Viðskipti með aflaheimildir Sjómenn sagðir hlunnfarnir VIÐ aðra umræðu fjárlaga á Alþingi í gær vakti Gísli S.

Viðskipti með aflaheimildir Sjómenn sagðir hlunnfarnir

VIÐ aðra umræðu fjárlaga á Alþingi í gær vakti Gísli S. Einarsson, þingmaður jafnaðarmanna og framsögumaður nefndarálits minnihluta fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarpið, athygli á meintu misferli í viðskiptum með aflahlutdeildir skipa. Sagðist Gísli telja vera um skattsvik að ræða í því sambandi, sem fælust einkum í því, að með því að vera knúnir til að taka þátt í kvótakaupum útgerða væru sjómenn hlunnfarnir um tekjur, og ríkissjóður þar af leiðandi um tekjuskatt.

Gísli rakti frásögn af því sem hann kallaði dæmi um misferli varðandi hlutaskipti til sjómanna. Í nýlegu viðtali við skipstjóra nokkurn í Fiskifréttum hafi komið fram, að afli skips hans sé seldur til fiskverkunar með þeim hætti að þegar skipið landar fjórum tonnum af afla sé greitt fyrir hann með peningum fyrir eitt tonn en með kvóta fyrir þrjú. Þannig fái áhöfnin lítið fé í sinn hlut fyrir aflann.

Brot á kjarasamningi

Af þessu dæmi sé ljóst, sagði Gísli, að áhöfn skipsins sé að fjármagna kvótakaup útgerðarinnar en það væri brot á kjarasamningi sjómanna.

Gísli minnti á yfirlýsingar forystumanna samtaka fiskvinnslustöðvanna um að fiskverð sé "allt of hátt". Fiskvinnslufyrirtækið sem keypti aflann í ofangreindu dæmi hefði að sögn Gísla sennilega greitt um 70 kr. á hvert kíló aflans til útgerðarinnar, en því til viðbótar þriggja tonna kvóta, en gangverð hans er nú um 70 kr. Þannig fengi útgerðin greitt sem svarar 122,5 kr. meðalverð fyrir hvert kíló aflans, en hluti áhafnarinnar væri reiknaður út frá 70 kr./kg; þannig væru sjómennirnir hlunnfarnir og ríkissjóður yrði af talsverðum tekjuskattstekjum.

Gísli rakti annað svipað dæmi og beindi loks þeirri spurningu til fjármálaráðherra, hvort hann teldi ekki ástæðu til að kanna af hve miklum tekjum ríkissjóður verði vegna þessa.

Friðrik Sophusson lagði áherzlu á, að hér væri um tvíþættan vanda að ræða. "Annars vegar er þetta brot á kjarasamningi og lögum vegna skiptingar milli sjómanna og útgerðar, og hins vegar er þetta skattalögbrot," sagði Friðrik og upplýsti, að verið væri að athuga skattalagabrotin.