Raunvísindi, stærðfræði og kennslufræði Taka verður mið, segir Örnólfur Thorlacius, af þjóðfélagsskipan og virðingarstiganum.

Raunvísindi, stærðfræði og kennslufræði Taka verður mið, segir Örnólfur Thorlacius, af þjóðfélagsskipan og virðingarstiganum. Í NÝLEGA birtri skýrslu þar sem saman er borin kunnátta nemenda í grunnskólum ýmissa þjóða í stærðfræði og í náttúrufræðigreinum eru íslensk börn neðarlega á blaði. Hvort sem munurinn er meiri eða minni er hann áhyggjuefni og ástæða til að leita skýringa og úrbóta.

Þau fimmtán ár sem ég stýrði menntaskóla skráðu fáir stúdentar af eðlisfræði- og náttúru- fræðibraut sig til náms í Kennaraháskóla Íslands. Þeir fóru frekar í Háskóla Íslands og/eða erlenda háskóla. Margir urðu svo kennarar, en flestir í framhaldsskólum, sérskólum eða háskólum. Þar sem áhugi flestra ungmenna mótar val þeirra á námsbraut í framhaldsskóla þarf engan að undra að of fáir kennarar brautskrást úr Kennaraháskólanum með trausta undirstöðu til að kenna stærðfræði og raungreinar í grunnskóla.

Ég trúi að þetta skýri hluta þess vanda sem birtist í slökum árangri íslenskra grunnskólanemenda í stærðfræði og náttúrufræðum miðað við erlenda jafnaldra.

En hvers vegna sækja verðandi kennarar frekar nám í náttúrufræðum og stærðfræði í háskóla en í kennaraháskóla? Skýringin hygg ég sé einkum sú, og styðst þar við eigin reynslu, að nemendurnir ætli ekki að verða kennarar, þótt þeir uppgötvi síðar að það starf henti þeim vel eða þeim standi ekki annað betra til boða. Háskólanámið er leið að mörgum öðrum lífsstörfum en kennaranámið ekki. Meðan kennarastarf freistar unglinga ekki sem slíkt munu að öðru óbreyttu ekki fást nógu margir hæfir kennarar í náttúrufræði og stærðfræði að grunnskólunum.

Sumir kenna blöndun í bekki um það hvernig komið sé fyrir íslenskum grunnskólanemum, að hvorki færustu né slökustu börnin fái verkefni við hæfi í skólanum eftir að hætt var að raða í bekki eftir getu og kunnáttu. Aðrir telja blöndunina af hinu góða og vitna þar í erlenda reynslu.

Báðir hafa nokkuð til síns máls. Reynsla frá útlöndum bendir til þess að síst lakari árangur náist með því að kenna saman börnum með ólíkar forsendur til náms en að skilja þau að í bekkjum. Hins vegar krefst blöndunin þess að sjálfsögðu að skilyrði séu til að sinna mismunandi þörfum nemenda. Ég var og er enn þeirrar skoðunar að við höfum byrjað á öfugum enda þegar við hættum að raða eftir getu nemenda - þar sem einkum var farið eftir lestrarkunnáttu í upphafi skólagöngu - áður en þessi skilyrði voru sköpuð með einsettum skóla, fámennari bekkjum og minna vinnuálagi á kennara. Sá vandi sem hér er til umræðu verður ekki leystur með því að fara aftur að raða börnum í bekki eftir námsforsendum.

Agi, eða öllu fremur skortur á honum, hefur verið nefndur sem skýring á lélegri frammistöðu sumra nemenda í íslenskum skólum. Þar sýnist mér sé við samfélagið í heild að sakast. Vilji það aukinn aga er hægt að virkja skólakerfið til að koma honum á. En þá verður að herða agann víðar en í skólastofunum.

Ef vinnutími foreldra væri styttri stæðu mörg börn sig betur í skóla. Þar er líka við samfélagið að sakast, ekki skólann.

Kem ég þá að því sem flestir hafa líklega staldrað við í umræðunni um slakan árangur íslenskra barna í stærðfræði og náttúrufræðum, þar sem er þáttur kennslufræðinnar í menntun kennara.

Hér gætir nokkurs misskilnings. Af ýmsum greinum, viðtölum og erindum er sést hafa og heyrst á undanförnum vikum mætti ætla að þessi fræði (nafnið "hjáfræði" hefur líka sést) væru tiltölulega nýr (og óþarfur) þáttur í kennaramenntun á Íslandi, upp tekinn í Kennaraháskóla Íslands eða fyrir tilstilli Rannsóknastofnunar uppeldismála.

Hið sanna er að uppeldis- og kennslufræði voru, löngu áður en þessar stofnanir urðu til, sjálfsagður þáttur í menntun barnakennara og síðan grunnskólakennara. En mér er nær að halda að öll þau dæmi sem nefnd hafa verið í fjölmiðlum að undanförnu til marks um fánýti þessara fræða fyrir kennara í stærðfræði og raungreinum hafi verið af kennurum í framhaldsskólum.

Álit manna á þörf eða þarfleysi menntunar framhaldsskólakennara í uppeldis- og kennslufræðum er fullkomlega óviðkomandi því sem hér er til umræðu, sem er kunnátta íslenskra nemenda í tilteknum aldurshópum grunnskóla í stærðfræði og náttúrufræðum miðað við jafnaldra þeirra í ýmsum öðrum löndum. En með því að margir hafa tjáð sig einmitt um þetta atriði langar mig samt til að staldra við það.

Þegar ég hóf kennslu í menntaskóla fyrir liðlega hálfum fjórða áratug var prófskírteini í uppeldis- og kennslufræðum ekki skilyrði fyrir kennarastöðu, fremur en það er nú fyrir ráðningu til kennslu á háskólastigi. Verðandi menntaskólakennari varð að sjálfsögðu, þá eins og nú, að sanna fagkunnáttu sína, yfirleitt með prófgögnum.

Nú er mun auðveldara en þá var fyrir nemendur að komast inn í menntaskóla og aðra framhaldsskóla. Kennarar þessa skólastigs þurfa því, rétt eins og grunnskólakennarar, að koma til þroska nemendum sem verulega misjöfn skilyrði hafa til að nýta sér kennsluna. Hefur því þótt ástæða til þess, hér jafnt og í þeim löndum sem við berum okkur saman við, að krefjast þess að verðandi kennarar á þessu skólastigi verði sér, auk fagþekkingar í kennslugrein sinni eða kennslugreinum, úti um kunnáttu í kennslufræðum rétt eins og kennarar yngri nemenda.

Allir vita að margir kennarar ná ágætum árangri í starfi án þess að hafa nokkurn tíma notið formlegrar fræðslu í uppeldis- og kennslufræðum. Því miður eru einnig sorglega mörg dæmi um það að skírteini um slíka fræðslu gera menn ekki að góðum kennurum.

En þekkjum við ekki líka öll sprenglærða menn sem geta ekki komið lærdómi sínum til skila í kennslustofu? Ef hafna á uppeldis- og kennslufræðum með þeim rökum að þau geri ekki alla að góðum kennurum má þá ekki á sömu forsendum hafna kröfunni um það að kennarar þurfi að hafa lokið prófum eða sannað á annan hátt kunnáttu sína í þeim fræðum sem þeir eru ráðnir til að kenna? Sú krafa er með réttu gerð til kennara á öllum skólastigum, frá leikskóla til háskóla.

Ég þekki fjölda reyndra ökumanna sem vel væri treystandi til að stýra leigubíl eða strætisvagni í umferð höfuðborgarinnar og margar húsmæður sem hafa vald á flókinni matargerð. En eru það rök fyrir því að leggja eigi niður meirapróf bílstjóra eða réttindanám matsveina?

Sjálfur starfaði ég sem kennari um margra ára skeið og var búinn að temja mér ákveðna kennsluhætti áður en ég fékk formlega tilsögn í uppeldis- og kennslufræðum, fyrst á sumarnámskeiði hérlendis og síðar í ársnámi erlendis. Líklega hafa þessir hættir ekki breyst mikið við tilsögnina, en hún hefði komið sér vel fyrr. Og vel nýttist mér margt í fræðunum við ritun námsefnis og ýmis skipulagsog stjórnunarstörf.

Þar með er ekki sagt að ég sé sáttur við allt skipulag á kennslu í uppeldis- og kennslufræðum fyrir íslenska framhaldsskólakennara. En það er önnur saga og hér á við máltækið að ekki á að hella barninu með baðvatninu.

Í þau ár sem ég veitti forstöðu stærsta menntaskóla landsins vona ég að ég hafi með hjálp samstarfsmanna minna borið gæfu til að ráða að honum góða kennara, meðal annars í náttúruvísindum og stærðfræði. Ég minnist þess sjaldan að ekki væri völ á hæfum mönnum til kennslu í þessum greinum sem bæði hefðu aflað sér menntunar í kennslugreinunum og aðferða- fræði kennslunnar. Sú staða kom einkum upp þegar ráða þurfti í hlutastarf eða til kennslu í náms- greinum þar sem fátt var um fagmenntaða framhaldsskólakennara. Því miður kemur hún einnig oft upp í ýmsum framhaldsskólum víða um land.

Því hefur verið haldið fram að kjör kennara og aðstaða í skólum séu betri hérlendis en í ýmsum löndum þar sem frammistaða barna í stærðfræði og raungreinum taki árangri okkar barna fram. Í þessu efni verður að taka mið af allri þjóðfélagsskipan og virðingarstiganum í hverju landi, meðal annars af mati á vísindum og stærðfræði og þeim sem halda þessum fræðum að skólabörnum.

Það er margt sem getur stuðlað að því - eða spillt fyrir því - að góður árangur náist í skólastarfi, hvort sem í hlut eiga stærðfræði og raungreinar í grunnskóla eða aðrir þættir á öðrum skólastigum. Eitt af frumskilyrðunum er að kennarar njóti þeirrar virðingar sem þeim ber - og vinni að sjálfsögðu einnig til hennar.

Höfundur er fyrrverandi rektor Menntaskólans við Hamrahlíð.

Örnólfur Thorlacius