Kvartett Kristjönu með jólatónleika Selfossi ­ Kvartett Kristjönu Stefánsdóttur sendi nýverið frá sér geislaplötuna Ég verð heima um jólin. Á geislaplötunni eru 10 góðkunn jólalög. Þau eru flest erlend en textarnir íslenskir nema einn.

Kvartett Kristjönu með jólatónleika Selfossi ­ Kvartett Kristjönu Stefánsdóttur sendi nýverið frá sér geislaplötuna Ég verð heima um jólin. Á geislaplötunni eru 10 góðkunn jólalög. Þau eru flest erlend en textarnir íslenskir nema einn. Meðal textahöfunda eru Ómar Ragnarsson, Þorsteinn Eggertsson, Guðlaug Ólafsdóttir og Páll Óskar. Kvartett Kristjönu skipa auk hennar Gunnar Jónsson sem leikur á trommur, Smári Kristjánsson á bassa og Vignir Stefánsson sem leikur á píanó.

Kvartettinum tekst vel upp á þessum jóladiski og víst er að ekki mun síður til takast á árlegum jólatónleikum kvartettsins í Hótel Selfoss á sunnudagskvöld, 15. desember, klukkan 21.00. Á tónleikunum mun kvartettinn flytja lög af nýja diskinum auk þess sem gestir mega eiga von á góðum tilþrifum í öðrum lögum. Þessir tónleikar eru árviss viðburður um jólin og nokkuð sem margir bíða eftir því kvartettinn er vinsæll austan Hellisheiðar og skapar alltaf ákveðna og ljúfa stemmningu þar sem hann kemur fram.

Jóladiskinum hefur verið vel tekið enda söngur Kristjönu einkar fallegur og greinilegt að hún er í stöðugri framför. Hljóðfæraleikurinn kemst vel til skila og í heild verður flutningur laganna sérlega skemmtilegur og yfirbragðið jólalegt.

Morgunblaðið/Sig. Jóns.

KVARTETT Kristjönu Stefánsdóttur, Kristjana ásamt þeim Gunnari, Smára og Vigni.