Chirac boðar meiri niðurskurð JACQUES Chirac Frakklandsforseti uppskar bæði skammir og hrós fyrir sjónvarpsviðtal sem birt var á fimmtudagskvöld, þar sem hann boðaði framhald á niðurskurði hins opinbera.

Chirac boðar meiri niðurskurð

JACQUES Chirac Frakklandsforseti uppskar bæði skammir og hrós fyrir sjónvarpsviðtal sem birt var á fimmtudagskvöld, þar sem hann boðaði framhald á niðurskurði hins opinbera. Hefur hann dregið mjög úr vinsældum forsetans og ríkisstjórnarinnar.

Í tveggja klukkustunda viðtali sagði Chirac að landsmenn yrðu að taka á sig enn frekari "stífan" niðurskurð, ef ná ætti tökum á fjárhag landsins og Frakkland gerðist aðili að myntsamstarfi Evrópu. Þetta yrði að gerast áður en hægt væri að rétta franskan efnahag við og draga úr atvinnuleysi. Hins vegar kæmi gengisfelling ekki til greina.

Margir báru í gær lof á forsetann fyrir að þora að halda áfram óvinsælum aðgerðum en andstæðingar hans sögðu hann einfaldlega hræddan við að viðurkenna mistök sín.