Menntagyðja í sárum Menntagyðjan býr við köld atlot, segir Kristján J. Gunnarsson, og er send sem þurfalingur í misjafnar vistir sveitarfélaganna. MIKIÐ má nú á ganga til þess að þeir sem orðnir eru út úr heiminum verði fyrir ónæði af veraldarvafstrinu.

Menntagyðja í sárum Menntagyðjan býr við köld atlot, segir Kristján J. Gunnarsson, og er send sem þurfalingur í misjafnar vistir sveitarfélaganna. MIKIÐ má nú á ganga til þess að þeir sem orðnir eru út úr heiminum verði fyrir ónæði af veraldarvafstrinu.

Einn daginn hrökk ég upp við að Íslendingar höfðu vikum saman ekki um annað rætt en þau uggvænlegu tíðindi að nú var svo komið að gáfaðasta þjóð í heimi var í hópi þeirra stærðfræðifávita sem ekki geta lagt saman tvo og tvo. Þjóðarsálin tók þegar að greina vandann:

a) Var skólakerfið svo vitlaust að ekkert varð af því numið?

b) Voru kennararnir svo vitlausir að þeir gátu ekkert kennt?

c) Voru gáfuðustu börn í heimi svo vitlaus að þau gátu ekkert lært?

Gæðastjórnun

Ýmsir landstólpar og forstjórar urðu áhyggjufullir enda hafði þeim ekki orðið ágengt sem skyldi við að koma á fót einkaskólum fyrir börn sín á kostnað ríkisins. En þeir vissu svarið. Innan skólakerfisins þurfti að koma á gæðastjórnun. Stilla það eins og leiserbyssu með geiglaust skot beint inn í æð framtíðarinnar. Þetta var einfaldlega það sem þeir gerðu í sínum fyrirtækjum og sýndi alls staðar frábæran árangur nema á skattskýrslum.

Snjallræði, en . . .

Gæðastjórnun er snjallræði ef . . :

a) Fyrirtækið getur haft eins lengi opið og keppinautarnir (helst líka á sunnudögum).

b) Fyrirtækið getur borgað það rífleg laun að jafngott starfsfólk fáist og keppinautarnir hafa (helst betra).

Gæðastjórnun er nefnilega eins og öll önnur kerfi, ­ þar á meðal skólakerfi, ­ einungis prump og húmbúkk ef ekki eru fyrir hendi starfskraftar sem færir eru um framkvæmd hennar.

Verkefni fyrir úreldingarsjóð

Skólakerfi er eins og skip á reginhafi. Sé stefnan ekki stöðugt leiðrétt með hliðsjón af veðri og vindum, sjólagi og afdrift, mun þar að koma að skipið sigli í strand.

En auðvitað þarf útgerðin að búa skipið sæmilega að siglingatækjum og kosta því til að ráða færa áhöfn sem kann að taka réttan pól í hæðina.

Þetta er afskaplega einfalt og vandalaust og kostar ekkert, ­ nema peninga.

Gæti ekki úreldingarsjóður, ­ sem alltaf er að sökkva því úrelta og kaupa nýtt í staðinn, fimmtíu prósent stærra og afkastameira en vera þyrfti, ­ gæti ekki þessi ágæti sjóður tekið að sér þetta verkefni?

Útgerð skólaskipsins

Úthald (þ.e. fjöldi sóknarára mældur í kennslustundum) íslenskra grunnskólanema getur orðið allt að tveimur til þremur árum styttra en gerist og gengur hjá miður gáfuðum þjóðum, ­ eins og t.d. þessum Singapaurum sem virðast læra vel þótt lengi séu þeir að því.

Þetta getum við staðreynt meðan við ennþá eigum fáeina stærðfræðinga sem færir eru um að leggja saman vikustundafjölda í aldursflokkum barna- og unglingaskóla (grunnskóla) með skírskotun til fjölda kennsludaga á skólaárinu og bera saman við hliðstæður erlendis. En auðvitað dettur fæstum í hug að tímalengdin (og tímafjöldinn) skipti nokkru máli þegar í hlut eiga okkar súpergáfuðu undrabörn. Þvert á móti hafa landsfeður okkar ár eftir ár við afgreiðslu fjárlaga nartað í hungurlús vesællar námsskrár til að klípa eina kennslustundina úr þessari námsgreininni, aðra úr hinni.

Og þá er nú ekki síðri viðurgerningurinn við áhöfnina. Byrjunarlaun íslenskra grunnskólakennara eru eitthvað yfir 70 þúsund krónur á mánuði og snöggtum hærri en fátækrastyrkur í Reykjavík. Hins vegar væri ógerningur fyrir þá máttar- stólpa þjóðfélagsins sem hafa um eða yfir milljón krónur í mánaðarlaun að merkja að þar væri nokkur munur á.

Og svo eru gagnrýnendur skólakerfisins aldeilis undrandi yfir að fólk með háskólamenntun í stærðfræði skuli ekki flykkjast í grunnskólana til að kenna, þegar það getur fengið þreföld kennaralaun við störf í tölvu- og viðskiptafræðum hjá fyrirtækjum úti í bæ. Hugsjón heilags Frans um veraldlega fátækt er slök söluvara nú til dags.

Samt er það nú svo að þó að kennarar teljist ekki til þeirrar frumskógarelítu þjóðfélagsins sem færust er um að bjarga sér með kjafti og klóm þá er þetta fólk furðu útsjónarsamt við að hafa til hnífs og skeiðar. Vinna við eftirmiðdags- skúringar er stöðugt að verða algengari að ógleymdri sjoppuafgreiðslu á kvöldin.

Og það litla sem fæst fyrir þessar kennslustundir að morgninum er líka ofurlítil uppbót á launin.

Ekki veit ég hvort forstjórarnir í gæðastjórnuninni væru ánægðir með að starfsfólk þeirra byggi við slíkan kost. Eða hvort þeir myndu þá búast við að fyrirtæki þeirra skiluðu hámarksafköstum.

Að gera eða gera ekki

Vitur maður hefur sagt að sá geri ekkert af sér sem aldrei gerir neitt. Þó eru það afstæð sannindi eins og fleira.

Í menntamálum hafa landsfeður langtímum saman haft tilhneigingu til að líta á þetta sem meginreglu, ef undan er skilið lofsvert steinsteypuframlag þeirra til skólabygginga er af sér getur glæstar, en stundum svolítið innantómar, menntahallir sem kjósendur komast ekki hjá að taka eftir. Umfram það vilja peningar til menntamála oft verða af skornum skammti eftir að búið er að þurrmjólka ríkissjóð til atkvæðakaupa og offjárfestinga.

Ráðamenn og almúgi verða að gera sér grein fyrir að orðin ein og sér hrökkva skammt, hversu fallega sem þau eiga að lýsa fyrirmyndar námsskránni eða allra nýjustu skólaspekinni, ­ fögur orð draga skammt ef athöfn fylgir ekki. Það er þess vegna sem þjóðin hefur núna vaknað við vondan draum.

Menntagyðjan

Hvers vegna skyldi íslenska menntagyðjan vera svona döpur? Þykja henni það köld atlot að vera send eins og þurfalingur í misjafnar vistir sveitarfélaganna? Er hana farið að gruna að aðrar dísir hafi verið landsfeðrum kærari en hún?

Höfundur er fyrrverandi fræðslustjóri.

Kristján J. Gunnarsson.