Ovitz hættir hjá Disney vegna árekstra hans og Eisners Los Angeles. Reuter.

Ovitz hættir hjá Disney vegna árekstra hans og Eisners Los Angeles. Reuter.

MICHAEL OVITZ, einn valdamesti maður Hollywood, mun láta af störfum hjá Walt Disney fyrirtækinu vegna endurtekinna árekstra hans og Michaels Eisners stjórnarformanns undanfarna tólf mánuði.

Michael Eisner hefur verið góður vinur minn í 25 ár og það breytist ekki, en nauðsynlegt er að viðurkenna að eitthvað hefur farið úrskeiðis," sagði Ovitz í yfirlýsingu og kvaðst vona að komið yrði í veg fyrir hvers konar óþarfa röskun á starfi fyrirtækisins með ákvörðuninni.

Disney hyggst ekki skýra frá vali á eftirmanni og segir að starfsemi fyrirtækisins verði haldið áfram á sama skipulagsgrundvelli og áður en Ovitz var ráðinn í október 1995 til að auka umsvif Disney stórveldisins í heiminum.

Að sögn Disneys lætur Ovitz af störfum samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi 31. janúar og mun hann starfa áfram sem ráðgjafi fyrirtækisins og stjórnar þess.

Hörð valdabarátta

Með brottför Ovitz lýkur harðri valdabaráttu hans og Eisners. Ovitz mun hafa sagt vinum sínum að hann væri óánægður hjá Disney og leitaði að nýju starfi.

Ég mun saka dugnaðar, sköpunarhæfni og forystuhæfileika Michaels," sagði Eisner, sem benti á að þeir væru gamlir vinir og kvaðst viss um að vinátta þeirra mundi halda áfram.

Eisner sagðist stoltur af öflugu og hugmyndafrjóu starfsliði," sem komið hefði verið á fót á tíu árum, og sagði að Disney mundi halda áfram að byggja upp ný fyrirtæki og varðveita forystuhlutverk núverandi fyrirtækja."

Ovitz leitaði uppi hæfileikafólk ov var manna færastur á því sviði í Hollywood. Disney réð hann skömmu eftir að fyrirtækið keypti sjónvarpsrisann Capital Cities/ABC fyrir 19 milljarða dollara 1995.

Samkvæmt fimm ára ráðningarsamningi á Ovitz rétt á grunnlaunum upp á 1 milljón dollara á ári og kaupauka og tilteknum hlutabréfum á tilteknu verði að verðmæti um 100 milljónir dollara. Ólíklegt er talið að Ovitz komist að svo hagstæðu samkomulagi, einkum ef hann gengur í lið með öðru kvikmyndaveri.

Sérfræðingur segir að það eina sem komi á óvart í sambandi við afsögn Ovitz sé tímavalið. Hann kvaðst ekki hafa búizt við að samstarfi þeirra mundi ljúka svo fljótt.

Lengi hefur verið vitað um árekstra Eisners og Ovitz í Hollywood og er Eisner sagður hafa kvartað yfir því að Ovitz hefði ekki nógu mikið vit á viðskiptum.

Fleiri hafa lent í útistöðum við Eisner. Jeffrey Katzenberg, sem nú er meðeigandi í Dreamworks kvikmyndaverinu hætti störfum hjá Disney 1994 því að honum tókst ekki að hreppa forstjórastöðuna þegar Frank Wells lézt fyrr á árinu.

Kvikmynd um Dalai Lama

Síðasti ágreiningurinn mun hafa snúizt um fyrirætlanir Disneys um gerð umdeildrar kvikmyndar um Dalai Lama, þótt hún geti reynzt hættuleg áformum fyrirtækisins um aukin umsvif í Kína.

Ovitz hefur farið nokkrum sinnum til Kína vegna myndarinnar og mun hafa borið ábyrgð á því að leikstjórinn, Martin Scorsese, var ráðinn til starfa hjá Disney. Eisner mun ekki hafa fallið hvernig Ovitz hélt á málum.

Orðrómur er uppi um að Ovitz hverfi til starfa hjá kvikmyndadeild Sony eða Viacom , sem á Paramount kvikmyndaverið og MTV, en slíkum fréttum er vísað á bug.