Ekki "utanaðkomandi atburður" HÆSTIRÉTTUR hefur sýknað vátryggingarfélag af kröfu manns um rúmlega hálfa milljón króna í skaðabætur vegna áverka sem hann hlaut þegar hann lék tennis við son sinn á malbikuðum tennisvelli í borginni Alicante á Spáni.

Ekki "utanaðkomandi atburður"

HÆSTIRÉTTUR hefur sýknað vátryggingarfélag af kröfu manns um rúmlega hálfa milljón króna í skaðabætur vegna áverka sem hann hlaut þegar hann lék tennis við son sinn á malbikuðum tennisvelli í borginni Alicante á Spáni.

Maðurinn fékk snúningsáverka á hné þegar hann teygði sig eftir tennisbolta og kom síðar í ljós að liðþófi hafði rifnað. Hann var metinn til 10% varanlegrar örorku vegna afleiðinga liðþófameiðslanna, auk 100% tímabundinnar örorku í fjórar vikur og 50% í aðrar fjórar.

Maðurinn vísaði til þess að hann hefði verið slysatryggður hjá vátryggingarfélaginu, en samkvæmt skilmálum tryggingarinnar var með orðinu slys átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.

Félagið hafnaði bótum þar sem ekki hefði verið um utanaðkomandi atburð að ræða og hafnaði fullyrðingu mannsins um að í hinni hröðu atburðarás íþrótta og keppni hlytu allir atburðir, sem valda áverka á íþróttaiðkandanum, að vera utanaðkomandi.

Hæstiréttur staðfesti á fimmtudag niðurstöðu héraðsdóms, sem taldi slysið einungis taka til hreyfingar mannsins sjálfs á tennisvellinum.