"Ókurteisi" Frakka við Christopher Reynt að draga úr spennunni París. Reuter.

"Ókurteisi" Frakka við Christopher Reynt að draga úr spennunni París. Reuter.

FRANSKA stjórnin reyndi í gær að bæta úr fyrir sér gagnvart Bandaríkjastjórn en þá höfðu fjölmiðlar skýrt frá því, að Herve de Charette, utanríkisráðherra Frakklands, hefði sýnt Warren Christopher, fráfarandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mikla ókurteisi.

Þetta mál hófst á fimmtudag þegar bandaríska dagblaðið The Washington Post sagði, að De Charette hefði gengið út þegar skálað var fyrir Christopher á fundi hjá NATO í Brussel fyrr í vikunni. Franska stjórnin og Javier Solana, framkvæmdastjóri NATO, neituðu, að nokkuð væri hæft í þessu en bandaríska utanríkisráðuneytið staðfesti fréttina og bandarískur embættismaður sagði, að De Charette hefði verið "ákaflega ókurteis".

Skrifstofa De Charette venti þá sínu kvæði í kross og sagði, að hann hefði ekki móðgað Christopher af ráðnum hug. Sagði franskur embættismaður, að skálaræða Solana til heiðurs Christopher hefði ekki verið á dagskránni.

Þetta mál þykir sýna vel spennuna, sem er milli Bandaríkjamanna og Frakka, en þeir hafa deilt um breytingar á hernaðarlegu skipulagi NATO, um eftirmann Boutros Boutros-Ghalis í embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um aukin afskipti Frakka af deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs og um afstöðuna til stjórnvalda í Zaire.