Gott innlegg TÓNLIST Geisladiskur ANGELI DAEMONIAQUE OMNIGENA IMBECILLI SUNT Angeli Daemoniaque Omnigena Imbecilli Sunt, geisladiskur Inferno 5. Inferno 5 eru Birgir Mogensen, Guðjón R.

Gott innlegg TÓNLIST Geisladiskur ANGELI DAEMONIAQUE OMNIGENA IMBECILLI SUNT Angeli Daemoniaque Omnigena Imbecilli Sunt, geisladiskur Inferno 5. Inferno 5 eru Birgir Mogensen, Guðjón R. Guðmundsson, Ómar Stefánsson, Óskar Thorarensen, Örn Ingólfsson og Jafet Melge. Messa gefur út og dreifir, tekið upp á tónleikum í Rósenberg í október 1996. Lengd 77,07 mín. Verð 1.999 kr.

INFERNO 5 hafa ekki fetað í fótspor annarra hingað til, hafa verið viðloðandi ýmiss konar gjörninga og uppákomur og fylgja engum straumi nú frekar en áður. Angeli Daemoniaque Omnigena Imbecilli Sunt er nafn nýjustu afurðar sveitarinnar, geisladiskur og líklegast sá lengsti sem undirritaður hefur séð, rúmar sjötíu og sjö mínútur, af sjö lögum er lagið Kirtlavessamessa styst eða rúmar tíu mínútur. Lengd laganna er hins vegar mjög við hæfi, tónlistin er nefnilega ambient-tónlist að mörgu leyti og tölvuforritanir leika stórt hlutverk hjá Inferno 5, t.d. er allur ásláttur rafgerður. Platan hljómar vel og er þægileg hlustunar þó að varla sé hægt að mæla með henni til spilunar í útvarp þar sem hlustandinn þarf að vera í ró og næði til að meðtaka tónlistina.

Annað lag plötunnar, Bergmál beinanna, er sérstaklega skemmtilegt, í ambient-tónlistina spinna Inferno "dub" bassalínu við rólegan trommutakt og minnir eilítið á meistara dub-bassalínanna, Jah Wobble, þar endar þó líkingin við þetta afsprengi reggae tónlistarinnar því allt annað en bassalínurnar er gert með hljóðgervlum og tölvum. Notkun hljóðgervlanna, þ.e. hljóðin eru ekki svo frumleg, hafa heyrst áður, bæði í ambient-tónlist svo og í danstónlist, en eru engu að síður notuð á skemmtilegan hátt, enginn söngur er á plötunni enda hefði það varla átt við. Laglínur eru ekki alltaf aðalatriðið heldur myndar hljómsveitin stemningar með undarlegum hljóðum sem eru borin uppi, oftar en ekki af bassatrommutakti.

Gallinn við plötuna er sá að tónlistin verður einhæf við nánari hlustun, lögin eru bæði mjög löng og tilbreytingarlítil á stundum, og oft keimlík, lítið gerist á löngum tíma og bassatromman er einnig mjög ofnotuð, reyndar er Inferno 5 ekki fyrsta hljómsveitin til að falla í þá gryfju. Hljómurinn á plötunni er mjög góður, athyglisvert ef horft er til þess að hún er tekin upp á tónleikum, hann er mjúkur og seiðandi og hæfir tónlistinni, það bætir einnig plötuna mjög að bassinn er ekki leikinn á tölvur og gefur meiri fyllingu og fjölbreytni, þá er og lofsverður hljómurinn í tölvumálmgjöllunum.

Umslag plötunnar er ekki til fyrirmyndar, framhliðin er beinlínis ljót og allt umslagið er frekar illa hannað, lítið fyrir augað og spillir talsvert ímynd hljómsveitarinnar, líklegast hefur það átt að vera mjög dularfullt. Tónlistin stendur fyrir sínu og er nýmæli í íslensku tónlistarlífi, ambient-tónlist, hvað þá góð, hefur varla heyrst fyrr hér á landi. Inferno 5 þurfa ekki að fela sig á bak við undarlegar yfirlýsingar og furðumyndir sem þjóna litlum öðrum tilgangi en þeim að vera skrítnar, tónlist þeirra út af fyrir sig er gott innlegg í íslenska tónlist.

Gísli Árnason