Næturvagnar SVR Jóhannesi Sigurðssyni: SVR leggur áherslu á frumkvæði og aðlögunarhæfni að breytilegum þörfum markaðarins.

Næturvagnar SVR Jóhannesi Sigurðssyni:

SVR leggur áherslu á frumkvæði og aðlögunarhæfni að breytilegum þörfum markaðarins. Talsverðar breytingar hafa orðið á skemmtanahaldi í borginni á undanförnum árum með fjölgun kaffihúsa og annarra skemmtistaða í miðborg Reykjavíkur. Þessar breytingar hafa skapað aukna eftirspurn eftir ferðum frá miðborg að úthverfum að næturlagi um helgar. Nauðsynlegt er að þeir sem eru seint á ferli í miðbænum komist klakklaust heim til sín.

Næturakstur hófst haustið 1994

Reglulegar ferðir SVR eru til miðnættis virka daga en til rúmlega eitt aðfaranætur laugardags og sunnudags. Til að mæta þessari auknu eftirspurn eftir ferðum frá miðborg að úthverfum um helgar, var ákveðið að hefja næturakstur um helgar haustið 1994. Tvær leiðir voru í ferðum, leið 125 og leið 130 og var ekið á 60 mínútna fresti, kl. 02:00 og kl. 03:00. Brottför var frá biðstöð neðst í Hverfisgötu. Leið 125 þjónaði Háaleiti, Bústaðahverfi og Breiðholti, en leið 130 þjónaði Sundum, Árbæ og Grafarvogi. Talsverðar sveiflur voru í farþegafjölda milli mánaða og nokkuð áberandi var að ferðirnar kl 02:00 voru illa nýttar og fóru flestir með ferðunum kl. 03:00. Í september 1995 voru farnar 40 ferðir og var heildarfjöldi farþega 1.034 eða 26 að meðaltali í ferð, en í október sama ár var fjöldi farþega aðeins 455 eða 11 að meðaltali í ferð.

Ákveðið var að bæta þjónustuna og koma enn betur til móts við þarfir borgarbúa. Með þetta í huga var ferðaframboðið tvöfaldað í lok október 1995, akstursleiðum lítillega breytt og fyrstu ferðum seinkað um 30 mínútur. Vagnarnir fara nú á 30 mínútna fresti frá kl. 02:30 til kl. 04:00. Brottfararstað var einnig breytt og er nú lagt af stað frá Lækjargötu við MR. Kynningu á þessum breytingum hefur aðallega verið beint að ungu fólki.

Þetta aukna framboð mæltist vel fyrir og hefur verið stöðug aukning á fjölda farþega. Í september í ár var meðalfjöldi í ferð 38 borið saman við 26 í september í fyrra og er það 46% aukning. Heildarfjöldi farþega í september í ár var 2.449 sem er meira en tvöföldun, miðað við sama tíma í fyrra. Í október var farþegafjöldi svipaður eða 2.344 sem er 37 að meðaltali í ferð. Fargjald er aðeins 200 kr. í reiðufé, þannig að það getur haft talsverðan sparnað í för með sér að ferðast með næturvögnunum. Einnig sjá fleiri sér fært að skreppa í miðborg Reykjavíkur að næturlagi um helgar án þess að það hafi umtalsverðan kostnað í för með sér. Á 12 mánaða tímabili, frá 1. nóvember 1995 til 30. október 1996, var heildarfjöldi farþega með næturvögnunum SVR 18.285, þannig að ljóst er að þessi þjónusta er komin til að vera og vonandi verður hægt að auka hana enn frekar í framtíðinni.

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til þess að hvetja lesendur til þess að prófa þessa þjónustu SVR.

JÓHANNES SIGURÐSSON,

forstöðumaður þjónustusviðs SVR.