Kínverjarnir bráð svikahrappa ÚTLENDINGAEFTIRLITIÐ yfirheyrði í gær kínversku ungmennin fjögur sem stöðvuð voru á Keflavíkurflugvelli á þriðjudag með fölsuð vegabréf.

Kínverjarnir bráð svikahrappa

ÚTLENDINGAEFTIRLITIÐ yfirheyrði í gær kínversku ungmennin fjögur sem stöðvuð voru á Keflavíkurflugvelli á þriðjudag með fölsuð vegabréf. Jóhann Jóhannsson yfirmaður útlendingaeftirlitsins segir ljóst að fólkið komi frá meginlandi Kína og hafi verið bráð óprúttinna svikahrappa.

"Þau ætluðu að láta ameríska drauminn rætast og komast vestur um haf, en þeir menn sem þau treystu á og borguðu fé fyrir skildu þau eftir hér," segir Jóhann.

Aum og vegalaus

Hann segir ekki fullljóst hversu háa greiðslu Kínverjarnir inntu af hendi, en þó sé ljóst að um nokkur þúsund dollara sé að ræða.

"Þau eru aum yfir því að hafa tapað öllu þessu fé og vera hér vegalaus í íslenska drauminum, sem er annar en sá sem þau sóttust eftir. Því hafa þau óskað eftir aðstoð okkar til að komast heim aftur og við ætlum að reyna að freista þess, en til þess að svo sé unnt verður fyrst að fá formlega staðfestingu á hver þau eru frá Kína og afla löglegra skilríkja fyrir ferðalagið," segir Jóhann. "Það gæti verið tímafrekt, en við reynum þó að hraða allri málsmeðferð eftir megni."

Hann segir að reynist saga þeirra standast nánari skoðun, verði þau ekki send utan eins og um sakamenn væri að ræða, heldur reynt að útvega þeim farmiða til að komast rakleiðis til Kína.

Tveir menn sem skipulögðu ferð fólksins hafa verið í yfirheyrslu hjá kanadískum yfirvöldum undanfarna daga og hefur útlendingaeftirlitið að sögn Jóhanns óskað frekari upplýsinga frá Kanada um þá og niðurstöður rannsóknar á þeirra högum.