Samkomulag næst um eftirmann Boutros-Ghalis Allt öryggisráðið styður Kofi Annan Sameinuðu þjóðunum. Reuter.

Samkomulag næst um eftirmann Boutros-Ghalis Allt öryggisráðið styður Kofi Annan Sameinuðu þjóðunum. Reuter.

GHANAMAÐURINN Kofi Annan, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fékk stuðning allra aðildarríkja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í atkvæðagreiðslu seint í gærkvöldi. Franska stjórnin féll þá frá þeirri hótun sinni að beita neitunarvaldi gegn honum.

"Ráðið hefur náð samkomulagi um að leggja til við allsherjarþingið að Kofi Annan verði næsti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna," sagði John Weston, sendiherra Bretlands hjá samtökunum. "Þetta er góð niðurstaða fyrir Afríku og Sameinuðu þjóðirnar," bætti Weston við.

Tilnefning öryggisráðsins verður borin undir atkvæði á allsherjarþinginu, sem skipar framkvæmdastjórann formlega, á þriðjudag.

Kjörtímabilið hefst 1. janúar og nái Annan kjöri verður hann sjöundi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Niðurstöðunni fagnað

Boutros Boutros-Ghali, fráfarandi framkvæmdastjóri, hafði dregið framboð sitt til baka eftir að Bandaríkjamenn beittu neitunarvaldi gegn honum. "Framkvæmdastjórinn er ánægður með þessa einróma niðurstöðu og fagnar því sérstaklega að Afríka skuli halda embættinu í annað fimm ára kjörtímabil, eins og framkvæmdastjórinn hefur stefnt að síðustu mánuði," sagði í tilkynningu frá talsmanni Boutros-Ghalis.

Madeleine Albright, sendiherra Bandaríkjanna, kvaðst ánægð með þessa niðurstöðu. Hún fór lofsamlegum orðum um Boutros-Ghali, sagði að hann hefði gegnt embættinu af dugnaði og "sett mark sitt á söguna".

Reuter

KOFI Annan hefur verið aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og stjórnað friðargæslu samtakanna frá 1993. Hann hefur starfað fyrir samtökin í 30 ár.