Jón Baldvin Hannibalsson er nýkominn úr þriggja vikna ferðalagi um Kína Allt endurómar af atorku og krafti Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram eiginkona hans eru nýkomin úr þriggja vikna ferðalagi um Kína.

Jón Baldvin Hannibalsson er nýkominn úr þriggja vikna ferðalagi um Kína Allt endurómar af atorku og krafti Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram eiginkona hans eru nýkomin úr þriggja vikna ferðalagi um Kína. Jóni var boðið þangað til að taka þátt í umræðum á málþingum sem haldin voru í Peking og Nanjing og átti hann einnig viðræður við tvo háttsetta ráðherra landsins. Ómar Friðriksson ræddi við Jón Baldvin um Kínaförina.

AÐ eru tvö ár frá því ég kom síðast til Peking og Shanghai og borgirnar eru báðar nánast óþekkjanlegar. Peking hefur tekið á sig svip nútímalegrar stórborgar. Háhýsin spretta upp eins og gorkúlur á haug. Það er alls staðar verið að rífa niður gamlar byggingar og reisa nýjar. Þó eru breytingarnar ennþá meiri í Shanghai. Sú borg endurómar af atorku og krafti. Við vorum þar í þrjá daga. Á fyrsta deginum voru þeir að vígja nýja hraðbraut til miðborgarinnar og næsta dag vígðu þeir nýjan áfanga í neðanjarðarlestarkerfinu. Í miðborg Shanghai hefur á hálfu ári risið glæsilegt listasafn. Í borginni búa núna 15 milljónir manna en íbúar hennar voru 13 milljónir þegar ég kom þangað fyrir tveimur árum," segir Jón Baldin Hannibalsson í samtali við Morgunblaðið. Hann er nýkominn úr þriggja vikna ferðalagi um Kína ásamt Bryndísi Schram eiginkonu sinni.

Jón Baldvin fór til Kína í boði Alþjóðamálastofnunar í Peking og var ferðin skipulögð fyrir milligöngu sendiráðs Kína á Íslandi og Ferðamálastofnunar Kína.

Heimsóttu ellefu borgir

"Fyrstu vikuna vorum við í höfuðborginni Peking en síðari tvær vikurnar á ferðalagi vítt og breitt um landið og komum við samtals til ellefu borga á ferð okkar," segir Jón Baldvin.

"Ég hitti þarna einnig að máli tvo ráðherra. Li Lanquing, varaforsætisráðherra og ráðherra utanríkisviðskipta, og Wang Yengfan, varautanríkisráðherra sem er ábyrgur fyrir Evrópumálum. Varaforsætisráðherrann hefur sótt Ísland heim en hann kom hingað í opinbera heimsókn árið 1995. Okkar viðræður snerust fyrst og fremst um samskipti landanna eftir að við tókum upp diplómatísk samskipti með stofnun sendiráðs í Kína, sem hefur nú starfað í tæp tvö ár. Að öðru leyti gerði hann grein fyrir viðskiptaþættinum í utanríkisstefnu Kínverja, þar sem aðalumræðuefnið var Alþjóðaviðskiptastofnunin og erfiðleikar Kínverja í sambandi við inngöngu í stofnunina," segir Jón Baldvin.

Komið hefur verið á samstarfi milli Íslendinga og Kínverja um jarðhitanýtingu í borginni Tangu, og er það verkefni komið vel á veg að sögn Jóns Baldvins. "Við heimsóttum Tangu, skoðuðum staðinn og hittum þar að máli tvo íslenska verkfræðinga sem eru að leggja lokahönd á annan áfanga hitaveituverkefnis. Þar er um tilraunaverkefni að ræða og ef vel tekst til eru þar ýmsir möguleikar," segir hann.

Ýmsir möguleikar í sjávarútvegi

Annað verkefni er samstarf Íslendinga og Kínverja um fiskveiðar, fiskvinnslu og um markaðssetningu á fiski en það verkefni tengist sjávarútvegsverkefni Íslendinga á Kamtsjatka. Er þar um að ræða framhaldsvinnslu á fiskafurðum, viðhald fiskiskipa og markaðssetningu á Japansmarkaði. Jón Baldvin segir að bjartsýni ríki um að þetta samstarf geti orðið mun meira í framtíðinni, sem gæti m.a. skapað margvíslega möguleika á mörkuðum ríkari nágrannaþjóða Kína.

"Þriðja verkefnið sem Kínverjar sýna áhuga á er hugsanleg fjárfesting þeirra í álveri á Íslandi. Þar hafa farið fram óformleg könnun og undirbúningsviðræður en engar sérstakar niðurstöðrur liggja þó enn fyrir," segir Jón Baldvin. Hann segir önnur Norðurlönd komin talsvert lengra en Íslendingar í samstarfsverkefnum í Kína og norræn fyrirtæki hafi haslað sér þar völl.

"Möguleikarnir eru verulegir og ef við náum einhverri umtalsverðri fótfestu á fiskmörkuðum getur þetta breyst fljótlega," segir hann. "Það ætti að vera okkur nokkurt umhugsunarefni af hverju Kínverjar leggja svo mikla áherslu á að hafa góð og náin samskipti við Ísland. Gestgjafar mínir létu það í ljósi að ástæðan fyrir þessari heimsókn væri sú að ég hefði í utanríkisráðherratíð minni beitt mér mjög fyrir bættum samskiptum við Kína," segir Jón Baldvin sem beitti sér m.a. fyrir stofnun sendiráðs í landinu.

Lærdómsrík umræða um opnunarstefnu Kína

Á málþingum, sem Jón Baldvin tók þátt í á vegum utanríkismála- og alþjóðamálastofnanana í Peking, var m.a. fjallað um árangur af umbótastefnunni sem Kínverjar hafa fylgt og um samstarf þjóða í tengslum við Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Ræddi Jón Baldvin á þinginu m.a. um samrunaferilinn í Evrópu og fyrirhugaða stækkun Evrópusambandsins til austurs. Einnig var honum boðið að taka þátt í málþingi sem haldið var í borginni Nanjing þar sem fjallað var um áhrif alþjóðavæðingar á stöðu þjóðríkjanna.

Hann segir að umfjöllunin um opnunarstefnu Kínverja hafi verið lærdómsrík. Rætt hafi verið hvaða leið Kínverjar ættu að fylgja við aðlögun miðstýrðs áætlunarbúskapar að markaðsaðstæðum, með stökkbreytingu eða hægfara aðlögun, sem hefur verið grundvöllur stefnu Kínverja undanfarin ár. "Þeim er mjög ofarlega í huga að forðast þau mistök sem hafa orðið í Rússlandi og telja að ef þeir hefðu farið þá leið, hefði Kína einfaldlega leyst upp vegna þeirra félagslegu vandamála sem af hefðu hlotist," segir hann.

Gætir ótta við að breytingarnar séu of örar

Jón Baldvin segir erfitt að lýsa með orðum þeim öra og stórvirka uppgangi sem á sér stað á stærstu vaxtarsvæðunum í Kína. Opnunarstefnan hefur verið útfærð í áföngum og búin til á þriðja tug þróunarsvæða, þar sem erlent fjármagn fær að leika lausum hala með tímbundnum undanþágum frá tollum og með skattaívilnunum. Skoðuðu Jón Baldvin og Bryndís m.a. þróunarsvæðið Pudong sem fyrir tveimur árum var 250 þúsund manna borg en í dag búa þar 1,5 milljónir manna. Þúsundir erlendra fyrirtækja fjárfesta þar árlega fyrir meira en tíu milljarða bandaríkjadala og Jón segir framkvæmdirnar fara fram af slíkum ægihraða að maður trúi vart sínum eigin augum. "Allt það fólk sem maður kemur í námunda við er fullt af bjartsýni og trú á að sú stefna sem fylgt hefur verið sé að skila árangri. Undir niðri gætir líka ótta við að breytingarnar séu kannski of örar og ef farið verði of geyst geti það leitt af sér pólitískar kollsteypur."

Aðspurður segir Jón Baldvin að vestræn menningarárif séu sums staðar orðin mjög áberandi í Kína. "Sem dæmi má nefna að við fórum á risastórt diskótek í Pekingborg þar sem voru saman komin fjögur þúsund ungmenni. Okkur var sagt að fjögur önnur slík diskótek væru til í borginni. Þetta er að öllu leyti vestrænt diskótek þar sem plötusnúðurinn var amerískur, allt er þetta flóðlýst hávaðamengun með tískudönsurum uppi á hækkuðum palli, klæddum á vestræna vísu," segir hann.

"Við fórum einnig inn í landið til hinnar ævafornu höfuðborgar Xiang og syðst fórum við til "lítils" ferðamannabæjar, eins og þeir orða það, en þar býr ekki nema ein milljón. Xiang er komin mun skemmra á veg en stórborgirnar við strandlengjuna. Samt sem áður má sjá umbæturnar í landbúnaði í héruðunum í kring. Það verður ekki annað séð en að hann sé blómlegur og bændurnir virðast njóta þeirrar stefnu að mega fara með afurðir sínar á markað. Mér kom líka á óvart að húsakynni þar eru betri en ég hafði átt von á," segir hann.

Þrælsóttinn er horfinn

"Miðborg Nanjing er einn allsherjar markaður og ýkjulaust eru þar í það minnsta þúsund sölubúðir sem bjóða allt sem nöfnum tjáir að nefna. Þarna er slík örtröð að maður hverfur í mannhafið en skynjar þó eitt, það býr í eðli þessarar þjóðar einhver einkaframtakshyggja og kaupmennskuástríða. Sjálfsbjargarviðleitnin blasir alls staðar við. Auðvitað sér maður víða merki fátæktar en hún hefur ekki yfir sér þennan ömurleikablæ hinnar dauðu handar, sem áður hvíldi á öllu eins og mara. Þetta víbrar allt af atorku og krafti," segir hann.

Það vakti einnig athygli þeirra hvað unga fólkið tjáði sig tæpitungulaust um ástand mála í landinu og harðstjórn Kommúnistaflokksins á tímum menningarbyltingarinnar. "Á þessu ferðalagi nutum við fylgdar sjö leiðsögumanna sem voru á vegum Ferðamálastofnunarinnar. Þetta var ungt, háskólamenntað fólk. Ekkert þeirra hafði komið út fyrir Kína en þetta er svo hámenntað fólk með góða málakunnáttu að mann rekur í rogastans. Og þau hikuðu ekkert við að tala hreinskilnislega um hvað sem var að viðstöddum fulltrúum kerfisins. Það er út af fyrir sig bylting," segir Jón Baldvin. "Kerfið hefur ekki lengur öll tök. Það var einna merkilegast í þessari ferð, að skynja annars vegar þetta kaupsýslu- og framkvæmdaeðli Kínverja og hvað þeir eru fljótir að grípa tækifærið og hins vegar að þrælsóttinn sem var ríkjandi við að segja hug sinn, er horfinn."

JÓN Baldvin og Bryndís fyrir framan líkneski hins "hlæjandi Búdda" í Wuxi-borg í Jiangsu héraði í Kína.

AÐ loknum viðræðum í Peking við Li Lanqing, varaforsætisráðherra og ráðherra utanríkisviðskipta Kína.

KÍNA er byggt fólki af 56 þjóðernum. Á myndinni má sjá hóp múslima-barna fyrir framan mosku í Xian-borg í Shanxi-héraði.