Að gefa út dagblað Almenningur skilur ekki, segir Leifur Sveinsson, að það skuli gefa jafnan hlut að binda bát sinn við bryggju og leigja kvótann, eða stunda sjóinn í misjöfnum veðrum.

Að gefa út dagblað Almenningur skilur ekki, segir Leifur Sveinsson, að það skuli gefa jafnan hlut að binda bát sinn við bryggju og leigja kvótann, eða stunda sjóinn í misjöfnum veðrum. I ÉG SEST við skriftir á altani hótelíbúðar okkar hjóna á Barbacan Sol á Ensku ströndinni á Gran Canaria. Það er laugardagurinn 9. nóvember 1996. Fyrir framan mig liggur nýjasta eintakið af The European. Þar er skýrt frá því, að í Grikklandi, þar sem vagga lýðræðisins stóð, séu væntanlegar breytingar á skattalögum. Skattaívilnanir til ólympíustjarna, leikara, poppstjarna, herforingja, þingmanna og blaðamanna verði afnumdar. Til skamms tíma greiddu blaðamenn t.d. skatta aðeins af helmingi launa sinna. Hugmyndin að baki "blaðamannakjara" í skattheimtu var að fá mildari gagnrýni á gerðir viðkomandi ríkisstjórna. Þannig maraði vagga lýðræðisins í kafi spillingarinnar. Costas Simitis forsætisráðherra Grikklands ætlar nú að reyna að laga þetta og er honum óskað góðs gengis í þeirri baráttu.

II

Á fyrsta starfsdegi Eyjólfs K. Jónssonar í maíbyrjun 1960 sem ritstjóra Morgunblaðsins hringdi síminn á skrifstofu hans: "Þetta er Ólafur Thors, ertu tilbúinn. Ég er með línuna." Eykon kvaðst ekki tilbúinn, hvorki þá né síðar. Hann væri ráðinn ritstjóri af stjórn Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, og hefði í samráði við meðritstjóra sína algerlega frjálsar hendur um efni blaðsins. Hann tæki hvorki við línum frá Kveldúlfi, Sjálfstæðisflokknum eða LÍÚ. Svipaðri reynslu hafði Matthías Johannessen orðið fyrir ári áður í viðskiptum sínum við Ingólf ráðherra Jónsson frá Hellu. Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn, er ég las hin furðulegu ummæli Kristjáns Ragnarssonar á aðalfundi LÍÚ. "Hlutskipti ritstjóra þessa blaðs er aumkunarvert, þegar litið er til þess, að áður fyrr var það í brjóstvörn fyrir atvinnulífið, en nú berst ritstjóri þess fyrir auknum ríkisafskiptum, aukinni skattheimtu og meiri sósíalisma. Það hefði einhvern tíma þótt eftirtektarvert, að síðasta alvöru sósíalistann skuli daga uppi sem ritstjóri Morgunblaðsins." Skömmu eftir LÍÚ ræðuna hitti ég Matthías Johannessen í anddyri Morgunblaðsins og mælti: "Ekki látum við stjórnendur Árvakurs hf. taka ykkur Styrmi af lífi án dóms og laga líkt og í Villta vestrinu forðum daga, þegar byggðin var ávallt hundrað kílómetrum á undan réttarfarinu."

III

Veiðileyfagjald er mjög umdeilt á Íslandi og sýnist þar sitt hverjum og virðist langt í land, að um það náist samkomulag, sem öll þjóðin geti sætt sig við. En kvótabrask á sér formælendur fáa, nema meðal þeirra, sem á því þrífast. Almenningur skilur ekki, að það skuli gefa jafnan hlut að binda bát sinn við bryggju og leigja kvótann, eða stunda sjóinn í misjöfnum veðrum og hætta þannig lífi sínu og limum við að færa aflann að landi. Þetta minnir mjög á blómaskeið leynivínsölunnar í Reykjavík, sem mikið var stunduð hér fyrr á árum hjá Litlu bílastöðinni, sem þá var til húsa, þar sem nú er Hlemmur. Einn bílstjóranna seldi meira áfengi en félagar hans á stöðinni. Þeir urðu afbrýðisamir út í hann, töldu að það væri lágmark að aka vínþyrstum viðskiptamönnum einn hring í kringum stöðina, áður en seld væri flaskan. Þessi hreyfði aldrei bíl sinn, seldi alltaf úr bíl sínum, sem var kyrrstæður úti í horni bílastæðisins. Kom í ljós að bíllinn var vélarlaus. Eigandinn hafði selt vélina úr bílnum. Vonandi er sjávarútvegsráðuneytið ekki að úthluta vélarlausum bátum kvóta. Svo slæmt er það ekki ennþá.

IV

Hugtökin "sósíalisti" og "kommúnisti" hafa verið skýrgreind með ýmsum hætti. Winston Churchill skýrði kommúnisma þannig: "Þeir segja: "Þitt er mitt, en mitt er mitt."" Sósíalisti er sá, sem vill þjóðnýta atvinnutækin og láta reka þau af ríkinu. Útgerðarmenn og sér í lagi "gengisfellingarkórinn" vill ávallt láta þjóðnýta tap sitt, en þegar almenningur vill fá framlag sitt til baka, þegar vel gengur hjá útgerðinni, þá þykjast LÍÚ forkólfarnir ekki þekkja það sama fólk, sem bar byrðar þeirra, er verr gekk. Ég man ekki hvort þetta er kallaður pilsfaldasósíalismi eða eitthvað annað.

V

Ritstjórar Morgunblaðsins telja styrk blaðsins mestan í þeirri staðreynd, að heiftarlegustu árásir, sem gerðar hafa verið á einstaklinga í Morgunblaðinu, hafi verið árásir skólastjóra nokkurs á Drangsnesi á okkur Geir Hallgrímsson. Menn vorkenna þeim mönnum, sem ekki geta hamið skap sitt, hvort sem er í ræðu eða riti.

Þannig varð Kristján Ragnarsson sér til ævarandi skammar á aðalfundi LÍÚ.

Sígild er setning Jóns Vídalíns biskups:

"Reiðin er hóra djöfulsins."

Höfundur er lögfræðingur.

Leifur Sveinsson