Brottför Þóris Ragnarssonar heilaskurðlæknis Kostnaður af heilaskurðaðgerð erlendis 6,5 milljónir JÓHANNES M.

Brottför Þóris Ragnarssonar heilaskurðlæknis Kostnaður af heilaskurðaðgerð erlendis 6,5 milljónir

JÓHANNES M. Gunnarsson, lækningaforstjóri Sjúkrahúss Reykjavíkur, segir að vegna brotthvarfs Þóris Ragnarssonar heila- og taugaskurðlæknis til Bandaríkjanna, gæti þurft að senda 5­10 manns í heiladingulsaðgerðir til útlanda, en í þeim aðgerðum hefur Þórir sérhæft sig. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun getur kostnaður vegna heilaskurðaðgerðar á sjúklingi í Bandaríkjunum numið um 6,5 milljónum króna. Líklega væri hægt að senda sjúkling til Evrópu vegna slíkrar aðgerðar og yrði þá kostnaðurinn töluvert lægri. "Aðaláfallið er að þetta er einn af fjórum mönnum sem stunda heilaskurðlækningar hér á landi og það sem gerir okkur órótt er fyrst og fremst það að góður og gegn læknir sjái ekki aðra leið en að fara úr landi. Heiladingulsaðgerðir eru bara einn hluti af þessu," segir Jóhannes. "Ég held ekki að þær muni leggjast af hér á landi. Þórir hefur sérhæft sig í þeim, enda eru þær fáar og því eðlilegt að einn maður hafi þær með höndum. Nú verður einfaldlega einhver annar að leggja sig eftir þeim."

Starfsemin heldur áfram

Jóhannes segir að starf Þóris verði auglýst á næstu dögum. "Ég veit um að minnsta kosti þrjá íslenska lækna erlendis með sömu sérgrein og hann, en það tekur alltaf tíma að finna nýjan mann í svona stöðu. Ég vil samt taka fram að starfsemi heilaskurðlækningadeildar heldur áfram. Hún hefur verið hér síðan 1970 og lengst af með tveimur sérfræðingum en síðast fjórum. Nú verða þeir þrír um tíma. Það verður aukið vinnuálag og dregið úr einhverjum aðgerðum tímabundið."

Þórir hefur sagt að ein ástæða uppsagnar sinnar sé léleg launakjör, enda getur hann ekki bætt sér upp launin með því að vinna svonefnd ferilverk og verk utan sjúkrahúsa. "Aðstaða lækna er mjög mismunandi hvað varðar að bæta sér upp launakjör með því að vinna fyrir Tryggingastofnun," segir Jóhannes. "Það kemur mjög misjafnt niður á greinum, og það eru kannski þeir sem draga þyngst hlassið á spítölunum sem hafa minnsta möguleika á að bæta sér upp launin. Launakerfið er að þessu leyti meingallað. Við getum ekki breytt þessu í þágu einstaklinga, en það hefur verið rætt um að breyta kerfinu í heild sinni."

Ferilverkin í endurskoðun

"Við erum að endurskoða ferilverkin með það í huga að sjúkrahúsin fái ákveðna upphæð til afnota í stað þess að Tryggingastofnun greiði fyrir hvert verk. Endurskoðun verður sennilega lokið snemma á næsta ári," segir Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra. "Með þessu móti hafa þau svigrúm til að semja við lækna og forgangsraða. Við erum með afburða heilbrigðisstarfsfólk og það getur verið erfitt að keppa við umheiminn um það."