Um skattlagningu lífeyrisgreiðslna Valið, segir Friðrik Sophusson, stóð milli tveggja mismunandi leiða. HINN 30. nóvember 1996 birtist í Morgunblaðinu grein um skattlagningu lífeyrisgreiðslna eftir Benedikt Davíðsson fyrrverandi forseta ASÍ.

Um skattlagningu lífeyrisgreiðslna Valið, segir Friðrik Sophusson, stóð milli tveggja mismunandi leiða.

HINN 30. nóvember 1996 birtist í Morgunblaðinu grein um skattlagningu lífeyrisgreiðslna eftir Benedikt Davíðsson fyrrverandi forseta ASÍ. Nauðsynlegt er að svara ýmsu því sem þar kemur fram.

Skattkerfisbreytingin 1988

Við upptöku staðgreiðslu tekjuskatts einstaklinga í ársbyrjun 1988 voru jafnframt gerðar ýmsar breytingar á álagningu tekjuskatts. Þær miðuðu fyrst og fremst að því að einfalda staðgreiðsluna með því að hverfa frá margvíslegum frádráttarliðum og taka í staðinn upp einn almennan persónuafslátt frá skatti. Auk þess var aðstoð við húsbyggjendur og barnafólk færð úr formi frádráttar frá skatti í sérstakar bætur. Forsenda þessara breytinga var að skattbyrðin héldist sem næst óbreytt frá því sem áður var.

Leiðrétt

Meðal þeirra frádráttarliða sem felldir voru niður í ársbyrjun 1988 var frádráttur vegna greiðslu iðgjalds launafólks í lífeyrissjóði. Þetta atriði sætti nokkurri gagnrýni enda ekki augljóst samhengi milli ákvörðunar um persónuafsláttinn og þeirrar ákvörðunar. Því var haldið fram að með þessari ákvörðun hefði orðið til tvísköttun á lífeyrisgreiðslum: Annars vegar væri iðgjaldið skattlagt og hins vegar væri útborgun lífeyrisins skattlögð, að því marki sem tekjur viðkomandi væru yfir skattleysismörkum.

Haustið 1994 voru uppi háværar raddir um að hætta þyrfti þessari "tvísköttun". Bent var á tvær leiðir í þessu skyni. Annars vegar mætti hverfa aftur til þess fyrirkomulags sem gilti fyrir árið 1988, þ.e. að undanþiggja iðgjöld í lífeyrissjóði skattlagningu. Hins vegar var einnig bent á þá leið að undanþiggja tiltekinn hluta lífeyrisgreiðslna skattlagningu, eða nánar tiltekið þann hluta sem jafngilti lífeyrisframlagi launafólks. Meginmunurinn á þessum tveimur leiðum er að hin fyrri kemur fyrst og fremst til góða þeim sem enn eru á vinnumarkaði, en hin síðari lífeyrisþegum, þó aðeins þeim sem eru yfir skattleysismörkum.

Ríkisstjórnin ákvað að fara síðari leiðina og kynnti þessa ákvörðun í sérstakri yfirlýsingu 10. desember 1994 og fylgdi henni eftir í lagafrumvarpi sem var samþykkt fyrir áramót. Þar var gert ráð fyrir að 15% af útborguðum lífeyri skyldu undanþegin skatti, en það er talið jafngilda þeim iðgjaldshluta launafólks sem áður hefur verið skattlagður. Það sem eftir stendur, eða 85%, má rekja til iðgjalda sem ekki hafa verið skattlögð og vaxtatekna sjóðanna.

Með því að velja þessa leið var í reynd gengið lengra en að "leiðrétta" fyrir þeirri "tvísköttun" sem verið hafði á árunum 1988-1994 þar sem 15% reglan gilti um alla lífeyrisþega, ekki einungis þá sem greiddu í lífeyrissjóð á þessu tiltekna árabili.

Viðbrögð

Ekki voru allir sáttir við þessa niðurstöðu. Þannig komu fram hörð viðbrögð frá fulltrúum launþega, meðal annars hjá Benedikt Davíðssyni, þáverandi forseta ASÍ, en hann kvaðst í viðtali við Morgunblaðið 13. desember 1994 telja lítið kjöt á beinum þeirrar yfirlýsingar sem ríkisstjórnin sendi frá sér. Sérstaklega taldi hann einn lið í yfirlýsingunni út í hött, en það væru tillögurnar um afnám tvísköttunar lífeyrisgreiðsla, og kallaði hann þær "marklaus skrípalæti". Í viðtali við sama blað daginn eftir, þ.e. 14. desember, sagði Benedikt ennfremur orðrétt:

"Við höfum talið að taka ætti upp þá reglu sem um þetta gilti, áður en staðgreiðsla skatta kom til, þ.e. að 4% iðgjaldshluti launþega til lífeyrissjóða yrði frádráttarbær frá skatti. Þetta hefur verið krafa alveg frá því að skattalögunum var breytt 1988, en það sem ríkisstjórnin hyggst gera nú virkar í gjörsamlega öfuga átt. Þarna er verið að festa í sessi undanslátt frá skatti fyrir þá sem búa við best lífeyriskjör, eða skattafslátt fyrir "hátekjulífeyrisþega" ef einhverjir eru til sam kalla má slíkt."

Þessi sjónarmið komu einnig skýrt fram í sérstakri greinargerð ASÍ, frá 14. desember 1994, en þar var enn áréttað að ríkisstjórnin hefði valið lakari kostinn af tveimur með því að undanþiggja hluta lífeyrisgreiðslna skatti fremur en iðgjaldsgreiðslu launafólks. Í umræðum á Alþingi heyrðust einnig svipuð sjónarmið hjá fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna sem töldu að eðlilegra væri að fara fyrri leiðina, þ.e. að undanþiggja iðgjaldið skattlagningu fremur en taka upp skattfrádrátt vegna lífeyrisgreiðslna.

Breytingar

Þessi mál voru síðan tekin upp á nýjan leik í tengslum við gerð kjarasamninga ASÍ og vinnuveitenda í febrúar 1995. Ein krafa ASÍ var að ríkisstjórnin endurskoðaði fyrri ákvörðun um skattmeðferð lífeyrisgreiðslna og færi fremur þá leið sem ASÍ hafði lagt til, þ.e. að undanþiggja iðgjald launþega skattlagningu.

Ríkisstjórnin féllst á þessa kröfu ASÍ, enda var hún skilyrði þess að unnt væri að ljúka kjarasamningum. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 20. febrúar 1995 kemur fram að ákvörðunin um skattfrádrátt lífeyrisiðgjalda skyldi koma til framkvæmda í þremur áföngum á árunum 1995-1997.

Með þessari ákvörðun voru forsendur fyrri ákvörðunar og lagasetningar að sjálfsögðu brostnar og ríkisstjórnin ákvað því að hverfa frá því fyrirkomulagi á tveimur árum, þ.e. samhliða gildistöku iðgjaldafrádráttarins. Þessi ákvörðun var kynnt í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1996 þar sem gert var ráð fyrir að lækka skattfrádráttinn um helming, úr 15% í 7,5% árið 1996 og fella hann niður á árinu 1997.

Breytingar í kjölfar viðræðna

Enn komu þessi mál til umfjöllunar haustið 1995 og aftur var það í tengslum við kjarasamninga ASÍ og vinnuveitenda vegna endurskoðunarákvæðis í samningunum. Í tengslum við þessa umræðu óskaði forysta ASÍ eftir því að ríkisstjórnin flýtti framkvæmd og gildistöku skattfrádráttar lífeyrisiðgjalda. Á þessa kröfu var fallist og samkvæmt því var ákveðið að lífeyrisiðgjöld launþega skyldu að fullu frádráttarbær á miðju ári 1996 í stað miðs árs 1997. Í kjölfar þessa var talið eðlilegt að taka fyrri ákvörðun um að hverfa frá sérstökum skattfrádrætti í tveimur áföngum til endurskoðunar og fella hann niður þegar á árinu 1996. Sú breyting var síðan lögfest í desember 1995.

Skýrt val

Af því sem hér hefur verið rakið má greinilega sjá að valið stóð milli tveggja mismunandi leiða. Annað hvort var að undanþiggja iðgjaldið sjálft skattlagningu, þ.e hverfa aftur til þess sem gilti fram til ársins 1988. Hins vegar mátti "leiðrétta" fyrir "tvísköttun" með því að heimila sérstakan skattfrádrátt hjá lífeyrisþegum. Ríkisstjórnin valdi í upphafi síðari leiðina, þ.e. þá leið sem ótvírætt kom til móts við kröfur um leiðréttingu vegna "tvísköttunar" áranna 1988-1994 með því að heimila sérstakan skattfrádrátt hjá lífeyrisþegum.

Þessi leið var hins vegar harðlega gagnrýnd, einkum af fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar, sem töldu eðlilegra að heimila skattfrádrátt vegna iðgjaldagreiðslna launþega. Ríkisstjórnin féllst að lokum á þessa kröfu ASÍ til þess að greiða fyrir kjarasamningum og því var horfið frá fyrri ákvörðun um sérstakan skattfrádrátt til lífeyrisþega. Tilgangur ríkisstjórnarinnar var að koma í veg fyrir svokallaða tvísköttun. Valið stóð milli tveggja leiða. Öllum var ljóst frá upphafi að ekki yrðu þær báðar farnar.

Höfundur er fjármálaráðherra.

Friðrik Sophusson