Leiðtogar ESB ná tímamótasamkomulagi um EMU Strangar takmarkanir á fjárlagahalla Sektargreiðslur verða háðar pólitísku mati Dublin. Reuter.

Leiðtogar ESB ná tímamótasamkomulagi um EMU Strangar takmarkanir á fjárlagahalla Sektargreiðslur verða háðar pólitísku mati Dublin. Reuter.

LEIÐTOGAR ríkja Evrópusambandsins náðu í gær tímamótasamkomulagi um ákvæði "stöðugleikasáttmálans" svokallaða og tóku þar með stórt skref í átt að upptöku sameiginlegs gjaldmiðils árið 1999. Samþykkt var málamiðlun eftir deilur milli Frakka og Þjóðverja og ákveðið að setja strangar takmarkanir á leyfilegan fjárlagahalla ríkja sem ganga í Efnahags- og myntbandalag Evrópu, EMU. Hins vegar verður það háð pólitísku mati hvort ríki verða sektuð fyrir of mikinn fjárlagahalla.

"Þetta er sigur fyrir Evrópu, sigur fyrir evróið," sagði Yves­Thibault de Silguy, sem fer með peningamál innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, eftir að samkomulagið var í höfn á fundi leiðtoganna í Dublin.

Waigel kveðst sáttur

Theo Waigel, fjármálaráðherra Þýskalands, sem beitti sér fyrir mjög ströngum skilyrðum varðandi fjárlagahalla ríkjanna, kvaðst vera sáttur við niðurstöðuna þótt þýsku stjórninni hefði ekki tekist að knýja fram bindandi ákvæði um sjálfkrafa sektargreiðslur ríkja sem uppfylltu ekki skilyrðin.

"Stöðugleikasáttmálinn er trúverðugt merki um að evróið verði sterkur gjaldmiðill," sagði Waigel. Aðspurður hvort evróið yrði eins öflugt og þýska markið svaraði hann: "Já, svo sannarlega!"

Ruairi Quinn, fjármálaráðherra Írlands, sagði að á fundi fjármálaráðherra ESB um sáttmálann hefði átt sér stað "heimspekileg og hugmyndafræðileg rökræða um eðli fullveldisins" og bætti við glettnislega að ráðherrunum væri ekki tamt að taka þátt í slíkum umræðum.

Leiðtogarnir staðfestu að þýski seðlabankastjórinn Wim Duisenberg yrði yfirmaður Peningamálastofnunar Evrópu (EMI) og tæki við af Belganum Alexandre Lamfalussy. Jacques Chirac, forseti Frakklands, sagði þó að Duisenberg yrði ekki sjálfkrafa yfirmaður Evrópska seðlabankans, sem ráðgert er að stofna eftir tvö ár.

Samkomulag leiðtoganna felur í sér að verði fjárlagahalli ríkjanna meiri en 3% af vergri landsframleiðslu yrðu þau undanþegin refsingum ef landsframleiðsla þeirra drægist saman um 2% á ári eða meira. Sektargreiðslur yrðu hins vegar háðar pólitísku mati ef efnahagssamdrátturinn yrði meiri en 0,75% af vergri landsframleiðslu.

Leiðtogarnir náðu ennfremur samkomulagi um lagalega stöðu evrósins og með hvaða hætti það yrði tengt gjaldmiðlum ríkja, sem gerast ekki aðilar að EMU. Markmiðið var að koma í veg fyrir að ríkin gætu ákveðið gengislækkanir og bætt þannig samkeppnisstöðu sína gagnvart aðildarríkjum EMU.

Reuter

HELMUT Kohl, kanslari Þýskalands, og Jacques Chirac, forseti Frakklands, að spjalli í hléi á leiðtogafundi Evrópusambandsins í Dublin.