem er skammt frá Múrmansk. Starfsmenn kjarnorkuversins hafa ekki fengið greidd laun í fimm mánuði og búast má við að brátt sjóði upp úr, þótt lögum samkvæmt megi þeir sem vinna í kjarnorkuverum ekki fara í verkfall. Kjarnorkuverið fullnægir 60% af orkuþörf svæðisins. Það er talið eitt það hættulegasta í heimi, að sögn dagblaðsins The Washington Post.

Aflóga kjarnorkukafbátar

Í allt hafa rúmlega 130 kjarnorkukafbátar verið teknir úr umferð. 88 eru úr Norðurflotanum. Kjarnorkueldsneytið er enn í 52 kafbátum. Kjarnakljúfarnir hafa verið teknir úr skrokkum 15 báta og búnir undir geymslu. Í skýrslu Bellona segir að kafbátarnir séu teknir úr umferð af þremur ástæðum. Þeir séu í fyrsta lagi of gamlir (eldri en 25 ára) og um borð í sumum hafi orðið slys. Í öðru lagi séu fjárframlög til varnarmála sýnu minni nú en á tímum Sovétríkjanna, þannig að ekki sé hægt að reka jafn stóran flota og var á vegum sovéska flotans. Í þriðja lagi kveði alþjóðlegir afvopnunarsáttmálar á um að fækka þurfi kjarnaoddum í hafi og því verði að fækka kafbátum.

Víða hefur kafbátum verið lagt við slæman aðbúnað í flotastöðvum. Bellona hefur eftir Oleg Jerofejev, yfirmanni Norðurflotans að öryggi minnki stöðugt í þessum stöðvum og mikil hætta sé á að geislavirkni losni úr læðingi vegna þess að kafbátarnir gætu sokkið. Hann telji helsta vandann vera þann að ekki séu til viðunandi geymslur fyrir kjarnakljúfana.

Slæmar aðstæður hafa leitt til þess að gripið hefur verið til bráðabirgðaaðgerða. Dæmi eru til þess að reynt hafi verið að halda kafbátum á floti með því að dæla í þá lofti úr loftþjöppu, innsigla lokur á botni þeirra og draga þá á land af og til. Þá hefur verið notað efni til að innsigla kjarnakljúfana til að koma í veg fyrir að geislavirkni berist út. Þessar aðgerðir draga úr hættunni á því að keðjuverkun leiði til kjarnorkuslyss sökkvi bátarnir með þeim afleiðingum að sjór fari í kjarnaeldsneytið.

Afvopnunarsáttmálar kveða á um að fjarlægja verði hólfin fyrir kjarnorkuvopn úr kafbátunum. Þegar það hefur verið gert er kafbátnum lokað á ný með logsuðu. Því næst þarf að losa eldsneytið úr kjarnakljúfnum. Það er ekki fyrr en að því loknu, sem kjarnakljúfarnir eru fjarlægðir. Sá hluti kafbátsins, sem kljúfarnir eru geymdir í, er tekinn brott í heilu lagi. Flotholt eru fest við hlutann og hann fylltur með efni, sem á að halda honum á floti.

Ekki er vitað hvað á að gera við kjarnakljúfana. Í Araflóa á Kólaskaga eru nokkur 400 metra löng göng, sem upprunalega voru ætluð til að fela og vernda kjarnorkukafbáta með langdrægum kjarnaflaugum. Nú hallast menn helst að því að draga hólfin með kjarnakljúfunum inn í einhver þessara ganga og loka þeim. Skilyrði fyrir því að það gangi upp er að takist að þurrka göngin.

Einnig hefur verið lagt til að geyma kjarnakljúfana í gömlum námum í Nikel. Sú lausn krefðist þess að lögð yrði járnbraut frá ströndinni að námunum.

Síðasti kosturinn er að draga kjarnakljúfana að eyjunni Novaja Semlja, sem Sovétmenn notuðu til að gera kjarnorkutilraunir. Stungið hefur verið upp á að sprengdir verði tveggja til þriggja km langir skurðir inn frá ströndinni og kjarnakljúfarnir dregnir eftir þeim. Þegar skurðirnir hefðu verið fylltir af kjarnakljúfum yrðu smíðaðar stíflur og vatni dælt úr þeim. Yfir þetta yrði mokað sandi og grjóti. Rússnesk yfirvöld eru þeirrar hyggju að engin geislavirkni muni sleppa út vegna þess að þarna er frost allan ársins hring.

Fljótandi dauðagildra

Sama tillaga hefur verið sett fram um skipið Lepse, sem borgaralegi kjarnorkuflotinn notaði til þess að sækja geislavirkan úrgang og notað eldsneyti í þrjá kjarnorkuknúna ísbrjóta, Lenín, Artíka og Síbír. Kjarnorkuflotinn eða Atomflot rekur nú átta kjarnorkuknúin fley, sjö ísbrjóta og eitt flutningaskip. Skipið Lepse var einnig notað til að flytja fljótandi geislavirkan úrgang að Novaja Semlja og varpa í hafið.

Um borð í Lepse eru 645 eldsneytisstangir úr kjarnakljúfum. Helmingur þeirra var settur um borð þegar slys varð um borð í ísbrjótnum Lenín árið 1966. Um 500 stangir eru ónýtar. Þær þöndust út vegna ónógrar kælingar þannig að ekki var hægt að koma þeim fyrir í tilætluðum hólfum. Var þá gripið til þess bragðs að berja þær niður í hólfin með sleggjum með þeim afleiðingum að þær brotnuðu og urðu hættulegri en áður. Það verður erfitt að ná stöngunum út, ef ekki útilokað. Rússneskir sérfræðingar telja að eigi að ná stöngunum muni þurfa ekki færri en fimm þúsund verkamenn, sem muni fá mestu leyfilega geislun.

Lepse er í slæmu ásigkomulagi og er efast um að skipið þoli að verða dregið alla leiðina til Novaja Semlja. Það var nýlega fært til í höfn Kjarnorkuflotans og þótti ýmsum að þar hefði verið tekin full mikil áhætta. Í Washington Post var gengið svo langt að segja að ekki mætti snerta skipsskrokk Lepse næstu 200 þúsund árin vegna geislavirkni. Sökkvi Lepse eða velti á hliðina gæti orðið keðjuverkun í notaða eldsneytinu, sem mundi leiða til sprengingar og leysa mikla geislavirkni úr læðingi.

"Þá fer sjórinn að krauma og 460 þúsund íbúar Múrmansk verða fluttir brott allir með tölu," sagði Gunnar Sætrø, blaðamaður á norska blaðinu Nordlys, sem búið hefur í Múrmansk.

Ekkert stórslys hefur orðið á Kólaskaga. En hætturnar leynast víða og eftir því sem lengur er látið reka á reiðanum aukast líkurnar á að eitthvað fari úrskeiðis.

Í VEGARKANTI stendur geymsla fyrir geislavirkan úrgang.

Morgunblaðið/Karl Blöndal

NIKKELVERKSMIÐJURNAR á Kólaskaga spúa eitri dag og nótt. Myndin er tekin í niðamyrkri seint um kvöld.

VALERÍ Mensjikov.

KJARNAKLJÚFUR í ísbrjótnum Síbír. Kjarnorkueldsneytið hefur verið fjarlægt.

INNGANGURINN að höfuðstöðvum rússnesku leyniþjónustunnar FSB, arftaka KGB í Múrmansk, sem handtók Alexander Níkítín fyrir njósnir. Yfir dyrunum má enn sjá hamar og sigð.

ÓNÝTUR kafbátur liggur í skipakirkjugarðinum í Múrmansk.

LEPSE liggur við bryggju í höfn Atomflot. Á skiltinu er varað við geislavirkni. Sökkvi Lepse er spáð stórslysi.

ALEXANDER Níkítín.

HÁSKI

Á KÓLASKAGA

Þessi er á forsíðu

Morgunblaðið/Karl Blöndal

SKIPAKIRKJUGARÐURINN nefnist þessi staður í Múrmansk. Í fjöruborðinu eru skipsskrokkar í hálfu kafi. Útigangsmaður hefur kveikt eld í fjörunni og horfir út á Múrmanskflóa.