Kaupleiguíbúðir Hafnarfjarðar Vanskil á leigu 19 milljónir króna VANSKIL leigjenda í kaupleiguíbúðum í Hafnarfirði nema um 19 milljónum króna. Íbúðirnar eru um 60 talsins og vanskilin eru því meiri en sem nemur ársleigu fyrir allar íbúðirnar.

Kaupleiguíbúðir Hafnarfjarðar Vanskil á leigu 19 milljónir króna

VANSKIL leigjenda í kaupleiguíbúðum í Hafnarfirði nema um 19 milljónum króna. Íbúðirnar eru um 60 talsins og vanskilin eru því meiri en sem nemur ársleigu fyrir allar íbúðirnar. Sumir leigjenda hafa ekki greitt neina leigu árum saman.

Skúli Valtýsson, forstöðumaður Húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar, segist ekki kunna neinar sérstakar skýringar á þessu ástandi en bendir á erfitt efnahagsástand og atvinnuleysi á síðustu árum. "Það hefur ekki reynst vel að menn fari inn sem leigjendur og kaupi síðan. Stefnan er að í vaxandi mæli verði mönnum boðið að kaupa strax í upphafi. Nú eru sex kaupleiguíbúðir í byggingu sem eftir á að úthluta en nú gæti verið kominn tími til að leggja meiri áherslu á félagslegar leiguíbúðir," segir Skúli.

Skúli segir að átak hafi verið gert í innheimtu á síðastliðnu ári og í sumum tilfellum verið samið um að breyta vanskilum í skuldabréf. Verstu tilfellin hafi verið send til lögfræðings bæjarins. Hann segir að tveir eða þrír leigjendur hafi verið látnir rýma íbúðir sínar.