Skiptar skoðanir á stjórnarfrumvarpi um samningsveð Veðsetning kvóta útilokuð eða heimiluð í reynd? Talsmenn lánastofnana segja komið til móts við sjónarmið þeirra í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um samningsveð.

Skiptar skoðanir á stjórnarfrumvarpi um samningsveð Veðsetning kvóta útilokuð eða heimiluð í reynd? Talsmenn lánastofnana segja komið til móts við sjónarmið þeirra í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um samningsveð. Þorgeir Örlygsson, lagaprófessor og höfundur frumvarpsins, segir að ekki sé með óbeinum hætti verið að heimila veðsetningu aflaheimilda. Sigurður Líndal lagaprófessor telur hins vegar að með frumvarpinu sé verið að heimila veðsetningu á aflaheimildum með skipum en ekki einar og sér. Þingmenn úr stjórnarandstöðu gagnrýna frumvarpið.

ALSMENN lánastofnana telja að með ákvæði frumvarps ríkisstjórnarinnar um samningsveð, þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að veðsetja nýtingarréttindi í atvinnurekstri sem stjórnvöld úthluta, t.d. aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar, og að óheimilt sé að skilja réttindin frá veðsettu fjárverðmæti nema með þinglýstu samþykki veðhafa, sé fyllilega komið til móts við þau sjónarmið sem lánastofnanir hafa haft uppi hvað þetta varðar.

Björn Björnsson, framkvæmdastjóri Íslandsbanka, sagði í samtali við Morgunblaðið að samkvæmt ákvæði frumvarpsins sé ljóst að þegar um aflaheimildir sé að ræða verði ekki skilið á milli þeirra réttinda og fiskiskips og á það hafi bankarnir lagt áherslu.

"Þetta hindrar hins vegar ekki að menn á síðari stigum kunni að gera einhverjar breytingar á kerfinu. Ég held að það sé mjög skýrt að það er ekki verið að heimila veðsetningu á kvóta og það er sagt beinum orðum, en það er hins vegar verið að tryggja það að útgerðir flytji ekki aflaheimildir að veðhöfum forspurðum af fiskiskipum," sagði Björn.

Hann sagði að hvað þetta varðar hefðu bankarnir aðlagað sig þeim staðreyndum sem fyrir hefðu legið á hverjum tíma, en ef frumvarpið yrði að lögum myndi það einfalda ýmislegt varðandi lánveitingar.

"Menn hafa skuldbundið eigendur og fyrirtæki til þess að flytja ekki aflaheimildir án samþykkis, en slík yfirlýsing hefur auðvitað allt aðra réttarstöðu en ákvæði af þessu tagi í lögum," sagði hann.

"Styrkir stöðu lánveitenda"

Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sagði að í þeim tilvikum sem komið hefðu upp hjá SPRON hefði verið litið svo á að ekki væri hægt að telja aflaheimildir veðhæfar og ekki hefðu verið veitt lán með tilliti til þeirra verðmæta.

"Við teljum að það sé nokkuð ljóst að því fyrirkomulagi kunni að verða breytt á einhverju stigi, og þess vegna væri ákaflega óvarlegt að veita lán sem byggir á slíkum veðsetningum," sagði Guðmundur.

"Ég held að frumvarpið staðfesti það sjónarmið að menn geti ekki litið til þessara verðmæta sem veðandlags. Vissulega styrkir þetta frumvarp, ef að lögum verður, stöðu lánveitenda, en það sem skiptir höfuðmáli þegar menn eru að lána er að fá lánið endurgreitt og það á réttum tíma. Þá er þetta til þess fallið að tryggja það að verðmætin, sem er sú eign sem lánað er út á, skili þeim tekjum sem menn eru að stefna að. Þannig að þetta styrkir stöðu þeirra aðila sem á annað borð lána til þessara fyrirtækja með veði í skipum eða jörðum."

"Verið að heimila dulbúna veðsetningu kvóta"

Stefán Pálsson, bankastjóri Búnaðarbankans, sagðist geta verið sammála þeirri túlkun að óheimilt sé að veðsetja aflaheimildir eða búmark eitt og sér, og að þinglýsta heimild veðhafa þurfi til að flytja þessi réttindi frá hinni veðsettu eign.

"Til dæmis varðandi bújarðir höfum við lögfræðiálit um að það sé tekið veð í jörðum með gögnum og gæðum og þar með talið framleiðslurétti. Það segir ekkert um að það sé ekki hægt að flytja það, en það er ekki hægt að flytja það nema með leyfi veðhafa. Þetta á líka við um báta og skip, og ef þetta er það sem þingið er að afgreiða núna þá get ég verið sammála þessari málsmeðferð," sagði Stefán.

Hann sagði að samkvæmt frumvarpinu um samningsveð væri hins vegar verið að heimila á dulbúinn hátt veðsetningu á kvóta, en það væri reyndar það sem þegar hefði verið gert.

"Það hefur alla tíð verið tilhneiging til þess að reyna að halda kvótanum utan við veðsetningu og verðmæti innan fiskveiðigeirans, en síðan þetta varð að verðmætum er þetta auðvitað metið inn. Það er erfitt að segja að þetta sé alþjóðareign og síðan verði það eign einstaklinga. Staðreyndin er að þetta er eign einstaklinga, og það er fjöldi manns sem gerir ekki neitt og á bát og leigir kvótann og lifir í vellystingum."

Brynjólfur Helgason, aðstoðarbankastjóri Landsbankans, sagði að frumvarpið um samningsveð væri nú til athugunar hjá lögfræðingum bankans og á meðan þeirri athugun væri ekki lokið vildi bankinn ekki tjá sig um frumvarpið.

"Ekki verið að fara neinar bakdyraleiðir"

Þorgeir Örlygsson, prófessor í eigna- og veðrétti og höfundur frumvarpsins um samningsveð, segir að með frumvarpinu sé ekki með neinum óbeinum hætti verið að heimila veðsetningu aflaheimilda fiskiskipa. Þorgeir segir að með ákvæðinu um að óheimilt sé að veðsetja nýtingarréttindi í atvinnurekstri sem stjórnvöld úthluta sé fyrst og fremst verið að tryggja að réttindi séu á þeirri eign sem þau eru úthlutuð og skráð á, og hins vegar að það þurfi samþykki þeirra veðhafa sem eiga veðrétt í viðkomandi eign ef það eigi að skilja þetta frá. "Ég lít svo á að það sé alls ekkert verið að fara neinar bakdyraleiðir þarna," segir hann.

"Það er fyrst og fremst verið að tryggja tvennt. Í fyrsta lagi er verið að tryggja það að réttindin séu ekki veðsett, en jafnframt að þau séu ekki skilin frá því fjárverðmæti sem réttindin eru skráð á. Það leiðir af lögum að aflaheimild á að skrá á skip og hún á þá að nýtast á skipi, og greiðslumark er skráð á bújörð og á þá að nýtast á bújörð, og þá er eingöngu verið að tryggja það að þetta verði ekki skilið frá skipinu eða jörðinni og fjárverðmætin þar með rýrð," sagði Þorgeir.

"Líka verið að veðsetja aflahlutdeild"

Sigurður Líndal lagaprófessor sagðist ekki hafa haft aðstöðu til að rannsaka frumvarpið um samningsveð, en miðað við þann texta sem hann hefði séð sýndist sér að með ofangreindu ákvæði væri verið að lögheimila sérstaklega heimild til að veðsetja aflahlutdeild með skipi, en þá með þeirri takmörkun að ekki mætti veðsetja aflahlutdeildina eina sér.

"Ég held að það geti ekki farið á milli mála að það er verið að veðsetja aflahlutdeildina líka. Mér finnst skrýtið að segja að það sé bannað að veðsetja aflahlutdeildina og síðan segir rétt á eftir að það megi veðsetja fjárverðmætið sem réttindin eru skráð á og þá megi ekki skilja aflahlutdeildina frá. Fyrri málsgreinina sýnist mér að verði að skilja þannig að það einfaldlega megi ekki veðsetja aflahlutdeildina eina og sér. Það má því ekki veðsetja hana eina út af fyrir sig heldur verður að gera það með skipinu. Ég hefði viljað orða þetta einfaldar og mér hefði alveg fundist hægt að gera það," sagði Sigurður.

"Frumvarpið mótsagnakennt"

Frumvarpinu hefur enn ekki verið dreift á Alþingi en nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýna harðlega ákvæði þess, sem greint hefur verið frá.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Alþýðubandalags og óháðra og formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, segir frumvarpið mótsagnakennt. "Annars vegar á að banna að veðsetja veiðiheimildir sjálfstætt og sérstaklega en á hinn bóginn á að fá veðhöfunum lögvarða stöðu svo að þeir geti haft neitunarvald um að veiðiheimildir séu fluttar af skipi sem þeir hafa lánað til. Mér sýnist að þarna sé verið að gera hið ómögulega, bæði að leyfa og banna sama hlutinn í svo gott sem sömu setningunni," segir hann.

"Ég áskil mér rétt til þess að skoða þetta betur og fá jafnvel lögfræðilega ráðgjöf um hvort það hefur í sjálfu sér eitthvað jákvætt gildi að inn í þetta frumvarp um samningsveð, komi texti þar sem tekið er fram að óheimilt sé að veðsetja veiðiheimildirnar einar og sér. Ég ætla ekki að útiloka að óathuguðu máli að það hafi eitthvert gildi samanber sameignarákvæði fyrstu greinar laga um stjórn fiskveiða. En þegar í sömu andrá er svo leyfður sami hlutur í reynd, er einfaldlega komin upp mótsögn á milli lagatextans og framkvæmdarinnar," segir hann.

Steingrímur segir að sér sýnist að frumvarpið tryggi stöðu lánveitenda. "Þannig að í reynd sé sigurinn þeirra, þótt sérstaklega framsóknarmenn séu að reyna að halda því fram að þeir hafi unnið sigur lagalega á pappírnum. Spurningin er hversu mikils virði er hann," segir hann.

Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, segist ekki hafa séð frumvarpið ennþá en segir að ef frumvarpið tryggi að Alþingi geti breytt fiskveiðistefnunni án þess að það skapi skaðabótakröfu þá sé það í lagi. Hann segir að nauðsynlegt sé að fá álit lögfræðinga á ákvæðum frumvarpsins áður en það verður tekið til afgreiðslu á Alþingi og telur útilokað að frumvarpið verði afgreitt fyrir áramót.

"Veðsetning kvóta er heimiluð í reynd"

Í frumvarpinu rekur sig hvað á annars horn, að mati Ágústs Einarssonar, þingmanns í þingflokki jafnaðarmanna. "Það er lagt bann við veðsetningu kvóta en á hinn bóginn eru veittar mjög nákvæmar heimildir um með hvaða hætti lánveitendur eiga að tryggja sig gagnvart því að eiga veð í kvóta. Í reynd er því heimilað að veðsetja kvóta með þessu frumvarpi þó svo að bannað sé að veðsetja kvótann einan sér. Það er því ótvírætt í þessu frumvarpi að veðsetning kvóta er heimil þegar hann fylgir fiskiskipi, og kvóti hefur jú alltaf fylgt fiskiskipi," segir hann.

"Við jafnaðarmenn erum alfarið á móti þessu frumvarpi af sömu grundvallarástæðum og við höfum haldið því fram að menn eigi ekki að veðsetja það sem þeir eiga ekki. Þjóðareign á fiskimiðunum er tryggð samkvæmt lögum en hér er verið að setja fram frumvarp, til að auðvelda lánastofnunum vinnu sína. Þær hafa getað tryggt sig hingað til með frjálsum samningum og eiga að gera það áfram. Það þarf ekki atbeina löggjafans til þess. Þetta er vont frumvarp og gengur í þveröfuga átt við áherslu okkar á þjóðareign fiskimiðanna," segir hann.

Ágúst segir einnig að með lögfestingu frumvarpsins verði ekki annað séð en að varanlegt framsal veiðiheimilda verði mjög erfitt í framkvæmd. "Væntanlega verður aðili að ganga fyrir alla sína veðhafa áður en hann framselur veiðiheimildir varanlega af skipi sínu. Það getur reynst mjög örðugt í framkvæmd ef menn eru með slíka lánssamninga. Ég tel að þetta muni kalla á viðbótarvandræði í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi," segir Ágúst.

"Ég er gáttaður á ríkisstjórnarmeirihlutanum að ætla að heimila veðsetningu með þessum hætti. Að mínu mati er tal framsóknarmanna og annarra um að það sé verið að banna veðsetningu yfirklór og blekkingar. Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja hagsmuni lánveitenda þannig að þeir geti haldið kvótanum sem tryggingu fyrir lánum sínum. Það markmið næst, enda eru lánastofnanir mjög ánægðar," segir Ágúst.

Guðný Guðbjörnsdóttir, þingkona Kvennalista, sagðist ekki geta tjáð sig um efni frumvarpsins fyrr en það verður lagt fram. "Mín afstaða hefur almennt verið sú að ég er andvíg veðsetningu aflaheimilda. Ég tel mjög varhugavert að setja það í lög, bæði vegna þess að það mun tryggja kvótakerfið í sessi og hugsanlega vera lóð á þá vogarskál sem styrkir eignarrétt kvótahafa yfir lögsögunni," segir hún.

Morgunblaðið/Þorkell

ÓHEIMILT er að veðsetja sérstaklega nýtingarréttindi sem stjórnvöld úthluta, samkvæmt frumvarpinu.

Björn

Björnsson

Guðmundur

Hauksson

Stefán

Pálsson

Þorgeir

Örlygsson

Sigurður

Líndal

Steingrímur J.

Sigfússon

Sighvatur

Björgvinsson

Ágúst

Einarsson

Guðný

Guðbjörnsdóttir