Kaupleiguíbúðir Húsnæðisnefndar Sex milljóna króna vanskil afskrifuð HÚSNÆÐISNEFND Reykjavíkur hefur þegar afskrifað sex milljónir króna vegna vanskila á leigugreiðslum í kaupleiguíbúðum.

Kaupleiguíbúðir Húsnæðisnefndar Sex milljóna króna vanskil afskrifuð

HÚSNÆÐISNEFND Reykjavíkur hefur þegar afskrifað sex milljónir króna vegna vanskila á leigugreiðslum í kaupleiguíbúðum. Vanskil sem ekki hafa verið afskrifuð eru rúmlega tólf milljónir króna. Samtals nema þessar upphæðir um hundrað þúsund krónum á hverja kaupleiguíbúð í umsjón Húsnæðisnefndarinnar, en þær eru um 180. Lán fengust til byggingar 30 nýrra kaupleiguíbúða í Reykjavík á þessu ári og fleiri eru í byggingu frá fyrri árum.

"Við höfum nú fært innheimtuna út úr stofnuninni í banka. Þegar vanskil hafa náð þremur mánuðum fara þau til lögfræðings og þar er þeim fylgt eftir af fyllstu alvöru. Vandinn er uppsafnaður frá árinu 1991 en mér sýnist að þetta sé heldur að fara í rétt átt hjá okkur," segir Pálmi R. Magnússon, formaður Húsnæðisnefndar Reykjavíkur. "Það er búið að sækja um lán hjá Húsnæðisstofnun fyrir þeim kaupleiguíbúðum sem nú eru í byggingu. Þær verða því nýttar sem slíkar en nefndin hefur tekið ákvörðun um að bæta ekki við fleirum á næstu árum."