Flóttafólk snýr aftur til búða Benaco­búðum, Tanzaníu, landamærum Rúanda og Tanzaníu. Reuter. ÞÚSUNDIR flóttamanna brutust í gær gegnum varðlínu hers Tanzaníu og sneru aftur í búðir í norðvesturhluta landsins.

Flóttafólk snýr aftur til búða Benaco­búðum, Tanzaníu, landamærum Rúanda og Tanzaníu. Reuter.

ÞÚSUNDIR flóttamanna brutust í gær gegnum varðlínu hers Tanzaníu og sneru aftur í búðir í norðvesturhluta landsins. Mörg þúsund manns streymdu einnig frá Tanzaníu til Rúanda.

Starfsmaður flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna sagði að sennilega væru um fimm þúsund manns komin til Rúanda. Hins vegar væru um 300 þúsund manns á leið aftur til búða, sem fólkið hefði flúið frá á sunnudag.

Fréttamenn töldu að um 100 þúsund manns væru á leiðinni til Rúanda á ný.

"Stíflan brast og þúsundir sneru aftur til Benaco­búðanna," sagði David Fox, fréttaritari Reuters. "Hermennirnir börðu nokkuð marga með prikum, en þegar ljóst var að þeir gátu ekki stemmt stigu við flóðinu héldu þeir að sér höndum og fylgdust aðeins með."

Fyrr í gær var sagt að nærri hálf milljón flóttamanna í Tanzaníu hefði yfirgefið búðir sínar nærri landamærum Rúanda og að fólkið hefði haldið inn í land af ótta við að verða sent nauðugt aftur til Rúanda í lok desember eins og tanzanísk stjórnvöld höfðu hótað. Her Tanzaníu hafði sett upp tálma á vegi til að hefta för mannfjöldans. Flóttamennirnir sneru við, en komust þá að því að búðunum hafði verið lokað.