Íþrótta- og æskulýðsmál á árinu 1997 Það er meginmarkmið borgaryfirvalda, segir Steinunn V.

Íþrótta- og æskulýðsmál á árinu 1997 Það er meginmarkmið borgaryfirvalda, segir Steinunn V. Óskarsdóttir, að vinna að uppbyggingu íþróttaaðstöðu fyrir almenning og aðstoða íþróttafélögin í borginni til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar í hverfum borgarinnar.

REYKJAVÍKURLISTINN hefur lagt fram fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 1997. Áætlunin felur í sér nýja hugsun um valddreifingu og ábyrgð, þar sem ýmsar breytingar í rekstri taka gildi frá og með næstu áramótum. Á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs hefur að undanförnu verið unnið að gerð samninga við félagasamtök og stofnanir um rekstur, sem talið er að aðrir aðilar geti staðið betur að en Reykjavíkurborg. Má þar m.a. nefna samning við KSÍ um uppbyggingu mannvirkja og byggingu nýrrar stúku á Laugardalsvelli, samning við Hestamannafélagið Fák um rekstur Reiðhallarinnar í Víðidal, samning við Bandalag atvinnuleikhópa (BAAL) um rekstur Tjarnabíós og samning við Extón-Hljóð ehf. um rekstur hljóðkerfis.

Allt eru þetta eru samningar sem eiga það sammerkt að félagasamtökum er falin ábyrgð á verkefnum sem sannanlega má telja að þau geti leyst betur af hendi, bæði fjárhagslega og faglega, en Reykjavíkurborg.

Styrkir borgarinnar við íþróttafélög

Það er meginmarkmið borgaryfirvalda að vinna að uppbyggingu íþróttaaðstöðu fyrir almenning og aðstoða íþróttafélögin í borginni til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar í hverfum borgarinnar. Á árinu 1997 er gert ráð fyrir að um 265 mkr. fari til félagaframkvæmda á vegum borgarinnar og er það mesta framlag borgarinnar til félagaframkvæmda frá upphafi. Verði ekki gerðir nýir samningar við íþróttafélögin má gera ráð fyrir að framlagið fari lækkandi frá aldamótum.

Auk þessa greiðir borgin félögum í Reykjavík húsaleigu og æfingastyrki í gegnum Íþróttabandalag Reykjavíkur sem nemur um 230 mkr. á ári. Hægt er að fullyrða að stuðningur borgarinnar við íþróttir og íþróttafélög hefur aldrei verið meiri en nú. Með tilkomu sífellt fleiri íþróttahúsa er ljóst að húsaleiga og æfingastyrkjakerfið heldur áfram að þenjast út með tilsvarandi kostnaði. Því hefur Íþrótta- og tómstundaráð nú við framlagningu fjárhagsáætlunar fyrir árið 1997 ákveðið að skipa vinnuhóp sem skoði þær reglur sem í gildi eru um húsaleigu og æfingastyrkjakerfið í samvinnu við Íþróttabandalag Reykjavíkur.

Sundlaug í Grafarvogi

Fleiri mál má telja á "afrekalista" Reykjavíkurlistans í íþróttamálum. Á næsta ári verður bygging sundlaugar í Grafarvogi stærsta einstaka verkefnið á sviði íþróttamála. Hún kemur til með að þjóna bæði íbúum Grafarvogs og öðrum borgrabúum og rís við íþróttamiðstöðina í Grafarvogi. Í mannvirkinu verður 25 metra útilaug og 12 metra kennslulaug, auk potta og útisvæða. Í þessari byggingu hefur sérstaklega verið hugað að þörfum fatlaðra þannig að þeir geti nýtt sér mannvirkið. Gert er í því sambandi ráð fyrir sérstöku búningsherbergi fyrir þá sem fötlunar sinnar vegna geta ekki eða vilja ekki fara í almenna búningsklefa. Allt mannvirkið í heild sinni er síðan hannað með þarfir fatlaðra sem ófatlaðra í huga með skábrautum, handriðum o.fl.

Æskulýðsmál

Æskulýðsmálin verða stór hluti af starfsemi ÍTR á árinu 1997 og hefur Íþrótta- og tómstundaráð nú nýlega samþykkt stefnumótun fyrir æskulýðsmál. Í samvinnu ÍTR, unglingadeildar Félagsmálstofnunar og lögreglu hefur tekist að vinna á þeim vanda sem oft var kenndur við miðborgina. Mjög hefur dregið úr þeim fjölda unglinga sem sóttu miðbæinn að næturlagi um helgar. Að undanförnu hefur vaxandi ofbeldi meðal unglinga verið mikið til umræðu og hafa sjónir manna þá frekast beinst til úthverfanna.

Í stefnumótun fyrir æskulýðsstarfsemi er gert ráð fyrir að félagsmiðstöðvar vinni að forvarnastarfi með börnum og unglingum. Þar er félagsmiðstöðvum gert að hafa frumkvæði að samstarfi við stofnanir, félög og samtök sem hafa hlutverki að gegna gagnvart æskufólki. Íþrótta- og tómstundaráð hefur þannig í samvinnu við ýmsa aðila reynt að vinna með þessi mál m.a. með skipulagningu svokallaðs foreldrarölts í hverfum borgarinnar o.fl. Í þeim hverfum, þar sem ekki er félagsmiðstöð, er gert ráð fyrir sérstökum stuðningi á næsta ári við félags og tómstundastarfs s.s. í Rima- og Engjahverfi.

Með framlagningu fjárhagsáætlunar fyrir árið 1997 hefur Reykjavíkurlistinn sýnt fjölskyldustefnu í framkvæmd. Stefnu sem hefur það að markmiði að bæta hag barna, unglinga og fjölskyldna. Öflugt æskulýðs- og íþróttastarf í hverfum borgarinnar er einn af mikilvægustu þáttunum við mótun heildstæðrar fjölskyldustefnu.

Höfundur er borgarfulltrúi R-listans.

Steinunn V.

Óskarsdóttir