Mannlífs stiklur Út er komin hjá Fróða bókin Mannlífsstiklur eftir Ómar Ragnarsson fréttamann. Viðamestu kaflar bókarinnar eru annars vegar um hina svokölluðu "gulldrengi", íþróttamenn sem voru þjóðhetjur á sínum tíma.

Mannlífs stiklur Út er komin hjá Fróða bókin Mannlífsstiklur eftir Ómar Ragnarsson fréttamann. Viðamestu kaflar bókarinnar eru annars vegar um hina svokölluðu "gulldrengi", íþróttamenn sem voru þjóðhetjur á sínum tíma. Ómar fjallar þó ekki mikið um íþróttaafrek þeirra, heldur mennina sjálfa, lífsþrótt þeirra og ótrúleg uppátæki og hins vegar um "spámanninn á fjallinu," þar sem Ómar fjallar um hjónin Óskar Magnússon og Blómeyju Stefánsdóttur sem reistu hús uppi á Hellisheiði og bjuggu þar um árabil.

mar segir frá því er hann kynntist Óskari sem þá var að fara sína síðustu ferð upp á "fjallið." Óskar lést 1993 en Blómey býr nú á dvalarheimili aldraðra, Hrafnistu. Fer hér á eftir stuttur kafli úr bókinni þar sem Blómey segir frá:

"Ég skildi hann aldrei," segir Blómey Stefánsdóttir, þessi grannvaxna og netta kona þar sem hún situr í herbergi sínu og segir mér frá manni sínum sem hún missti í janúar 1993 eftir 54ra ára sambúð. Á borðinu við hlið hennar liggja nokkur myndaalbúm og skáldsögur en hún bendir mér sérstaklega á hausthefti Skírnis 1995 þar sem mynd af verki eftir Óskar heitinn prýðir forsíðuna en í heftinu er grein eftir Ólaf J. Engilbertsson um myndlistarmann Skírnis undir heitinu: "Leitin að paradís."

Blómey er orðin 82ja ára gömul og hefur reynt margt um dagana.

Í níu löng ár bjó hún á fjallinu með manni sínum við ótrúlegan kost.

Það hefur áreiðanlega reynt á þolrifin í öllum skilningi.

Hún virðist rósemdarkona og er mjög alúðleg í viðkynningu, í fullkomnu jafnvægi, jarðbundin, raunsæ og óvenjulega hreinskilin.

Þegar ég segi henni frá kynnum mínum af Óskari kannast hún vel við það að hann hafi sagt henni frá því að hann hafi hitt mig þegar hann kom í bæinn um kvöldið. Mér finnst í fyrstu merkilegt að hún skuli muna það eftir svo mörg ár en þegar hún segir mér nánar frá þessum degi er ekki að undra þótt hún muni þetta eins og það hafi gerst daginn áður.

"Þetta var örlagadagur," segir hún. "Honum fannst hann endilega þurfa að fara þessa ferð þótt veðrið væri ekki gott. Það þýddi yfirleitt ekki að malda í móinn þegar honum datt slíkt í hug og þótt ég sæi að hann væri mjög illa fyrirkallaður og ætti því ekkert erindi upp á heiði, veiklulegur maður að nálgast áttrætt, sat hann fast við sinn keip og fór samt. Þegar hann kom loks heim um kvöldið, seint og um síðir, var hann alveg örmagna. Ég sá strax að það var eitthvað mikið að. Hann var fársjúkur og morguninn eftir fór hann í læknisskoðun sem leiddi í ljós að hann var haldinn ólæknandi krabbameini á háu stigi. Þetta var upphaf dauðastríðs hans og banalegu og í síðasta sinn sem hann sá bæinn okkar. Hann dó tveimur mánuðum síðar."

Hún þagnar og við sitjum nokkur augnablik þegjandi, því þetta snertir mig djúpt. Mér verður ljóst að stund okkar á fjallinu hafði verið svanasöngur hans og að við hefðum hvort eð er aldrei getað gert neinn sjónvarpsþátt saman. Nú átta ég mig á því hvers vegna mér hafði á stundum sýnst hann eins og vofa með þennan kuldalega náfölva í andlitinu. Það var eins og einhver ósýnileg og máttug hönd hefði stýrt þessu öllu á þennan veg. Engan þurfti að undra að þessi síðasti dagur í venjulegu lífi þeirra Blómeyjar og manns hennar væri henni enn í fersku minni og undarleg tilviljun að leiðir okkar Óskars skyldu liggja saman einmitt þennan dag. Þessi dagur var nokkuð sem ég hefði alls ekki viljað missa af að upplifa.

Ég bendi Blómeyju á fyrirsögn Skírnisgreinarinnar um Óskar. "Leitin að paradís."

"Já," svarar hún. "Honum var hið einfalda og fullkomna alltaf hugstætt."

"Var bærinn á fjallinu paradísin sem hann leitaði að?" spyr ég.

"Ég skildi hann aldrei," endurtekur hún. "Leit að paradís er fyrirfram dauðadæmd hér á jörðinni. Það er engin paradís til. Ég skildi aldrei hvers vegna hann þráði þetta svona mikið og var að reyna þetta. En svona var þetta nú samt."

"Sloppurinn hans og húfan héngu enn á snaganum eins og hann hefði verið þarna í gær," sagði ég. "Á ég að koma með þetta til þín þegar ég hitti þig næst?"

Svipur hennar verður alvarlegur og dapurlegur. "Nei," svarar hún, fljótmælt og ákveðin. "Ég vil ekkert vita af neinu frá þessum stað og aldrei koma þangað aftur."

"Það hefur verið erfitt að búa þarna," segi ég.

"Já, það var ömurlegt, öll þessi ár," svarar hún.

Þessi lífsreynda kona er að hefja grípandi, fáorða og hreinskilna frásögn af einstöku ævihlaupi sínu. Hún svarar spurningum með meitluðum setningum, vafningalaust. Oft brosir hún þegar hún svarar, ýmist góðlátlega eða kaldhæðnislega. Aðeins einu sinni í frásögninni viknar hún, þegar talið berst að einkabarni hennar og Óskars, syni þeirra, sem þau misstu með sviplegum hætti.

Við skiptumst á fáorðum spurningum og svörum um undarleg örlög og oft óskiljanleg:

"Ég er af skaftfellskum ættum en ég fæddist og ólst upp á Austfjörðum. Firðirnir eru lokaðir og mér fannst þröngt í þeim. Ég þráði víðáttuna, frelsið, að geta flakkað um. Strax og ég var oðin sextán ára hleypti ég heimdraganum og leiðin lá næstu árin um Austurland. Ég hafði yndi af því að flakka, hef alltaf verið flökkukind í eðli mínu.

Best leið mér meðan ég var á Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Það er svo fallegt þar. Bærinn er sá syðsti í byggðinni, efst uppi í dalnum, næstur öræfunum og heiðarlöndunum.

Þar blasa endalaus, ósnortin víðerni við með jöklasýn í fjarska en heiðum, vötnum og hreindýrahjörðum nær. Hreindýrin eru tignarleg og falleg dýr. Það er varla hægt að hugsa sér neitt fallegra en hreindýr sem stendur uppi á hæð með Snæfell í baksýn og reisir myndarleg horn sín mót himni. Það er tákn máttar og dýrðar og slík sýn efldi í mér þrána eftir hinu fullkomna, ótakmarkaða frelsi.

Einu sinni sátum við saman, ég og vinkonur mínar, og ræddum um framtíðina. Ég sagði: "Mig dreymir um að verða piparmey, ein á eyju, fjarri öllum karlmönnum." Þær tóku undir þetta. Okkur fannst karlmenn vera upp til hópa stórbokkar, frekjuhundar og drullusokkar.

Það var ekkert jafnrétti til í landinu; misrétti og ofríki karlmanna blasti alls staðar við. Þeir réðu öllu og áttu allt. Við hétum því að breyta þessu, ráða okkur sjálfar og láta ekki kúga okkur. Ég var alveg ákveðin: Draumur minn var að verða ein og frjáls, engum háð, úti á eyju."

Þetta er einkennileg orðræða konu spámannsins sem fylgdi honum upp á heiði og þraukaði þar með honum í níu erfið ár til þess að hann gæti uppfyllt draum sinn.

"Hvernig fór?" "

"Við giftumst allar, hver og ein einasta. Mín örlög réðust á dansleik á Kópaskeri. Þá var ég í vinnu á Raufarhöfn og fór á þennan dansleik sem átti eftir að verða svo afdrifaríkur. Það voru margir fallegir strákar á Kópaskeri en ungur maður, sem sagðist heita Óskar Magnússon, fór að dansa við mig. Hann virtist verða mjög hrifinn af mér og gekk beint að efninu og spurði: "Viltu koma með mér og verða stúlkan mín?"

"Nei," sagði ég.

"Jú," sagði hann.

Hún segir þetta blátt áfram og næstum svipbrigðalaus þótt ekki sé laust við kaldhæðnislegt bros þegar hún rifjar þetta upp. Þessi lýsing hennar er eins og í Íslendingasögunum, "Ung var ég gefin Njáli. . ." og allt það. Í örfáum orðum dregur Blómey Stefánsdóttir saman aðalatriði lífshlaups síns: "Nei," sagði ég. "Jú," sagði hann."

"Ég veit að margir kynntust skapofsa hans," segi ég við hana þegar hún lýsir þessari afdrifaríku innkomu Óskars í líf sitt og ég bæti því við að ég hafi, uppi á fjalli, kynnst fleiri hliðum hans, viðkvæmni og mikilli hlýju; ég hafi hrifist af margbreytilegri persónu hans og þó einkum hlýjunni sem leyndist undir kaldri skel.

"Varst þú ekki hrifin af þessari hlið hans?"

Svarið er stuttort, hreinskilið og næstum ótrúlegt:

"Ég var aldrei hrifin af þessum manni. Aldrei."

Hún segir þetta eins og hún hafi þar með afgreitt með hvaða hætti 54ra ára samband þeirra var og þurfi ekki að orða það frekar. Síðan heldur hún áfram sögu sinni:

"Ég sá öll tormerki á að ég gæti gifst Óskari. Við vorum gerólík og ég var ekkert hrifin af honum. Ég átti þá barn með öðrum manni og gat ekki séð hvernig samband okkar gæti blessast.

Samt fór ég með honum. Hann var óskaplega afbrýðisamur og hræddur um mig, óttaðist alltaf að ég væri á karlafari. Strax á ballinu á Kópaskeri var hann altekinn af þessum ótta. Það voru líka mjög sætir og myndarlegir strákar þar, satt er það. Hann fór með mig til Reykjavíkur og við bjuggum um tíma hjá föður hans. Hann vildi mennta sig eftir fremsta megni og lauk búfræðinámi frá Bændaskólanum á Hvanneyri. Vafalaust hefði hann viljað mennta sig meira eða eignast jörð en hvorugt var hægt. Það var kreppa og maður mátti þakka fyrir að skrimta.

Við giftum okkur í Dómkirkjunni. Það var ekki venjulegt brúðkaup.

Við vissum að sambúð okkar yrði mjög sérstök og ákváðum að gera þetta í kyrrþey og ein. Við stóðum þar fyrir altari tvö ein með séra Bjarna og konunni hans. Þar voru engir aðrir. Mér fannst það samt ekki síður eftirminnileg athöfn en þótt það hefði verið margmenni viðstatt.

Við sögðum bæði "já" í það skiptið og þegar ég játaðist honum út yfir gröf og dauða vissi ég að þannig yrði það af minni hálfu og yrði aldrei aftur tekið. Og þannig var það. Það var dauðinn sem aðskildi okkur."

Hún er skammt komin í frásögn sinni og maður skilur hvorki upp né niður. Hvað um allt frelsið sem hana dreymdi um, eyðieyjuna og allt það? En hún heldur áfram:

"Svo kom stríðið og Óskar fór í Bretavinnuna. En einmitt þegar það virtist ætla að skána fjárhagslega hjá okkur varð ég heltekin af berklum. Ég var á Vífilsstöðum í tvö ár og fjölskyldulífið rofnaði; ég varð að láta barnið mitt frá mér og berjast ein fyrir lífi mínu. Síðan var ég á Kristneshæli. Þar var ég hoggin."

Fá og einföld orð um mikla baráttu og fórnir Blómeyjar þessi erfiðu ár þegar hún mátti þakka fyrir að komast lífs af í glímunni við "hvíta dauðann".

Að vera "hoggin" var stór brjóstholsaðgerð og þetta lýsingarorð er jafn miskunnarlaust og aðgerðin. Áfram heldur Blómey:

"Ég jafnaði mig furðu fljótt en var þó alla tíð upp frá því máttlítil í hægri öxl og hendi. Þegar ég kom suður hafði Óskar reist sér kofa inni í Blesugróf og bjó þar. Ég hefði aldrei tekið í mál að vera með honum í að reisa þennan kofa ef ég hefði verið hjá honum allan tímann.

En ég stóð frammi fyrir gerðum hlut og nýkomin af hæli var ég ekki í neinni aðstöðu til að breyta þessu. Mér fannst kofinn ömurlegur alla tíð, sama hve miklu hann bætti við hann og breytti honum uns hann var orðinn að stærðar húsi. Honum fannst hann stórkostlegur. Honum fannst alltaf allt svo stórkostlegt sem HANN gerði."

Hún leggur áherslu á síðustu orðin rétt eins og hún sé nú að afgreiða endanlega í einni setningu viðhorf þeirra tveggja til flestra, ef ekki allra; þeirra hluta sem hann gerði. Einkennilegt hefur það verið, samband þessara tveggja ólíku póla, sem þau hjón hafa verið í hinni löngu sambúð sinni, ef marka má frásögn hennar. Eftir því sem líður á frásögn hennar verður samband þeirra æ sérstæðara í augum þess sem á hlustar.

"Við eignuðumst einn son," segir hún. "Árin liðu og þótt líf okkar og aðstæður væru nokkuð sérstæðar vorum við þó þrátt fyrir allt fjölskylda í Reykjavík. Það er svo sem ekkert í frásögur færandi.

Af því að Óskar var lærður búfræðingur hafði hann mikinn áhuga á því að hafa skepnur. Í Blesugrófinni höfðum við endur, hænsn, hunda, ketti og meira að segja kalkúna."

Í þessari látlausu frásögn finnst Blómeyju greinilega að búskapur þeirra í Blesugróf hafi ekki verið neitt sem þótti óvenjulegt á þeim tíma, enda hafði Reykjavík þá enn ekki breyst úr bæ í borg. Það var víða í bæjarlandinu sem eimdi eftir af sveitasamfélaginu og Óskar var ekki eini hafnarverkamaðurinn sem fékkst við búskap í smáum stíl.

Þórarinn á Melnum bjó með skepnur við Ásvallagötu fram á miðja öldina og Blesugrófin var hálfgert sveitaþorp. Talið berst varfærnislega að einkasyni þeirra hjóna sem þau misstu á besta aldri. Það er ævinlega erfitt að ræða um slíka hluti og hún, sem hefur hingað til getað talað hispurslaust og næsta glaðlega um hin viðkvæmustu mál, viknar skyndilega þegar talið berst að þessu og bindur í raun enda á alla umræðu um það með því að segja stuttlega:

"Það var mjög sárt og óvænt. Allt í einu var hann dáinn. Hann var hrifinn frá okkur á einu augabragði."

Orð hennar nísta eins og eggjárn. Enn er mikil harmsaga afgreidd í fáum orðum og sem þungt ský leggist yfir andlit þessarar lífsreyndu konu.

Með því að víkja talinu á ný að öðru umræðuefni birtir á ný yfir henni. Þegar spurt er um það hvernig hún sjálf hafi haft betur í baráttu við illvígan sjúkdóm og aðrar þrautir, sem lífið hefur gert henni að leysa, færist líf og ljómi í andlit hennar og hún svarar:

"Ég lét aldrei neitt hagga mér, aldrei neitt á mig fá. Þess vegna er ég enn lifandi og orðin þetta gömul."

Við höldum áfram að tala um lífið í Blesugrófinni. Ég segi henni frá ýmsum sögum sem nágrannar hafa sagt af Óskari. Þeim eru minnisstæð atvik í ætt við eldmessuna í Litlu kaffistofunni þegar skapið hljóp í hann og hann snöggreiddist.

"Já," segir Blómey. "Hann var svona. Sumir eru skapaðir með þessum ósköpum og geta ekkert að því gert. Þegar hann snöggreiddist var honum ekki sjálfrátt. Svo tók hann það alveg óskaplega nærri sér þegar okkur var skipað að fara úr húsinu í Blesugrófinni vegna þess að það þyrfti að gera braut upp í Breiðholt.

Það var alveg sama þótt þeir byðu honum gull og græna skóga.

Þeir buðu okkur íbúð í blokk en hann hafnaði því. Þá voru viðbrögð okkar Óskars ekki samhljóma frekar en fyrri daginn, nema hvað ósamræmið var öfugt við það sem hafði verið á dansleiknum á Kópaskeri, því ég sagði: "Jú," en hann sagði: "Nei." Eftir að hafa margstækkað og breytt húsinu á þeim þrjátíu árum sem við bjuggum þar, fannst honum þetta orðið eitthvert snilldarverk, bara af því að HANN hafði smíðað það.

Í húsinu var allt hans líf, veflistarverkin og hvaðeina. Eftir að við misstum einkason okkar var þetta hús, sem hann hafði reist með berum höndum og það sem í því var, eina sköpunarverk hans sem hann átti eftir, það eina sem honum fannst hann hafa lagt af mörkum hér á jörðinni. Það var eina barnið sem hann átti eftir og var sem hold af hans holdi."

Stuttorð frásögn Blómeyjar varpar nýju ljósi á aðstæður búfræðingsins með háu hugsjónirnar. Á fundi okkar uppi á fjallinu fyrir fjórum árum virkaði lýsing hans á brottvikningu hans úr Blesugrófinni sem hreinar ýkjur og ofsóknarbrjálæði.

En nú blasti við að dramatísk frásögn hans hafði verið rétt í minningunni og fullkomlega eðlileg út frá hans sjónarhóli.

Að taka af honum húsið og jafna það við jörðu var eins og að taka af honum einkabarn og deyða það. Þá fannst honum hann ekkert eiga eftir af því sem hann hafði skapað og eignast.

Talið berst nánar að myndvefnaði þeirra.

"Ég átti víst upptökin að því að hann byrjaði að vefa fyrir alvöru," segir hún.

"Við höfðum haft vefstól og gert nokkur teppi og þegar Hildur Hákonardóttir sá þau vildi hún endilega að ég kæmi til sín á námskeið.

Þegar ég minntist á það við Óskar harðbannaði hann mér það. Hann var alltaf svo hræddur um mig og afbrýðisamur.

Á endanum féllst hann þó á að fara með mér, rétt eins og hann þyrfti að passa mig. Þegar hann hafði fylgst með mér í nokkurn tíma, fór hann að fikta við að gera svipað, fyrst í smáum stíl og af forvitni en síðan af vaxandi áhuga uns þessi listgrein átti hug hans allan."

Blómey bendir mér aftur á tímaritshefti Skírnis sem er á borðinu hjá henni. Hún virðist ýmist tala kuldalega um sérvitringinn, sem hún bjó með í 54 ár, eða sýna verkum hans skilning og vera áhugasöm um að ég kynnist öllu því sem best sem honum viðkom. Hún tekur fram albúm á borðið og flettir því. Þar má sjá myndir af þeim hjónum og þar er meðal annars úrklippa úr blaði, úr minningargrein um Óskar þar sem þess er getið að hann hafi ekki verið allra en hafi hins vegar verið þeim góður og reynst þeim vel sem hann blandaði geði við.

Hún bendir mér á greinina. Ég les umsögnina og segi við hana:

"Hann hefur átt góðar hliðar. Þegar við hittumst fann ég að það sló heitt hjarta undir þessari hrjúfu skel. Sástu ekki eitthvað slík við hann þegar þið kynntust?"

Aftur svarar hún neitandi og ítrekar: "Ég var aldrei hrifin af honum." Einfalt og endanlegt svar um upphaf meira en hálfrar aldar sambúðar sem á sér vart sinn líka á okkar dögum."

Bókarheiti Mannlífsstiklur, 224 bls. Höfundur er Ómar Ragnarsson. Útgefandi er Fróði. Leiðbeinandi verð 3490 kr.

Blómey Stefánsdóttir.

Húsið í Blesugrófinni.

Í húsinu á "Fjallinu". Óskar Magnússon og Blómey Stefánsdóttir. Á veggjum má sjá listaverk þeirra, m.a. mynd af Stalín sem var í miklu uppáhaldi hjá Óskari.