Nýir samningar í höfn hjá Atlanta FLUGFÉLAGIÐ Atlanta hefur samið við Saudi Arabian Airlines um verkefni fyrir tvær Boeing 747 breiðþotur félagsins. Verkefnið hefst síðar í þessum mánuði og varir til loka næsta árs.

Nýir samningar í höfn hjá Atlanta

FLUGFÉLAGIÐ Atlanta hefur samið við Saudi Arabian Airlines um verkefni fyrir tvær Boeing 747 breiðþotur félagsins. Verkefnið hefst síðar í þessum mánuði og varir til loka næsta árs. Hefðbundið pílagrímaflug Atlanta fyrir Saudi Arabian Airlines byrjar í mars á næsta ári og þá verður bætt við tveimur Boeing 747 þotum. Atlanta verður því með fjórar Boeing 747 þotur í Saudi-Arabíu og um 320 starfsmenn þar á næsta ári. Því hefur Atlanta tekið á leigu 100 einbýlishús fyrir starfsmenn sína í Saudi-Arabíu.

Í frétt frá Atlanta kemur fram að með nýja samningnum aukist umsvif félagsins enn frekar í Saudi-Arabíu. Ráðnir hafa verið 9 flugmenn til fyrirtækisins vegna nýrra verkefna og námskeið fyrir allt að hundrað flugfreyjur og flugþjóna eru að hefjast.

Ársveltan um 4,5 milljarðar

Undirritaður hefur verið samningur til tveggja ára um aukin verkefni Atlanta í Bretlandi, bæði í leiguflugi með hópa ferðafólks og í flugi á vegum flugfélagsins Brittania Airways og fyrirtækisins Goldcrest. Alls verða fjórar breiðþotur af gerðinni Tri Star notaðar í þessum verkefnum, auk þess sem fimmta Tri Star þotan verður notuð til skiptis í flugi fyrir viðskiptavini í Bretlandi og á Íslandi en eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu mun Atlanta flytja 8 þúsund farþega á vegum ferðaskrifstofunnar Úrvals-Útsýnar á næsta ári. Auk þess mun Atlanta annast allt leiguflug fyrir Samvinnuferðir-Landsýn á næsta ári.

Atlanta hefur einnig endurnýjað samninga við þýska flugfélagið Lufthansa til ársins 1998 um fraktflutninga fyrir félagið en Atlanta hefur annast fraktflutninga fyrir Lufthansa frá árinu 1990.

Að sögn Guðmundar Hafsteinssonar, skrifstofustjóra Atlanta, hafa umsvif flugfélagsins vaxið gífurlega síðustu fjögur árin og er útlit fyrir að velta ársins 1996 verði um 4,5 milljarðar. "Með nýju samningunum er okkur kleift að nýta flugflota okkar árið um kring en Atlanta er um þessar mundir með 14 þotur í rekstri sem félagið á eða hefur á leigu. Starfsmenn á þessu ári voru um 560 þegar þeir voru flestir og lítur út fyrir að þeir verði á milli 6 og 7 hundruð á næsta ári."