Skoðanakönnun Gallups 87% mjög eða nokkuð trúaðir RÚMLEGA 12% þeirra sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Gallups um trú Íslendinga, telja sig mjög trúuð.

Skoðanakönnun Gallups 87% mjög eða nokkuð trúaðir

RÚMLEGA 12% þeirra sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Gallups um trú Íslendinga, telja sig mjög trúuð. Um þrír af hverjum fjórum, eða 74,9%, telja sig nokkuð trúaða og 13% ekki trúuð eða sannfærða trúleysingja.

Úrtak könnunarinnar var 1.250 manns úr þjóðskrá og svöruðu 75,4%. Af þeim 87% sem eru mjög eða nokkuð trúuð játa eða aðhyllast rúmlega 94% lúterska trú en tæplega 6% aðra trú, kristna eða ekki kristna. Þeir sem aðhyllast aðra trú en lúterska eru trúaðri, eða 43%, sem segjast vera mjög trúaðir en rúmlega 12% lúterskra manna segjast vera mjög trúuð.

Rúmlega 17% karla telja sig trúlaus eða sannfærða trúleysingja en aðeins 9% kvenna. Höfuðborgarbúar eru síður trúhneigðir eða 10,2% en landsbyggðafólk með 15,1%. Tæplega 22% þeirra, sem styðja stjórnarandstöðuflokkana eru ekki trúuð eða sannfærðir trúleysingjar en aðeins rúmlega 7% þeirra sem styðja stjórnarflokkana.

Spurt um næsta biskup

Í könnun Gallup um hvern fólk vildi fá sem næsta biskup kom fram að flestir, eða 9,8%, vildu Karl Sigurbjörnsson. 66,2% aðspurðra tóku ekki afstöðu.

Tveir af hverjum þremur vildu ekki eða gátu ekki tekið afstöðu til spurningarinnar. Karl Sigurbjörnsson var nefndur oftar en nokkur annar sem hæfasti kosturinn. Næst koma þeir Pálmi Matthíasson og Sigurður Sigurðarson með um 5% hvor. Auður Eir Vilhjálmsdóttir fékk 3%. Tæplega 11% nefndu aðra, sem þeirra val í biskupsembætti.